06.05.1955
Efri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefur verið venja nú um nokkuð langa hríð, að opinberum starfsmönnum hefur verið greidd verðlagsuppbót eftir sömu reglu og öðrum launþegum. Sú regla, sem um hefur samizt hverju sinni um greiðslu verðlagsuppbótar, hefur verið tafarlaust látin gilda fyrir opinbera starfsmenn. Undanfarið hefur verðlagsuppbót verið skert, sem kallað er, hún hefur ekki verið greidd full eftir að laun hafa náð vissu marki. Í samningum þeim, sem nú er nýlokið, var þessi skerðing á verðlagsuppbótinni afnumin. Bandalag opinberra starfsmanna hefur mjög eindregið farið þess á leit við ríkisstj., að sami háttur verði nú á hafður og áður, þannig að sama regla verði látin gilda þegar um greiðslu verðlagsuppbótar fyrir opinbera starfsmenn og aðra launþega.

Ríkisstj. hefur íhugað þetta mál og vill koma til móts við óskir opinberra starfsmanna á þann hátt, sem greinir í því frv., sem hér liggur fyrir.

Er þá fyrst að greina frá því, að ríkisstj. sér ekki ástæðu til, að nýr háttur verði upp tekinn um greiðslu verðlagsuppbótar fyrr en 1. júlí. Þykir það hæfilega til tekið eftir ástæðum. Enn fremur stingur ríkisstj. upp á, að vísitöluskerðingin sé afnumin að vissu marki, þ.e.a.s. afnumin að fullu á laun, sem svara til VII. launaflokks, en á þann hluta launa, sem fer fram úr launum í VII. launaflokki, verði greidd 23% eins og verið hefur. Þykir ríkisstj. nægilegt að ganga þetta langt núna, en mun á hinn bóginn gera það að till. sinni í sambandi við launalagafrv., sem hún ætlar sér að leggja fyrir næsta þing, að vísitöluskerðingin verði afnumin að fullu.

Nú er þess að geta, að skerðingin á verðlagsuppbótargreiðslum hefur ekki náð til þeirra lægst launuðu. Ef ríkisstj. styngi upp á því einu saman að afnema vísitöluskerðinguna að því marki, sem ég hef ]ýst, þá mundu engar breytingar verða á launum þeirra lægst launuðu, fyrr en þá væntanlega um næstu áramót, þegar búið væri að setja ný launalög. Að athuguðu máli þykir ríkisstj. þetta ekki sanngjarnt, og með tilliti til þess, að ný launalög munu ekki öðlast gildi fyrr en um næstu áramót, þá leggur ríkisstj. nú til, að þeir lægst launuðu fái nú nokkra aukauppbót í sambandi við þessar fyrirhuguðu breytingar á verðlagsuppbótinni. Ákvæðið er þannig, að nái hækkun verðlagsuppbótar nú ekki 5%, þá verði með sérstakri uppbót fyllt upp í 5%, þannig að enginn fái minni hækkun en 5%.

Það skal tekið fram, að bandalag opinberra starfsmanna hefur ekki farið fram á neina breytingu á grunnlaunum nú, heldur aðeins gert um það eindregna kröfu, að verðlagsuppbót yrði lögleidd hin sama og samið var um nú síðast í kjarasamningunum. Þótt bandalag opinberra starfsmanna hafi ekki óskað eftir neinni breytingu á grunnlaununum, þá er samt í þessum till. ríkisstj. nokkur breyting á grunnlaunum, eins og menn skilja af því, sem ég þegar hef sagt, — breyting, sem þó nær aðeins til hinna lægst launuðu.

Með þessu hygg ég að gerð hafi verið grein fyrir aðalatriðum frv. Nú er ætlunin að ljúka þingi á miðvikudag, eins og menn vita. Ég geri það að till. minni, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn. Tel ég sjálfsagt, að það fái alla þinglega meðferð, en vil leyfa mér að óska eftir því við n. og hæstv. forseta þessarar d., að þannig verði til stillt, að frv. hljóti fullnaðarafgreiðslu áður en fundum d. lýkur.