18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

183. mál, húsnæðismál

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. gat þess í framsöguræðu sinni, að meðal þeirra aðila, sem unnið hefðu að undirbúningi þessa máls, hefði ríkt einhugur, mikill einhugur, sagði hann, um meginatriði málsins.

Þetta frv., sem hér er til umræðu, er árangar af tveggja ára samningaviðræðum núverandi stjórnarflokka um lausn eins mesta og stærsta félagsvandamáls, sem nú steðjar að íslenzku þjóðinni, húsnæðisvandamálsins. Það hefði varla átt að taka tvö ár að koma sér saman um frv. um þetta aðkallandi vandamál, ef mikill einhugur hefði ríkt um lausn þess í herbúðum stjórnarflokkanna, enda mun svo ekki hafa verið. Það er langt síðan ríkisstj. skipaði sérstaka nefnd til þess að gera tillögur um úrbætur í þessu þýðingarmikla vandamáli. Innan þeirrar n. mun samkomulagið ekki hafa verið gott. Við það bætist svo, að þegar ríkisstj. fékk málið í sínar hendur, þá tók hún upp allt aðra stefnu en hennar eigin nefnd, húsnæðismálanefndin, hafði látið móta störf sín. Innan húsnæðismálanefndarinnar var m.ö.o. mikill ágreiningur um ýmis meginatriði málsins, og milli hennar og hæstv. ríkisstj. var enn fremur mikill ágreiningur um meginatriði málsins. Landsbankinn, sjálfur þjóðbankinn, virðist svo hafa haft þriðju skoðunina á lausn málsins. Þetta frv., sem nú sér dagsins ljós eftir tveggja ára rifrildi í stjórnarherbúðunum, er árangur af samkomulagstilraunum milli þessara stríðandi aðila: húsnæðismálanefndarinnar, ríkisstj. og þjóðbankans. Ég skal láta ósagt um það á þessu stigi málsins, hvers sjónarmið það eru, sem aðallega móta þetta frv., og þó held ég að sé óhætt að segja, að húsnæðismálanefndin, sem þó var skipuð til þess að gera till. um lausn málsins, eigi minnstan þátt í því. Þetta frv. er fjarskyldast hugmyndum hennar um lausn málsins af hugmyndum þeirra þriggja aðila, sem ég nefndi. Frv. er fyrst og fremst eins konar samkomulagsviðleitni á milli ríkisstj. og Landsbankans.

Ég sagði áðan, að hér væri um að ræða mál, sem hiklaust yrði að telja mesta félagslega vandamálið, sem nú steðjar að íslenzku þjóðinni. Ég skal með örfáum orðum finna þessari staðhæfingu minni stað.

Fyrir tveim árum fór fram allrækileg athugun á herskálaíbúðum hér í Reykjavík. Það kom í ljós, að þá bjuggu í herskálum hvorki meira né minna en 2320 manns. Þá kom í ljós það, sem enn þá athyglisverðara, og enn þá skammarlegra var, að á undanförnum árum hafði íbúum herskálanna farið fjölgandi. 1948 var íbúatalan 2158 manns, 1950 var hún 2210, en 1952 var hún komin upp í 2320. Hún var smám saman að þokast upp á við. 10 árum eftir lok styrjaldarinnar búa enn þá hátt á 3. þús. manns í herskálum hér í Reykjavík, í herskálahúsnæði, sem að langmestu leyti verður að teljast algerlega óviðunandi. Þegar það er haft í huga, að við höfum nú að baki okkar hálfan annan áratug, sem hiklaust verður að telja eitthvert mesta góðæri, sem yfir þessa þjóð hefur gengið, þá verður það ekki annað kallað en svívirða, ekki annað en smánarblettur á íslenzku stjórnarfari, berandi vott um ófyrirgefanlega vanrækslu af hálfu stjórnarvalda, að nokkuð á 3. þús. manns skuli enn verða að búa í slíku húsnæði.

Langmestur hluti íbúanna er fjölskyldufólk. Af íbúunum voru 630 karlar, 668 konur og 1022 börn. Ég endurtek þetta: 1022 börn undir 16 ára aldri. En herskálarnir eru ekki einu íbúðirnar hér í Reykjavík eða hér á Íslandi, sem algerlega óviðunandi verða að teljast. Enn býr mikill hluti Reykvíkinga, allt of mikill hluti þeirra, í kjallarahúsnæði. Áhugi stjórnarvaldanna á högum þess fólks hefur þó ekki verið meiri en svo, að engin athugun hefur farið fram á kjallarahúsnæði hér í Reykjavík síðan 1946, eða fyrir næstum einum áratug. En þá fór fram allýtarleg skoðun á kjallaraíbúðum í Reykjavík, og þá kom í ljós, að þær voru hvorki meira né minna en 1884 að tölu. Í þessum kjallaraíbúðum bjuggu 6089 manns. 2037 manns bjuggu í íbúðum, sem taldar voru lélegar, 411 í íbúðum, sem taldar voru mjög lélegar, — það voru heilbrigðisyfirvöld, sem skoðuðu íbúðirnar, — og 260 manns bjuggu í íbúðum, sem voru úrskurðaðar algerlega óhæfar. Þess er að geta, að langflestar þessar íbúðir eru enn í notkun. Það er vitað, þótt hins vegar sé ekki um það vitað, hversu margir íbúar þeirra séu nú.

Þetta segi ég aðeins til þess að undirstrika, hvílíkt gífurlegt félagsvandamál húsnæðisbölið á Íslandi og þó sérstaklega í Reykjavík er. Það er til að snúast við þessu böli, sem þetta frv. er lagt fram. Þetta frv. túlkar afstöðu hv. núverandi stjórnarflokka til lausnar þessa vandamáls, til þess fólks, sem við þetta böl á enn að búa.

Ég skal geta þess í upphafi, að þetta frv. hefur nokkra kosti. Í því er í fyrsta lagi gerð tilraun til þess að skipuleggja með nokkrum hætti lánamarkaðinn, en á honum hefur undanfarið ríkt hin hörmulegasta ringulreið. Þetta er lofsvert og til bóta. Þá er og í frv. gefið vilyrði fyrir nokkru nýju lánsfé, þótt upplýsingar frv. um það séu að ýmsu villandi, eins og ég mun síðar koma að. Það er einnig lofsvert og til bóta, að gerð skuli tilraun til þess að útvega þeim, sem þurfa nýjar íbúðir, nokkurt aukið lánsfé. Hver milljónin er þakkarverð, sem til þess skal varið. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í frv., að upp skuli tekin útgáfa vísitölubundinna verðbréfa. Þetta er nýmæli, sem ég hygg að sé vel þess vert að reynt sé. Og í fjórða lagi er gert ráð fyrir því, að upp verði tekin leiðbeiningastarfsemi fyrir almenning í því skyni að draga úr byggingarkostnaði og að efna til tæknirannsókna í sama skyni, og er þessi viðleitni lofsverð. En þar með eru kostir frv. upp taldir. Gallar þess eru því miður margfalt meiri en þessir kostir, sem ég hef drepið á. Og nú skal ég víkja að þeim.

Vil ég segja þegar í upphafi, að það er íhaldssvipur á þessu frv., það er mótað af íhaldssjónarmiðum. Þetta frv. er fyrsta frv. um húsnæðismál, sem ég man eftir, síðan ég kom á Alþingi, þar sem engin tilraun — bókstaflega engin tilraun — er gerð til þess að leysa húnæðisvandamálið sem félagslegt vandamál, þar sem engan stuðning er að finna við hina fátæku í þjóðfélaginu, þar sem engin ákvæði er að finna, sem beinlínis er ætlað að létta undir með þeim, sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni, og gera þeim kleifara en ella að koma sér upp eigin húsi. Það er meginregla þessa frv., að ríkir og fátækir skuli vera jafnir fyrir þessum lögum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hve því fer fjarrí, að fátækir og ríkir séu jafnir fyrir öllum lögum í þessu landi. En þegar ríkisstj. leggur fram frv., þar sem um það er að ræða að miðla eftirsóttum réttindum, þá skulu hinir ríku vera gerðir jafnir hinum fátæku. Í þessu frv. er ekkert stórátak til þess að bægja frá dyrum almennings því mikla böli, sem húsnæðisvandamálið er, og það er þess vegna, sem það er ómengaður íhaldssvipur yfir frv. í heild, þrátt fyrir þá kosti, sem ég gat um í upphafi máls míns að þó væru á því.

Húsnæðisvandamálið verður ekki leyst án stuðnings opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga; það verður ekki leyst án verulegra opinberra fjárframlaga. Herskálaíbúðunum verður ekki útrýmt, nema ríki og sveitarsjóðir telji það skyldu sína að útrýma þeim. Og það verður ekki komið upp nægilega mörgum íbúðum, sem láglaunafólk telji sig hafa efni á að búa í, nema ríki og sveitarfélög á einn eða annan hátt styrki lægst launaða fólkið til þess að geta eignazt þessar íbúðir. Með öðrum orðum: Húsnæðisvandamálið verður, eins og hér er ástatt nú í dag, alls ekki leyst án verulegra fjárframlaga af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Og hvað ætlar ríkissjóður samkv. þessu frv. að leggja fram til lausnar þessa mikla vandamáls? Samkv. frv. ætlar ríkissjóður að leggja fram 3 millj. kr. á ári í fimm ár til að leysa þetta mesta félagsvandamál íslenzku þjóðarinnar. Til þess að menn geri sér grein fyrir því, hvað hér er um hlægilegar upphæðir að ræða, er nægilegt að minna á það, að undanfarin tvö ár fóru tekjur ríkissjóðs fram úr áætlun um hvorki meira né minna en 188 millj. kr. Það streymdi inn í ríkissjóðinn 188 millj. kr. meira á s.l. tveimur árum en Alþ. hafði áætlað. Og eftir slík góðæri kemur hæstv. ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. með frv., sem er ætlað að leysa mikið félagslegt böl, — og hverju ætlar hún að verja til þess? 3 millj. kr. á ári í næstu fimm ár, samtals 15 millj. kr. Þessi upphæð svarar til 1/2% af árlegum ríkistekjum. Ríkissjóður ætlar að verja hálfum af hundraði af árlegum tekjum sínum í því skyni að bægja frá dyrum almennings því ógnarböli, sem húsnæðisvandamálið hlýtur að teljast. Og meira að segja þetta er bundið skilyrði. Það er bundið því skilyrði, að sveitarsjóðir leggi fram jafnmikla upphæð á móti, svo að fáist ekki 3 millj. kr. úr sveitarsjóðunum, þá ætlar ríkissjóður ekki einu sinni að leggja fram fyrrnefnda upphæð til lausnar þessa mikla vandamáls.

Hér er um að ræða svo mikinn naglaskap, á þessu er svo mikill íhaldsbragur, að menn hlýtur að reka í rogastanz yfir þessum staðreyndum. Ég staðhæfi, að ekkert húsnæðismálafrv. hefur verið sýnt nú um langt skeið, þar sem stórhugurinn hefur verið jafnlitill og hér er um að ræða. Frv. er á þessu sviði miklu naglalegra en tillögur húsnæðismálanefndarinnar, sem þó er eingöngu skipuð fulltrúum úr stjórnarflokkunum. Í tillögum húsnæðismálanefndarinnar, þar sem gert var ráð fyrir stofnun sérstaks húslánasjóðs, var þó gert ráð fyrir 10 millj. kr. stofnframlagi úr ríkissjóði í þennan sjóð. Það var gert ráð fyrir því, að eignir smáíbúðadeildarinnar — útlán hennar munu vera um 30 millj. kr. — yrðu lagðar undir hinn nýja húsnæðismálasjóð, og síðan skyldi ríkissjóður til viðbótar þessu leggja fram 5 millj. kr. á ári í næstu fimm ár. Og það var gert ráð fyrir, að frá sveitarfélögum skyldi renna í húsnæðismálasjóðinn 1% af árlegum tekjum þeirra. Allt þetta var sæmilega myndarlegt. En þetta hefur ríkisstj. þótt of höfðinglegt. Allt er því skorið niður, 10 millj. kr. stofnframlagið er skoríð niður, afhendingin á eignum smáíbúðadeildarinnar, sem hefði þó getað þýtt 4 millj. kr. útlánaaukningu til viðbótar á ári, er skorin niður, og 5 millj. kr. tillaga húsnæðismálanefndarinnar er skorin niður í 3 milljónir: Auk þess er svo gert ráð fyrir minni framlögum frá sveitarfélögunum en húsnæðismálanefndin gerði.

Er það þá nokkur furða, þó að ég hafi leyft mér að taka þannig til orða, að á þessu frv. sé ósvíkið íhaldsbragð?

Hið nýja lánsfé, sem frv. gerir ráð fyrir að verja eigi til íbúðabygginga, er tvímælalaust ónógt, til þess að um nokkra sómasamlega lausn á húsnæðisvandamálunum verði að ræða. Frv. gerir ráð fyrir því, að á næstu tveimur árum verði 100.5 millj. kr. til ráðstöfunar í lánveitingar til íbúðarhúsabygginga. Í grg. frv. segir, að hér sé um að ræða 40 millj. kr. útlánaaukningu frá því, sem verið hafi, þ.e.a.s., að með þessu frv. sé útvegað 40 millj. kr. nýtt fé umfram það, sem veitt hafi verið undanfarið til íbúðalána. Þessar upplýsingar eru algerlega villandi. Smáíbúðalánveitingarnar munu í fyrra hafa numið tæpum 20 millj. kr., og þetta tal formælenda frv. um 40 millj. kr. útgjaldaaukningu byggist á því, að þessi útlán hefðu fallið niður, ef þetta frv. hefði ekki komið til skjalanna. Hið raunverulega nýja fé, sem kemur til viðbótar á þessu ári, ef frv. yrði samþykkt, er aðeins 20 millj. umfram það,, sem var á s.l. ári. Hitt er rétt, að ef ríkisstj. hefði vanrækt að hafa nokkurt áframhald á tilsvarandi lánum og smáíbúðalánunum, þá má segja, að fjáraukningin sé 40 millj. En þetta vekur áreiðanlega rangar hugmyndir hjá mörgum um eðli málsins. Þetta frv. tryggir í allra hæsta lagi 20 millj. kr. nýtt fé til lánveitinga, miðað við það, sem veitt var til sams konar lána á s.l. ári, og þó held ég, að talan sé enn of há, vegna þess að í athugun, sem Landsbankinn gerði ekki alls fyrir löngu á því fé, sem veitt hefði verið til útlána á árinu 1953, komst hann að þeirri niðurstöðu, að ýmsir lánaaðilar aðrir en bankarnir hefðu bundið 70 millj. kr. í íbúðalánum. En bankarnir hafa án efa haft nokkrar milljónir, 5 eða 10 millj. kr., í íbúðalánum. Og ef svo er, þá er útlánaaukningin, sem samkv. þessu frv. verður, þeim mun minni, því að enginn vafi er á því, að bankarnir telja það fé, sem þeir hafa haft raunverulega í útlánum, en ekki hefur komið á þeirra eigin skýrslu, með því fé, sem þeir lofa ríkisstj. samkv. þessu frv. að veita til íbúðalána.

Nú er að gera sér grein fyrir því næst, hvað það mundi kosta í stórum dráttum að leysa húsnæðisvandamálið á næstu árum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þörf sé 900 íbúða árlega til þess að mæta eðlilegri fólksfjölgun og til útrýmingar herskálaíbúðunum. Ef gert er ráð fyrir því, að þessar 900 íbúðir verði 350 rúmmetra íbúðir að meðaltali, en það mun svara nokkurn veginn til þess, sem venjulega eru taldar 90 fermetra íbúðir í daglegu tali, þ.e.a.s. íbúðir, sem hafa 90 fermetra íbúðarrúm, þá má gera ráð fyrir, að heildarkostnaður allra þessara 900 íbúða verði um 236 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir því, að byggingarkostnaður hvers rúmmetra sé 750 kr., en það segja mér byggingafróðir menn að sé lágmark þess, sem nú verði að gera ráð fyrir. Það má m.ö.o. gera ráð fyrir því, að það kosti 236 millj. kr. á ári að fullnægja þeirri íbúðaþörf, sem gert er ráð fyrir í grg. frv. Samkv. frv. er væntanlegt lánsfé áætlað 100 millj. kr. eða m.ö.o. aðeins 42% af því, sem verður sannanlega kostnaðarverð þessara íbúða, þó að hóflega sé í sakir farið. Nú er eðlilegt, að menn spyrji: Hvaðan eiga húsbyggjendur að fá afganginn? Hvaðan eiga þeir að fá hin 58%. Niðurstaðan getur ekki orðið önnur en sú, að annaðhvort verður áframhaldandi fjármagnsskortur, áframhaldandi peningaokur, eða þá að fjármagn fæst ekki, og þá leysist húsnæðisvandamálið ekki, þá verður áframhaldandi húsnæðisskortur. Mér sýnist því, að óhjákvæmileg afleiðing þessara staðreynda sé sú, vegna þess hve lánsféð er lítið, að annaðhvort verði hér áframhaldandi peningaokur eða áframhaldandi húsnæðisskortur.

Það virðist verða að skilja ákvæði frv. þannig, að venjuleg hámarkslán út á íbúð verði 70 þús. kr. Kostnaðarverð 90 fermetra íbúðar má telja 262500 kr., og er þá varlega reiknað. M.ö.o.: venjuleg lánveiting samkv. þessu frv. á að nema 27% af kostnaðarverði. Húsbyggjandinn á að binda 1. veðrétt íbúðar sinnar í láni, sem er 27% af kostnaðarverðinu. Hann verður því að afla sér 63% með öðrum hætti. Og það má geta nærri. að þau lán verða þá dýrari en gert er ráð fyrir í frv., og eru þau þó sannarlega nógu dýr, en ég mun koma að því síðar. Þetta er aðeins til þess að undirstrika, hversu fjarri því fer, að með þessu frv. sé hinn raunverulegi vandi þess fólks, sem þarf að koma yfir sig nýrri íbúð, leystur.

Hvað mundi nú kosta að búa í venjulegri íbúð, ef gert er ráð fyrir þeim lánskjörum, sem við er miðað í frv.? Gert er ráð fyrir, að vextir af veðlánum frv. verði 71/4%. Þess ber þó að geta, sem þagað er um í grg. frv., að raunverulegir vextir eru eilítið hærri, vegna þess að af láninu á að greiða 1% lántökugjald, þannig að lánið yrði ekki útborgað nema með 99%; á því eru 1% afföll. Þetta svarar til þess, að raunverulegir vextir af lánunum yrðu 7.36%. Ég gat þess áðan, að 90 fermetra íbúð mundi kosta 262500 kr. Það er meiningin að veita lánin samkv. frv. sem jafngreiðslulán — sem „annuitetslán“ — og gert er ráð fyrir því, að afborganir verði greiddar mánaðarlega, sem er skynsamleg tilhögun. Ég hef reiknað út, hvað mánaðarleg afborgun af 70000 kr. láni með þeim kjörum, sem gert er ráð fyrir í frv., mundi nema miklu. Hún nemur 495.62 kr. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að það er ekki alveg rétt tala, sem er í grg. frv., þar sem tilgreind er mánaðarleiga af 100 þús. kr. láni, vegna þess að þar er miðað við ársgreiðslu og deilt með 12, sem er ekki alveg rétt reikningsaðferð, vegna þess að mánaðargreiðslan verður dálítið lægri, ef um mánaðarlega greiðslu er að ræða, en til þess er tekið tillit í tölunni, sem ég nefndi áðan. Nú er spurningin, hvaða kjörum húsbyggjandi verður að sæta af þeim 192 þús., sem hann verður að afla sér annars staðar að, því að fyrir 70 þús. kr. byggir hann enga íbúð. Það er alveg augljóst, að þau lán, sem menn fengju út á 2. veðrétt og frá öðrum aðilum en veðdeildinni, hlytu að verða með miklu óhagstæðari kjörum en þessum 7.36%, sem eru raunveruleg vaxtakjör samkv. frv. Vextir þar yrðu talsvert miklu hærri. Hins vegar er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir því, að húsbyggjandinn eigi eitthvert eigið fé til þess að leggja fram til íbúðarinnar, og þá er eðlilegt, að hann reiknaði sér ekki hærri vexti af því fé en t.d. sparisjóðsvexti. Það mætti auðvitað fá út ýmsar niðurstöður með því að gera ráð fyrir ýmsum hlutföllum á milli lánsfjárins, sem menn afla sér til íbúðarinnar frá öðrum aðilum en veðdeildinni, og eigin fjár. En til þess að gera málið sem einfaldast skulum við láta þetta tvennt mæta hvort öðru, gera ráð fyrir því, að helmingurinn sé viðbótarlánsfé og helmingurinn sé eigið fé og að vextirnir hjá lánsaðilum, öðrum en veðdeildinni, séu jafnmiklu hærri og vextirnir af eigin fé séu lægri en þeir vextir, sem menn greiða veðdeildinni. Þetta verður með engu móti talin áætlun, sem geri útkomuna óhagstæðari en hún hlýtur að verða fyrir flesta þá, sem í þessum sporum munu raunverulega standa.

Hvað skyldi nú verða mánaðarleiga í íbúð, sem kostar 262500 kr., út frá þessum forsendum? Hún verður 1871.69 kr. Hverjum dettur í hug, að slík mánaðarleiga sé við alþýðuhæfi? Er hér þó um að ræða mjög hóflega íbúð, með 90 m2 íbúðarfleti.

Einhver kynni nú kannske að svara því til, að þessi íbúð sé þrátt fyrir allt of stór, hún sé of dýr, og fólk verði þá að reyna að byggja sér eitthvað ódýrari íbúðir, sætta sig við eitthvað minna húsrými. Ég held, að engum detti í hug, að hægt sé að koma hér upp íbúð í Rvík, sem talin sé sómasamleg fyrir fjölskyldufólk, fyrir minna en 200 þús. kr.

Ég hef reiknað út frá sömu forsendum, hvað mánaðarleiga í slíkri íbúð mundi verða. Hún yrði kr. 1424.91. Mánaðarkaup verkamanna núna er 2916 kr., og húsaleigan í þessari lágmarksíbúð yrði hvorki meira né minna en 48% af mánaðarlaunum verkamanns. Er þetta nokkur lausn á húsnæðisvandamálum þjóðarinnar? Venjulega er gert ráð fyrir því annars staðar, að hæfilegt sé, að menn greiði um það bil fjórðung tekna sinna í húsaleigu. Hér mætti kannske segja, að til mála gæti komið, að hann greiddi 25–30% í húsaleigu, í hæsta lagi ~s af tekjunum, en þess má geta, að þótt gengið yrði að öllum kröfum Dagsbrúnarmanna, þeim sem þeir settu fram í upphafi þessa verkfalls, þ.e.a.s. gert ráð fyrir 30% hækkun á kaupi þeirra, þá mundi þessi húsaleiga samt sem áður vera 37% af mánaðartekjum verkamannsins.

Ég hygg, að gersamlega ógerningur sé að gera ráð fyrir því, að nokkur venjulegur launamaður geti með þeim launakjörum, sem nú eru eða búast má við að verði eftir lausn vinnudeilunnar, greitt meira í húsaleigu en 1000 kr. á mánuði. Það er auðvitað hægt að sleppa með að reikna sér 1000 kr. í húsaleigu á mánuði af 90 m= íbúð, ef menn hafa efni á að fleygja svo og svo miklum peningum í íbúðina og reikna sér enga vexti af þeim í framtíðinni. Ef menn eiga svo og mikla peninga, sem þeir geta sett í íbúðina og reiknað sér sem tapaða, þá verða auðvitað mánaðarlegu greiðslurnar af lánunum, sem eftir standa, þeim mun minni.

Nú hef ég gert á því athugun, hvað maður, sem vildi eignast 90 m2 íbúð, sem kostaði hann 262500 kr., þyrfti að eiga mikið, þyrfti að reikna sér mikið sem tapað til þess að þurfa ekki að búa við nema 1000 kr. húsaleigu á mánuði. Hver skyldi niðurstaðan vera? Hún er, að hann þyrfti að setja í hana 122 þús. kr. Hann þyrfti að geta afskrifað strax við byggingu 122 þús. kr. Nú leyfi ég mér að spyrja hv. þm.: Telja menn þá launamenn vera marga í þessu þjóðfélagi, sem hafa efni á því að eignast 90 m2 íbúð, þegar það kostar þá það að þurfa að afskrifa þegar við byggingu 122 þús. kr.? — Við skulum taka líka hitt dæmið. Það er miðað við 200 þús. kr. íbúð, ódýrustu íbúð, sem ég tel vera hugsanlega. Hvað þarf kaupandi hennar eða byggjandi að fleygja miklu í hana til þess að geta sloppið með að reikna sér 1000 kr. í húsaleigu á mánuði, þegar hann býr í henni? 59 þús. kr. Þetta virðist vera algert lágmark, algert eignalágmark fyrir mann, sem vill eignast íbúð af algerri lágmarksstærð. Þannig er þá ástandið í íslenzku þjóðfélagi á því herrans ári 1955, að það er gersamlega útilokað fyrir mann að eignast íbúð af algerri lágmarksstærð nema geta fleygt í það 59 þús. kr. Þetta ber sannarlega ekki stjórnarvöldum landsins á undanförnum árum gott vitni.

Ég gat þess áðan, að í þessu frv. væri engin tilraun gerð til þess að létta undir með þeim fátæku. Ég tel, að langæskilegasta leiðin, sem fær er, til þess að gera efnalitlu fólki kleift að eignast sómasamlega íbúð, væri sú að efla byggingarsjóð verkamanna. Byggingarsjóður verkamanna stendur á gömlum merg og hefur mikla reynslu í því að koma upp ódýrum og hentugum íbúðum. Hann hefur auk þess notið fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins, þannig að hann hefur getað boðið þeim, sem fá lán úr honum, svo hagstæð kjör, að húsaleiga í íbúðum byggingarsjóðsins hefur orðið láglaunafólki viðráðanleg. Ég skal geta þess, að í þeim íbúðum, sem nú eru í byggingu í byggingarsjóði verkamanna, en þar er gert ráð fyrir 50 þús. kr. stofnframlagi, verður mánaðargreiðsla af íbúð, sem er 80 m2 að stærð, 650 kr. með opinberum gjöldum til ríkis og bæja af eigninni. Þetta er húsaleiga, sem er fullkomlega viðráðanleg, jafnvel þótt taka hafi orðið einhvern talsverðan hluta 50 þús. kr. framlagsins að láni með venjulegum viðskiptavöxtum. (Gripið fram í.) 80 m2 íbúð með plássi í kjallara, 277.3 m3, kostar 215 þús. kr. En sem sagt, mér virðist byggingarsjóður verkamanna vera eina stofnunin í þessu þjóðfélagi, sem getur gert láglaunafólki kleift að eignast sómasamlega íbúð og búa í henni. Leiðin fyrir hið opinbera til þess að gera láglaunafólki kleift að eignast íbúð virðist því vera sú að efla byggingarsjóð verkamanna með auknu fé. En hver skyldi svo afstaða hæstv. ríkisstj. eða stjórnarflokkanna vera til þessarar stofnunar, til byggingarsjóðs verkamanna? Það hefur verið vanrækt hörmulega á undanförnum árum að tryggja sjóðnum nægilegt starfsfé, þannig að hann hefur ekki getað fullnægt nema litlum hluta af þeirri eftirspurn, sem eftir íbúðum hans er. Mér skilst, að nú séu um 700 manns á biðlista hjá byggingarsjóði verkamanna.

En hver er afstaða stjórnarflokkanna til þessarar stofnunar í þessu frv.? Hún er nefnd einu sinni á nafn í frv. og það á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er að lána byggingarsjóði og byggingarsjóði verkamanna af fé því, sem veðdeild Landsbanka Íslands hefur til útlána samkv. 5. gr.“ Mikil er rausnin. Veðdeildinni er heimilað, ef henni kynni að sýnast svo, að lána byggingarsjóði verkamanna eitthvað af þessu fé, en að gera ráð fyrir því eða tryggja það, að eitthvað af þessu fé skuli ganga til byggingarsjóðs verkamanna, á það er ekki minnzt.

Þetta er þeim mun furðulegra, þetta er þeim mun ósvífnara, vil ég segja, þegar það kemur fram í grg. frv., að byggingarsjóði sveitanna hafa þegar með baksamningi stjórnarfiokkanna verið tryggðar 12 millj. kr. af þessum 100.5 millj. Stjórnarflokkarnir hafa samið um það og blygðast sín ekki fyrir að segja frá því, að byggingarsjóður sveitanna skuli fá 12 millj. kr. af þessu fé, en byggingarsjóði verkamanna gleyma þeir alveg. Handa honum er nóg, að á hann sé minnzt þannig, að það megi svo sem lána honum eitthvað, ef mönnum sýnist svo, ef hann kynni að vera talinn hafa þörf fyrir það.

Það er þetta og annað eins og þetta, sem gerir það að verkum, að ég hika ekki við að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að það er hreinn íhaldssvipur yfir þessu frv.

Það þarf að tryggja byggingarsjóði verkamanna aukið lánsfé, það er lágmarkskrafa. Það er beint hnefahögg í andlit láglaunafólks, sem skortir húsnæði, ef þetta mál verður afgreitt án þess, að það verði gert.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. vék oftar en einu sinni að byggingarsjóði verkamanna í ræðu sinni. Hann vék góðu einu að honum, enda er ódýrt að gera það. Hann sagði í sambandi við það frv., sem var til umr. hér í dag um að hækka vextina af lánunum úr 2% upp í 31/2%, að það væri einnig ástæða til þess að endurskoða l. á ýmsan annan hátt, t.d. til þess að tryggja það, að hinir fátækustu og þeir, sem hefðu mesta ómegðina, sætu fyrir um lán úr byggingarsjóði verkamanna. Þessu er ég alveg sammála, og ég skal lofa stuðningi mínum og míns flokks við þær breytingar á l. um byggingarsjóð verkamanna, sem að því miða að tryggja, að hinir lægst launuðu og þeir, sem mesta ómegðina hafa, sitji fyrir um þessi lán. En mergurinn málsins er þó að tryggja sjóðnum aukið fé, þannig að hægt sé að stytta eitthvað þennan 700 manna biðlista.

Þá vil ég einnig geta þess, að með frv., ef að lögum yrði, eru og skertir á áberandi hátt hagsmunir fjölmennrar launþegastéttar, sem né opinberra starfsmanna, sem notið hafa þeirra fríðinda, sumpart sem nokkurrar uppbótar á léleg launakjör sín, að geta fengið lán úr eigin lífeyrissjóði með hagstæðum kjörum, til skamms tíma til 40 ára með 51/2% vöxtum. Að vísu er nýlega búið að breyta þessum lánskjörum þannig að stytta lánin í 35 ár og hækka vextina upp í 6%. En það verður ekki misskilið, að verði þetta frv. að l., þá mun lífeyrissjóðurinn verða knúinn til þess að breyta lánskjörum sínum til samræmis við hin almennu lánskjör þessa frv., sem er stytting lána niður í 25 ár og hækkun vaxta upp í 7%. Hér er um að ræða verulega kjaraskerðingu gagnvart þessari fjölmennu stétt, opinberum starfsmönnum, því að vissulega hafa margir fengið kærkomna fyrirgreiðslu úr þessum sjóði. Hann hefur gert mörgum kleift að eignast íbúð, sem að öðrum kosti hefði verið það ókleift.

Þá er að geta þess sem síðasta meginatriðis frv., að í því er gert ráð fyrir, að komið verði á fót svokallaðri húsnæðismálastjórn, sem skipuð á að vera þrem mönnum. Manni skilst, að einn eigi að vera tilnefndur af Landsbankanum, en tveir þá auðvitað af hvorum stjórnarflokkanna.

Hlutverk þessarar húsnæðismálastjórnar á að vera að úthluta um það bil helmingi þess lánsfjár, sem gert er ráð fyrir að verði til ráðstöfunar, eða um 50 millj. kr. lánsfé. Auk þess á húsnæðismálastjórnin að hafa með höndum þær tæknileiðbeiningar, sem gert er ráð fyrir í frv.

Manni hefur nú skilizt það ekki vera stefna hæstv. ríkisstjórnar að fjölga nefndum, að fjölga ráðum, að koma upp nýjum stofnunum, nýju skrifstofubákni. A.m.k. hefur verið látið svo í veðri vaka. Var það gert fyrir kosningar og í útvarpsumræðum og við hátíðleg tækifæri. Þá berja forvígismenn stjórnarinnar sér á brjóst og segjast vera hinir svörnustu fjandmenn nefnda, alls konar nefndavalds, ráða og alls konar skriffinnsku og skrifstofubákns. Hér er samt sem áður lagt fram frv., þar sem gert er ráð fyrir stofnun eins heljarmikils skrifstofubákns, húsnæðismálastjórnarinnar. Og það eiga að vera tvær deildir í þessu skrifstofubákni; ein er svo sem ekki látin nægja. Það á annars vegar að vera banki, lánaúthlutunarskrifstofa, sbr. innflutningsskrifstofa, og hins vegar á stofnunin að vera tæknileiðbeiningarstöð. Það vill nú svo vel til, að við höfum margar stofnanir í þessu landi, sem eiga að sinna þessum verkefnum. Við höfum ekki bara eina, heldur höfum við margar stofnanir, sem hafa það hlutverk lögum samkvæmt að vera lánveitingastofnanir. Ég veit ekki betur en að við höfum hér í Reykjavík 5 banka og einn sparisjóð. Við þessa banka eru starfandi hvorki meira né minna en 9 bankastjórar. Ég veit ekki betur en að það sé hlutverk þessara bankastjóra að veita lán. Það er þeirra sérgrein að kunna skil á öllu, sem menn þurfa að kunna skil á til að geta veitt lán réttlátlega og skynsamlega. Hvers vegna þarf þá að setja upp nýja nefnd, nýtt bákn til þess að úthluta þessum lánum, sem hér er gert ráð fyrir að veita, um það bil 900 lánum í allra hæsta lagi, 50 millj. kr.? Hví er ekki hægt að nota þetta starfslið, sem fyrir hendi er, til þess arna, og er sérmenntað? Mér skilst, að árslaun bankastjórastéttarinnar hér í Reykjavík séu um 900 þús. kr. Það er sæmileg borgun fyrir störf þeirra, og tel ég það raunar sízt eftir, þó að þeir séu hæst launuðu embættismenn landsins. Þeir gegna afar ábyrgðarmiklum og vandasömum störfum. En þegar við höfum heila stétt, sem er bezt launuð allra embættismanna ríkisins, hví þá ekki að nota sérþekkinguna, hví þá að setja nýja menn, nýja nefnd, til þess að fara inn á verksvið þessara sérfróðu manna, sem ég velt ekki annað en allir beri bezta traust til?

Út yfir tekur þó, þegar það er haft í huga, hvernig vafalaust er tilætlunin að skipa þessa húsnæðismálastjórn, því að enginn vafi er á því, að þar munu koma til með að sitja tveir fulltrúar, sinn frá hvorum stjórnarflokknum. Það kemur fram í grg. Það er að vísu þagað um það í frv., eins og fleira. Ríkisstj. talar hins vegar af sér í grg., þar er sagt frá því, að þriðji maðurinn eigi að vera frá Landsbankanum, en hann skuli engan atkvæðisrétt hafa. M.ö.o.: Eini maðurinn, sem gera má ráð fyrir að hafi nokkra sérþekkingu á því, sem n. á að fjalla um, á engan atkvæðisrétt að hafa.

Þetta eru allt saman svo furðulegar ráðstafanir, að mann rekur í rogastanz við að lesa þetta. Þó er augljóst, hvert fyrirmyndin er sótt. Hún er sótt í úthlutun smáíbúðalánanna, það fyrirkomulag, sem þá var tekið upp. Þá var tveimur heiðursmönnum falið að úthluta lánunum, og þeir, sem fyrir valinu urðu til þess að gegna þessu vandasama starfi, voru formenn stjórnmálafélaga Sjálfstfl. og Framsfl. hér í Reykjavík. Þetta er hin nýja lína ríkisstj. í lánveitingamálum. Það á að halda áfram að verða starf einhverra stjórnmálamanna, einhverra stjórnmálafulltrúa, að úthluta lánum til húsbygginga. Hvers vegna? Um það þarf ég ekki að fjölyrða; það sér hvert mannsbarn.

Þetta ber auðvitað glöggan vott um þá dæmalausu pólitísku spillingu, sem nú er að gegnsýra stjórnarfar okkar Íslendinga. Það er varla hægt að finna gleggra dæmi um þessa pólitísku spillingu en þetta, að þegar við höfum fjölmenna og ágæta stétt sérfræðinga í lánveitingum, þá skuli samt sem áður þurfa að troða inn á það starfssvið pólitískum fulltrúum.

Varðandi tæknileiðbeiningarnar, sem allt gott er um að segja, þá er þess að geta, að ríkisvaldið hefur þegar stofnun, sem vinnur líkt hlutverk, og þar á ég við skrifstofu húsameistara ríkisins. Það er til önnur stofnun, sem gegnir áþekku starfi varðandilandbúnaðinn,teiknistofa landbúnaðarins í Búnaðarbankanum. Það er miklu eðlilegra að fela annarri hvorri þeirra stofnana, sem þegar eru fyrir hendi, þetta hlutverk, annaðhvort húsameistara ríkisins eða teiknistofu landbúnaðarins, en að koma upp einu skrifstofubákninu enn.

Þetta er það, sem við í minni hl. hv. fjhn. höfum fyrst og fremst við þetta frv. að athuga, og þar sem það er býsna mikið, þá höfum við í minni hl., við hv. 9. landsk. þm. (KGuðj), leyft okkur að flytja allvíðtækar brtt. við frv. á þskj. 592, og skal ég nú að síðustu í örstuttu máli gera grein fyrir því, út á hvað þessar brtt. okkar ganga.

Við leggjum til, að gerðar verði ráðstafanir til þess að auka það fé, sem lánað verði til íbúðabygginga á næstu tveimur árum, úr 100 millj. í 130 millj. kr. hvort árið um sig.

Nú spyrja menn: Hvernig er þetta fé fengið? Það er vandalítið að setja svona tölur á pappírinn, að lánsféð skuli vera meira, ef ekki er bent á skynsamlegar leiðir til þess að fá þetta fé.

Í fyrsta lagi gerum við ráð fyrir því, að framlög ríkisins skuli aukin úr 3 millj. í 10 millj. kr., eða um 7 millj. kr. Samhliða því má gera ráð fyrir eitthvað auknum framlögum frá sveitarfélögunum, svo að gera má ráð fyrir, að hér fáist 10 millj. kr. til viðbótar.

Þá tökum við upp þá hugmynd húsnæðismálanefndarinnar að sameina lánadeild smáíbúða þessu nýja veðlánakerfi, en með því móti mundi fást árlega um 4 millj. kr. nýtt fé til útlána árlega í næstu 15 ár, eða meðan þau lán eru að greiðast, en þau voru til 15 ára.

Þarna eru um 14 millj. kr. Afgang lánsfjárins eða um 16 millj. kr. gerum við ráð fyrir að fá á annan hátt, að tryggilega verði gengið frá reglum, sem tryggingafélögunum og ýmsum öðrum stofnunum, sem ávaxta fé sitt í verðbréfakaupum, skuli settar varðandi verðbréfakaup sín. Við heimilum ríkisstj. að setja reglur um verðbréfakaup tryggingafélaga og opinberra aðila, þannig að þeim verði gert skylt að kaupa þau verðbréf, sem gefa á út samkvæmt frv., fyrir ákveðinn hluta þess fjár, sem þau verja til verðbréfakaupa, og jafnframt, að ótvíræðir samningar verði gerðir við bankana alla um það, að þeir verji ákveðnum hluta útlána sinna til kaupa á þessum verðbréfum.

Með þessu móti ætti að vera hægur vandi að fá 16 millj. kr. til viðbótar því fé, sem hér er um að ræða, þannig að það ætti að vera leikur einn að auka þessar 100 millj. upp í 130 millj. kr., og er þó hér vissulega hóflega í till. farið. En ef þetta næði fram að ganga, þá gerði það kleift að auka venjulega lágmarksupphæð lánanna úr 70 þús. kr. upp í 100 þús. kr., en miðað við núverandi byggingarkostnað, þar sem telja verður 200 þús. kr. kostnað algeran lágmarkskostnað við íbúð, þá má ekki minna vera en að venjulegt lágmarkslán hjá veðdeildinni, sem bindur 1. veðrétt, sé helmingur af byggingarkostnaði.

Þótt við teljum þá vexti, sem gert er ráð fyrir í frv. og ég gerði grein fyrir áðan að eru raunverulega 7.36%, að vísu vera allt of háa og svo háa, að engin von sé til þess, að venjulegir launamenn geti leyft sér að búa í sómasamlegum íbúðum við þessi vaxtakjör, þá leggjum við samt sem áður ekki til, við þessa umr. a.m.k., að þessum vaxtakjörum verði breytt, heldur viljum einskorða till. okkar við það, að byggingarsjóði verkamanna verði tryggt aukið fé, vegna þess að við vitum, að verði honum tryggt aukið fé og gert kleift að starfa áfram, þá eigi þeir efnaminnstu þar að geta eignazt íbúðir, sem þeir eiga að geta búið í. Þess vegna höfum við lagt til að tryggja byggingarsjóði verkamanna á næstu árum 12 millj. kr. á ári. Við gerum okkur ljóst, að hér er um háa tölu að ræða, og byggingarsjóði verkamanna verður ekki kleift að útrýma húsnæðisbölinu hér með þessum fjárframlögum. Það gerum við okkur alveg ljóst, en samt sem áður teljum við 12 millj. kr. á ári í 5 ár verða mikinn feng. Það mundi geta verið mörgum efnalitlum manninum mikil björg, ef þetta næði fram að ganga. Töluna miðum við við þá tölu, sem ríkisstj. hefur þegar gert baksamning um að byggingarsjóður sveitanna skuli fá, og það verð ég að segja, að ef sú till. yrði felld, að byggingarsjóði verkamanna skyldi tryggð sama upphæð og sagt er í grg. að búið sé að lofa byggingarsjóði sveitanna, þá er það slíkt hnefahögg framan í fátækan almenning þessa lands, að því höggi mun ekki og skal ekki verða gleymt.

Þá gerum við enn fremur ráð fyrir því, að ríkisstj. verði gert að skyldu að hafa forgöngu um útrýmingu heilsuspillandi íbúða á næstu 5 árum, og heimilum að verja í því skyni 10 millj. kr. úr ríkissjóði í þessi 5 ár. Um það hef ég þegar rætt áður.

Þá leggjum við til, að ákvæðin um húsnæðismálastjórnina verði felld niður og að veðdeild Landsbankans verði falið að úthluta lánunum. Veðdeild Landsbankans er stjórnað af bankastjórum Landsbankans, sem ég hygg að enginn hafi ástæðu til annars en að bera fyllsta traust til, þegar um slík mál er að ræða sem hér eru á döfinni. Og þá finnst okkur langeðlilegast, að þessir embættismenn annist lánveitingarnar, en að pólitískir fulltrúar komi þar hvergi nærri. Við teljum ekki heldur rétt, að sett verði upp nýtt bákn til þess að annast tæknileiðbeiningarnar, heldur verði skrifstofu húsameistara falið að hafa það hlutverk með höndum og honum þá auðvitað heimilað að ráða sér þá sérfræðinga, sem honum kynnu að reynast nauðsynlegir til þess að geta sinnt þessu verkefni sómasamlega. Húsameistara ríkisins, sem er ungur og dugmikill arkitekt, er án efa og fyllilega treystandi til þess að hafa góða og skynsamlega yfirstjórn á þessum málum með aðstoð sérfræðinga, hvers á sínu sviði. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á því, að við leggjum til, að húsameistaraskrifstofunni verði gert að skyldu að afhenda öllum húsbyggjendum ókeypis teikningar af nokkrum algengum gerðum af íbúðastærðum, þannig að þeir, sem eru í fjárhagsþröng, gætu sparað sér teikningarkostnaðinn, sem er mjög verulegur. — Kostnaður við hinar ýmsu fagteikningar er allt of hár þáttur í kostnaðarverði einfaldra íbúða. Húsameistara á því að vera skylt að hafa á boðstólum „standard“-teikningar af nokkrum — tveimur, þremur, fjórum — algengum húsategundum og húsastærðum, sem menn ættu kost á að hagnýta sér án endurgjalds, ef menn vildu spara sér teikningarkostnaðinn. Það kæmi svo auðvitað vel til greina að greiða höfundum teikninganna einhverja ákveðna þóknun í hvert skipti, sem teikningin er notuð, og væri þá eðlilegast, að sú þóknun yrði greidd beint úr ríkissjóði og talin til kostnaðar við húsameistaraskrifstofuna.

Ég leyfi mér að fullyrða, að þessar tillögur okkar hljóti að teljast hóflegar. Þær verða ekki heldur taldar annað en fyllilega raunsæjar. Hér er ekki um að ræða neinar yfirboðstillögur

við tillögur ríkisstj., heldur er hér um að ræða tillögur, sem hægur vandi er að framkvæma, en mundu þó vera til mikilla bóta á frv. og mundu létta mörgum manninum, sem nú á í miklum vandræðum sökum húsnæðisskorts, vanda hans mjög verulega.

Ég tel, að afstaða hv. stjórnarflokka til meginatriða þessara till. skeri alveg úr um vilja þeirra til þess að snúast vel og skynsamlega við þeim vanda, sem húsnæðisvandamálið er víssulega. Ef skellt verður skolleyrum við þessum tillögum, þá verður varla litið öðruvísi á en þannig, að ríkisstj. hafi í raun og veru engan áhuga á því að gera það, sem þó sannanlega er fært til þess að bægja þessu mesta félagsböli þjóðarinnar frá dyrum hennar.