06.05.1955
Efri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

183. mál, húsnæðismál

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. og hv. frsm., 1. þm. Eyf. (BSt), hafa nú svo skýrlega hrakið fullyrðingar hv. 4. þm. Reykv. (HG), að ég þarf þar ekki miklu við að bæta, en ég vil þó ítreka það, sem sagt var, að algerlega er rangt með farið, þegar því er haldið fram, að hallað sé á kaupstaði eða kauptún með þessari lagasetningu.

Það er, ef nokkuð er, þvert á móti. Sveitunum er ekki tryggt meira með þessari löggjöf og þeim ummælum, sem höfð eru í aths. við hana, heldur en þær hafa haft undanfarin ár. Um margra ára bil hefur verið tryggt á einn eða annan veg, að hægt væri að fullnægja lánaþörfinni til sveitabygginga, að vísu með þeim miklu takmörkunum, að ekki hefur verið lánaður nema lítill hluti út á byggingarkostnað hvers húss.

En varðandi kaupstaðina hefur þetta verið með allt öðrum hætti. Segja má, að nú um aldarfjórðungsbil hafi allt veðlánakerfi til kaupstaðanna gersamlega verið í ólestri. Ég skal ekki rekja ástæðurnar til þess, en þetta er staðreynd, sem ekki er hægt að hagga. Það hefur verið reynt að bæta úr þessu öðru hverju, en þær tilraunir hafa ýmist beinzt að takmörkuðum sviðum þessa máls eða algerlega mistekizt og stundum hvort tveggja. Það er t.d. ómótmælanleg staðreynd, að þó að hátt væri undir rís í fyrirætlunum og fyrirheitunum í þeirri löggjöf um húsnæðismál, sem sett var 1946 og þáverandi hæstv. félmrh., ágætur maður, þótt í Alþfl. væri, beitti sér fyrir, eftir áskorun, sem ég og aðrir þm. höfðum fram flutt og fengið samþ. hér á Alþ., — að þó að mikið væri látið í þessari löggjöf um ráðstafanir til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, þá voru ákvæðin ætíð svo óraunhæf, að greinilegt var frá fyrsta degi, að þau mundu ekki geta komið að gagni. Ég minnist þess, að ég benti á það í umr. hér á Alþ., að svona mundi þetta fara, og raunin varð líka því miður sú, að ríkisstj. neyddist til þess á árinu 1947 eða 1948 að fá þessi fyrirmæli gerð óvirk. Slík löggjöf kemur vitanlega ekki að gagni, þó að í góðum hug sé sett og enginn efist um, að allt gott hafi vakað fyrir þeim, sem stóðu að þessari löggjöf, en það var ekki miðað við hið raunverulega ástand, hvað hægt var að framkvæma, og þess vegna fór eins og fór.

Það er einnig vitað, að lögin um verkamannabústaði hafa gert mikið gagn, alveg eins og hin löggjöfin hefði gert, ef hún hefði verið framkvæmanleg. Það er vitað og óumdeilt, að lögin um verkamannabústaði hafa gert mjög mikið gagn, og þeir af flokksmönnum hv. 4. þm. Reykv., sem þar hafa haft forustu, eiga vissulega þakkir skilið, en um það verður ekki deilt, að löggjöfin er nú orðin úrelt. Það er því miður svo, að hún veitir litlum hóp manna, sem engin trygging er fyrir að helzt séu hjálpar þurfandi, meiri hlunnindi en hægt er að veita öllum almenningi. Slík löggjöf getur ekki leyst nema lítinn hluta þess vandamáls, sem hér er um að ræða, og eins og hæstv. félmrh. sagði, þá er á því brýn nauðsyn, að bætt verði úr ágöllum þessarar löggjafar. Jafnskjótt og það hefur verið gert, þá er sjálfsagt að efla þá starfsemi enn meira en gert hefur verið, og jafnvel á meðan ekki er bætt úr göllunum, þá er rétt að draga ekki úr þeirri fyrirgreiðslu, sem þessi félög hafa notið á undanförnum árum, og það hefur engum dottið í hug við setningu þessarar löggjafar, að það yrði gert. Menn höfðu einmitt hugsað sér, að farið yrði svipað að og verið hefur, að annars vegar yrði reynt að halda í horfinu varðandi sveitirnar eins og verið hefur á undanförnum árum og alveg á sama veg yrði reynt að halda í horfinu varðandi verkamannabústaðina. En ég ítreka það, sem ég sagði áður, að um leið og nauðsynlegar endurbætur fást á verkamannabústaðalöggjöfinni, þá vil ég mega treysta því, að enn þá meira fé verði varið til verkamannabústaðanna en nokkru sinni áður, vegna þess að þá kemur löggjöfin að meira gagni en hún fram að þessu hefur gert.

Með þeirri löggjöf, sem hér er gerð tillaga um, er sem sagt ekki aðeins ráðgert að halda í horfinu varðandi sveitir og verkamannabústaði frá því, sem verið hefur, heldur einnig ætlað að koma fram stórfelldum umbótum til viðbótar. Þar má minna á það hagræði, sem sveitarfélögum verður veitt við útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og þar með þá fyrirgreiðslu, sem einmitt þeir borgararnir, sem verst eru settir og mestrar hjálpar þurfa víð, fá einmitt með raunverulegum hætti í þessari löggjöf, en þeir fengu eingöngu eða að mestu leyti að nafninu til með húsnæðislöggjöfinni frá 1946.

Allt þetta hefur mikla þýðingu. Enn þá meiri þýðingu fullyrði ég þó að það hafi, ef raunverulega tekst nú að koma á skipun í veðmálakerfi þjóðarinnar á ný — skipun, sem rofnaði fyrir aldarfjórðungi og síðan hefur verið mesta ólag á, eins og ég þegar sagði.

Ég játa, að þetta frv. er aðeins byrjun, ég játa, að það er ófullnægjandi að veita ekki meiri lán en ráðgert er samkv. frv., og ég játa, að það er ekki örugg lausn til frambúðar, þó að samið sé um þetta til tveggja ára, en ég fullyrði, að hvort tveggja er miklu betra en núverandi ástand, sú ófremd, sem ríkt hefur um margra ára bil. Það er um stórfellda framför að ræða frá því ástandi, og ég hef gerzt fylgismaður þessa frv., fyrst innan ríkisstj. og síðan hér á Alþ., í öruggu trausti þess, að með þessu væri einungis um upphaf að ræða, þar sem örugglega yrði stefnt að því að gera lánin stærri og hagkvæmari en þau eru nú í fyrstu, og upphaf að því leyti, að þjóðbankinn, Landsbanki Íslands, sem fyrst og fremst ber ábyrgðina á því ófremdarástandi, sem í þessum málum hefur ríkt um allt of langan tíma, hefur nú séð að sér og tekið upp nýja hætti og vill hafa forustuna um hollar framkvæmdir í þessu máli. Ég skil það að vísu, að hann hefur ekki treyst sér til þess að skuldbinda sig til ákveðinna framlaga nema um tveggja ára bil í fyrstu. En ég tel þá viðurkenningu, sem feist í frv. og þeim samningum, sem voru undanfari þess, milli ríkisstj. og Landsbankans, vera aðalatriði þessa máls, — þá viðurkenningu, að Landsbankanum beri að stuðla að heilbrigðu veðlánakerfi í landinu, ekki síður en að annarri lánastarfsemi. Og ég tel, að það muni ætíð verða talinn höfuðviðburður í þessum efnum, að sú viðurkenning fékkst, og að þeir verði taldir hafa unnið gott starf, sem mestar eiga þakkirnar fyrir, að svo heppilega hefur til tekizt.

Mér er það ljóst, að í þessum efnum sem öðrum er enginn vandi að segja, að enn betur hefði mátt til takast, eða bera fram fallegar till., sem gefa í skyn, að enn betur færi, ef þær væru samþ. Ég met slíkar till. ákaflega lítils, ekki sízt þegar þær koma frá þeim, sem hafa haft færi á því að koma þessum málum í betra horf áður, en því miður ekki tekizt þar svo vel til, meðan þeir höfðu völdin, að þeir hafi af miklu að státa. Ég held þess vegna, að þeim væri sæmra nú að fallast á þá hóflegu og skynsamlegu byrjun, sem hér hefur verið hafin, og stuðla að friðsamlegum framgangi þessa frv.