06.05.1955
Efri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

183. mál, húsnæðismál

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Mér skilst nú, að hæstv. dómsmrh. hafi staðfest fyllilega ummæli mín í upphafi ræðu minnar og þar með andmælt fullyrðingum hæstv. frsm. meiri hl. um það, að með þessu væri stærsta átakið gert hér í byggingarmálunum, sem nokkurn tíma hefur verið gert. Hæstv. ráðh, játar, að þetta sé mjög ófullkomið frv., þetta sé í raun og veru aðeins upphaf, aðeins tilraun til tveggja ára, eins og ég sagði í ræðu minni, að lánin séu of lág til þess, að almenningi sé gagn í þeim. Aðalvinningurinn við þetta frv. skilst mér vera sá, sem hæstv. ráðh. lagði mikið upp úr, að með því hefði fengizt viðurkenning Landsbankans á því, að honum bæri að hafa forustu í þessum málum. Hæstv. ráðh. er búinn að vera lengi í stjórn, óslitið alllangan tíma, og ég skil ekki, að það hefði verið ókleift fyrir ríkisstj. að láta Landsbankann viðurkenna skyldu sína í þessum efnum fyrr, svo að það sé neitt sérstakt afrek að guma af í þessu efni. Ég hef viðurkennt það áður, að það er hjálp í þessu frv. fyrir vissan hóp manna í landinu, sem er sæmilega efnum búinn, eins og ég kem að síðar.

Hv. frsm. færði til sönnunar því, að þetta væri stórkostlegasta átakið í byggingarmálum, sem gert hefði verið, að hér væri um að ræða að tryggja á tveimur árum lánsfé til íbúðabygginga, að upphæð 100 millj. kr. á ári, og spurði, hvað hefði veríð gert í þessu efni, þegar ég hefði verið félmrh. fyrir meira en mannsaldri; þá hefði ekki verið lagt svona ríflega fram til byggingarmálanna. Það er alveg laukrétt hjá hv. frsm., en þá voru ekki heldur fjárl. með 520 millj. kr. eins og núna, þá voru fjárl. — við getum miðað við þau — rösklega 15 millj. kr. eða ekki nema 35. hluti af því, sem þau eru nú. Ég hef engar tölur fyrir mér til að sanna þetta með, en ég vil fullyrða, að það hafi ekki skort mikið á, að varið hafi verið til byggingarmála á þeim erfiðu árum 1935–1937 nálægt 6–7 millj. kr., sem er tilsvarandi upphæð við 200 millj. kr. nú, ef borið er saman við breytingarnar, sem orðið hafa á fjárl. Ég held því, að hv. frsm. meiri hl. hafi tekið fullmikið upp í sig með þessum fullyrðingum sínum.

Báðir hæstv. ráðh., dómsmrh. og félmrh., lögðu á það mikla áherzlu, að nauðsyn bæri til að breyta lögunum um verkamannabústaði, þau væru orðin úrelt, ef það ætti að auka starfsfé til sjóðsins. Ég verð nú að segja, að et þeir eru svo sannfærðir um þetta og sérstaklega hæstv. félmrh., sem þessi mál heyra undir, þá hefði verið ákaflega eðlilegt, að þær breytingar hefðu verið bornar fram í sambandi við þetta frv. og þá um leið breytingar á fjáröflunarstarfsemi sjóðsins. Ég skal viðurkenna það, að það er án efa þörf á að endurskoða ýmis ákvæði í lögunum um byggingarsjóð verkamanna, enda væri annað ekki trúlegt, svo langt sem er síðan þau lög voru sett. En eigi að endurskoða þessi lög að því er snertir lánskjör, vexti og annað slíkt og færa þessi ákvæði laganna um þessi efni til samræmis t.d. við byggingarsjóð sveitanna og ræktunarsjóðinn, sem hér hefur verið gerður stöðugt samanburður á, þá þarf vissulega að athuga fleira en lánskjörin ein og vextina eina. Í fyrsta lagi þarf að athuga, til hve stórs hóps manna hverjum þessara sjóða er ætlað að taka. Sú athugun liggur ekki fyrir, en ég fullyrði, að það eru fleiri menn, sem samkvæmt lögum sjóðanna er ætlazt til að fái fyrirgreiðslu hjá byggingarsjóðum kaupstaðanna heldur en byggingarsjóði sveitanna.

Hvernig hafa þessir sjóðir fengið sitt starfsfé? Hér hef ég fyrir mér yfirlit yfir ræktunarsjóðinn í árslok 1954. Hann á eigið fé 25 millj. kr. og fer með 46 millj. kr., sem er ríkissjóðslán eða lán frá Framkvæmdabankanum. Útlán hans alls námu í árslok 1954 761/2 millj. Útlán byggingarsjóðsins námu á sama tíma 61.7 millj. kr. Eigið fé þessa sjóðs er 37 millj., lán frá Framkvæmdabanka og ríkissjóði 21 millj. kr. Auk þess er veðdeild Búnaðarbankans, sem er að útláni 6.4 millj. kr., þar af eigið fé 2.5 millj. kr. Þetta eigið fé er allt myndað með framlögum úr ríkissjóði.

Til samanburðar er svo byggingarsjóður verkamanna, sem ég fullyrði að er ætlað að taka til fleiri manna en byggingarsjóður sveitanna; það gildir ekki alveg sama með ræktunarsjóðinn. Útlán þessa sjóðs eftir 25 ára starfsemi eru 41 millj. kr. Eigið fé er talið 28 millj. kr., en það er óinnheimt frá sveitarfélögum, sem er vafasamt um, talsverð upphæð af því, þannig að hann hefur ekki eigið fé nema 22 millj. kr. ríkislán, sem hann hefur fengið, er 9.3 millj. kr., og framlag ríkissjóðs á ári er 1.7 millj. kr. En framlög ríkissjóðs til byggingarsjóðs sveitanna og ræktunarsjóðs hafa verið 5 millj. kr. síðustu árin.

Ef maður dregur saman það starfsfé, sem þessir sjóðir hafa, þá hefur byggingarsjóður verkamanna í útlánum 41.7 millj. kr., en hinir sjóðirnir, sem ætlaðir eru sveitunum, 144.6 millj. Eigið fé verkamannasjóðsins er 22 millj. kr., en eigið fé hinna sjóðanna er 64 millj. kr., myndað með framlögum úr ríkissjóði. (Gripið fram í.) Ég játa það, hann hefur sérstakt verkefni, þótt það að nokkru leyti gangi til bygginga. ríkislán til byggingarsjóðs verkamanna er 9.3 millj. kr., en til hinna sjóðanna 66 millj. kr. samtals, þar af til byggingarsjóðs sveitanna 21 millj. frá Framkvæmdabankanum og ríkissjóði. Ég er því fullkomlega samþykkur, að það sé ástæða til að samræma starfsskilyrði og lánskjör þessara sjóða, en eigi að gera það, þá á einnig að skapa þeim hliðstæða aðstöðu til framkvæmda og starfsemi, þ.e.a.s. að gera hliðstæða aukningu á starfsfé byggingarsjóðs verkamanna og gert hefur verið hjá hinum. Þá er alveg eðlilegt að endurskoða í því sambandi vaxta- og lánskjör og annað slíkt. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Taki maður hins vegar til samanburðar aðeins byggingarsjóð sveitanna og byggingarsjóð verkamanna og telji með byggingarsjóði sveitanna veðdeild Búnaðarbankans, sem hefur alveg hliðstætt starfssvið, þá verður samanburðurinn sá, að eigið starfsfé byggingarsjóðsins og veðdeildarinnar er um 40 millj. kr. og gert ráð fyrir að bæta við það samkvæmt því frv., sem ríkisstj. nú hefur lagt fram, af tekjuafgangi s.l. árs 4 millj., eða samtals 44 millj. kr., en ríkislánsfé og Framkvæmdabankans um 21 millj. kr., eða samtals til umráða hjá þessum sjóði nokkuð yfir 80 millj. kr. Hins vegar er umráðafé verkamannasjóðsins, kaupstaðasjóðsins, ekki nema 22 millj. kr. og 9 millj. kr. frá ríkissjóði. Ég skal ekki gera ýtarlegan samanburð á tölu þess fólks, sem sjóðunum er ætlað að liðsinna, en taki maður alla bændur á landinu, þá er tala þeirra rétt í kringum 6 þús. Hitt vita allir, að íbúar kaupstaða og kauptúna, sem koma til greina við lánveitingar úr byggingarsjóði verkamanna, eru miklu, miklu fleiri og þörf þeirra enn þá brýnni en hinna tiltölulega fáu, sam byggingarsjóðum sveitanna er ætlað til lána. Þetta var svar til hæstv. ráðh. út af ummælum í ræðum þeirra.

Hv. frsm. meiri hl. sagði með réttu, að brtt. þær, sem ég ber hér fram, séu harla veigalitlar. Ég skal játa það, að þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Það stafar af því, að þessar till. eru bornar fram í þeirri von, að þær fáist samþ., og mér var það alveg ljóst, að ekki var nokkur von til þess að fá samþykkt meira en það, sem hér er lagt til, eftir þeim undirtektum, sem ég fékk hjá hv. meðnm. mínum.

Samkv. frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að um 15 millj. kr. af því fé, sem veðlánakerfið hafi til umráða, fari til sérstakra útlána, til byggingarsjóðs 12 millj. og til útrýmingar heilsuspillandi íbúða 3 millj., þ.e.a.s., að 85% af fénu sé ætlað til almennra, en ekki sérstakra útlána.

Hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni áðan, að hann teldi þá stefnu sjálfsagða og eðlilega að láta alla sitja við sama borð, sem væru sæmilega stæðir efnalega, og viðurkenndi þar með, að ástæða væri til að gera sérstakar ráðstafanir vegna hinna, sem eru það ekki.

Nú kann að vera ágreiningur um það, hverjir geti talizt efnalega velmegandi, en ég þykist hafa sýnt nokkuð glögglega fram á það fyrr í ræðu minni, að til þess að geta notfært sér kjör veðlánakerfisins, eins og þau eru ákveðin í frv., þurfi maðurinn að vera svo settur, að hann geti greitt í húsnæðiskostnað ekki minna en 2000 kr. á mánuði, og ég get verið því samþykkur um þá, sem fara yfir það tekjumark, að þeir geti greitt slíka leigu, að það sé ekki óeðlilegt, að þeir sitji við sama borð, en þá þarf alveg bersýnilega að gera ráðstafanir vegna hinna mörgu, sem geta ekki risið undir slíkri húsaleigu. Til þess eru í frv., elns og það er núna, aðeins ætlaðar 3 millj. kr. í viðbót við þær 12 millj. kr., sem á að leggja byggingarsjóði sveitanna. Hvað mikið yrði veitt samkvæmt þeirri heimild til að lána byggingarsjóði verkamanna, sem er í frv., getur enginn sagt um. Það fer eftir því, hvað þeir, sem útlánunum stjórna, telja hæfilegt í því skyni. En eftir þeim undirtektum, sem ég heyrði bjá hæstv. félmrh. um að auka starfsfé byggingarsjóðsins, áður en búið sé að breyta lögunum, eru horfurnar ekki góðar. Því furðar mig á því, að hæstv. ráðh. skyldi ekki, eins og ég áðan sagði, leggja fram till um breytingar á lögunum um verkamannabústaði eða þá að binda lánveitingar til hans því skilyrði, að lögunum verði breytt. Meðan svo er ekki, sé ég ekki, að honum sé ætlað sem neinu nemur.

Samkvæmt mínum till. er gert ráð fyrir því, að til byggingarsjóðs verkamanna renni 12 millj., til útrýmingar heilsuspillandi íbúða 10 millj. og að greiðslan á skuldum smáibúðalánadeildarinnar færist á ríkissjóð, en ekki á veðlánakerfið. Yrðu þessar till. mínar samþ., þá gengju 34 millj. af þessum fyrirhuguðu 100 til þessara sérstöku lántakenda, sem geta ekki notað sér hin almennu kjör veðlánakerfisins. Það er sú meginbreyting tölulega, sem felst í mínum till., að í staðinn fyrir að leggja aðeins 3% til láglaunamanna í kaupstöðum sem aðstoð við byggingar, þá verði sú upphæð hækkuð upp í 10 millj. og 12 millj., eða upp í 22%. Yrðu þá enn til almennrar ráðstöfunar um 66 millj. kr. eða 2/3 af því fé, sem reiknað er með að veðlánakerfið hafi til umráða. Til viðbótar kæmi svo það fé, sem losnaði hjá smáíbúðadeildinni, sem einnig að sjálfsögðu yrði lagt til þeirra, sem búa við lökustu kjörin efnalega.

Þetta er í höfuðatriðunum tölulega innihaldið í mínum till., að það séu tryggð ekki minna en 34–35% auk einstakra lánveitinga til handa þessu fólki, sem vegna efnahags og tekna getur ekki notfært sér lánskjör veðlánakerfisins.

Hæstv. ráðh. sögðu báðir, að það væri lítið gagn í því að byggja skýjaborgir og glansmyndir, sem væru ekki raunhæfar. Ég er þessu alveg sammála. Ég vil fullyrða það, að þessar till. mínar eru í alla staði raunhæfar. Það, sem um er að ræða í sambandi við þessar till., er það, hve mikið af þeim væntanlegu 100 millj., sem veðlánakerfið hefur til umráða, á að tryggja því fólki, sem er svo sett efnalega, að það getur ekki fært sér í nyt þau lánskjör, sem veðlánakerfið býður. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að aðeins 3% af fénu renni til þeirra í kaupstöðum, sem eru undir þessu marki. Samkv. mínum till. er gert ráð fyrir, að a.m.k. 34% auk smáíbúðalánadeildarinnar verði varið í þessu skyni. Ég verð að telja, að þetta sé það allra minnsta og hóflegasta, sem hægt er að mælast til að þingið ákveði í þessu efni, ef það vill ekki bókstaflega binda þetta fé, 85 millj., eingöngu við sæmilega efnað fólk í kaupstöðum og kauptúnum.

Ég get bætt því við til sönnunar því, sem hv. frsm. sagði um, að minar till gengju ekki langt, að í nágrannalöndum okkar, sem ég drap nokkuð á í fyrri ræðu minni, var talið, að milli 60% og 80% af öllum íbúðabyggingum í þessum löndum sé styrkt af hinu opinbera með löngum, tiltölulega háum og vaxtalágum lánum. Ef mínar till. yrðu samþ., þá værum við þó ekki komnir lengra en svo, að rösklega þriðjungurinn af íbúðabyggingunum nyti þessara kjara.

Það er alveg þarflaust að hlakka yfir því, að ekki hafi orðið úr framkvæmdum samkvæmt lögunum frá 1946 og 1952, þ.e.a.s. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða og aukið fé til byggingarsjóðs verkamanna. Hæstv. ráðh. er fullkunnugt um það báðum, að ástæðan til þess var sú, að sá, sem kassanum réð og fjárráðin hafði, lokaði svo fyrir, að féð var ekki fáanlegt til þeirra framkvæmda, því miður, sem þessi lög gerðu ráð fyrir. Að segja, að það hafi verið Alþfl.-menn, sem hafi snúið þeim lykli og skellt í lás, er náttúrlega hrein og bein öfugmæli, eins og hæstv. dómsmálaráðherra er manna bezt kunnugt um.

Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér um, að ekki væri tilætlunin, að lánskjör lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna ættu að breytast til samræmis við hin almennu lánskjör veðlánakerfisins. Ég hef að vísu ekki fundið í frv. eða grg. nein fyrirmæli í þessu efni. Þvert á móti virðist mér eftir frv., að það sé ætlunin, að þessi lán falli undir hin almennu lánskjör veðlánakerfisins. En það sé fjarri mér að vilja bera brigður á ummæli hæstv. ráðh. í þessu efni, og ég vil þakka honum fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér, og treysta því, að samkvæmt henni megi fara. Þegar tekið er tillit til hennar, eykst nokkuð sá hluti af þessu fé, sem ætlazt er til að veittur verði með lánskjörum, sem eru nær því, sem almenningur getur risið undir, en hin almennu lánskjör veðlánakerfisins. Útlán lífeyrissjóðanna munu hafa verið um eða yfir 10 millj. kr. til íbúðabygginga á ári undanfarið, svo að það leiðréttir nokkuð, ef þessi skilningur er lagður í frv., hlutfallið milli þess, sem gengur til efnamannanna og hinna fátækari.

Ég hef enga tilhneigingu til þess að lengja þessar umr. Ég held, að ég hafi svarað flestu af því, sem hér kom fram, og vildi mega mælast til þess, að hv. þm. féllust á að greiða þeim till mínum atkv., sem lúta að fjárhagshlið málsins, um úthlutun lána og lánveitingar, hvað sem þeir segja nm till. mína um stjórn þessara mála, sem mér virtist hæstv. ráðh. þó ekki taka alls fjarri.

Ég mun ekki vera meinsmaður þess, að þetta frv. verði samþ., jafnvel þótt ekki fáist á því leiðréttingar. Hins vegar verð ég að segja það, að ég tel, að fyrir þá, sem mesta þörf hafa fyrir hjálp í þessum efnum, sé harla lítið gert, þó að þetta frv. verði að lögum, því miður. Hvað verða kynni, ef glæstar vonir hæstv. dómsmrh. um framhald þessarar starfsemi á svipuðum grundvelli og í frv. er gert ráð fyrir rætast, skal ég ekki segja. Ég vildi mega vona, að ummæli hans um það efni yrðu að veruleika, en á þessu stigi málsins verður það ekki kallað annað en vonir og ágizkanir einar.