15.11.1954
Efri deild: 17. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

60. mál, manntal í Reykjavík

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er flutt hér á þingi í Nd. af 7. þm. Reykv., sem jafnframt er borgarstjóri Reykjavíkur, og fer fram á það, að bæjarstjórninni verði heimilað að fella niður, fyrir eitt ár í senn, manntal samkv. lögum nr. 18 13. sept. 1901 og síðari breyt. á þeim lögum.

Ástæðan til þess, að þetta þykir ekki aðeins fært, heldur æskilegt, er sú, að með lögum nr. 67 frá 11. nóv. 1952 var manntal fyrir allt landið falið Hagstofu Íslands, og hefur hún fengið sér vélar til þess að annast skýrslugerð og annað samkvæmt því, þannig að það er hægt á auðveldari hátt að afla þeirra skýrslna sem áður voru fengnar hjá manntalsskrifstofu Reykjavíkur. Hagstofan sér um innfærslur á öllum breytingum, sem verða á búsetu manna, og sendir út skýrslur í hús til þess að fá upplýsingar um það, og er álitið, að það verði einungis til trafala, ef sams konar skýrslur verða líka sendar í húsin frá manntalsskrifstofu Reykjavíkur, eins og nauðsynlegt væri, ef hún ætti einnig að annast manntal hér í Reykjavík.

Í frv. er aðeins farið fram á, að þessi undanþága verði leyfð eitt ár í senn, og er það vegna þess, að þetta kerfi er það ungt, að ekki er komin full reynsla á það, en ef það reynist eins og vonir standa til og full ástæða er til að ætla, verður þessi heimild sjálfsagt gerð endanleg.

Allshn. Ed. hefur eins og allshn. Nd. lagt einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.