03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

6. mál, prentfrelsi

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi með örfáum orðum mjög taka undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um þetta mál í stuttri ræðu. Þetta frv., svo langt sem það nær, er í sjálfu sér mjög góðra gjalda vert, tilgangurinn að baki þess mjög svo lofsverður, en ég er hv. 3. þm. Reykv. sammála um, að vafasamt er, að frv. gangi nógu langt til þess að binda enda á þann ófögnuð, sem hér er um að ræða, þar sem er útgáfa sakamála- eða glæpatímaritanna, sem hér hefur fjölgað uggvænlega mikið á undanförnum árum. Ég hefði talið mjög æskilegt, að tryggilega hefði verið frá því gengið í frv., að reist yrði rönd við útgáfu þessara rita. Ég hef sjálfur ekki gert mér skýra grein fyrir því, með hverjum hætti það væri hægt, en haldi málið áfram til 3. umr., mun ég fyrir mitt leyti athuga nánar, hvort tiltækilegt sé að herða að einhverju leyti á ákvæðum frumvarpsins.

Annað minntist hv. 3. þm. Reykv. einnig á, sem er mjög svo rétt og athyglisvert, þótt vafasamt sé nú raunar, að ákvæði þar að lútandi eigi heima í lögum um prentfrelsi, en það er innflutningur „hasarblaðanna“ svonefndu, sem allir munu kannast við hvað eru, þó að orðið sé ekki íslenzkt frekar en þau rit, sem um er að ræða. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að ég hafði hugsað mér fyrir nokkru að flytja þáltill. þess efnis, að reist yrði rönd við innflutningi þessara rita, sem ég er hv. þm. algerlega sammála um að eru íslenzkum æskulýð stórskaðleg. En ég komst að raun um, var tjáð af þar til bærum mönnum, sem fást við innflutningsmál, að mjög erfitt væri að orða ákvæði um þetta þannig, að alveg tvímælalaust væri, að þau tækju eingöngu til þeirra rita, sem við hv. 3. þm. Reykv., og vafalaust fleiri, erum alveg sammála um að nauðsyn bæri til að hefta innflutning á. Hér virðist sem sagt vera við framkvæmdarörðugleika að etja, sem erfitt er að yfirvinna, en ef hv. n. kynni að ræða þetta mál frekar, þá vil ég hér með skjóta því að henni, hvort hún vildi ekki einnig taka það til athugunar, hvort ekki væri með einhverjum hætti unnt, þannig að framkvæmanlegt væri, að reisa rönd við þeim ófögnuði, sem innflutningur „hasarblaðanna“ svonefndu er.