17.12.1954
Neðri deild: 35. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

114. mál, þingfararkaup alþingismanna, lífeyrissjóð o. fl.

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem fyrir liggur á þskj. 212, er flutt af hæstv. forseta Sþ. og hæstv. forseta Nd. og fjallar um það að gera nokkra breytingu á lífeyrissjóðsákvæðunum í lögum um þingfararkaup alþm., þeim er samþ. voru á síðasta þingi.

Breytingin, sem um er að ræða, er á þá leið, að ekkjur þm., sem hafa verið búnir að vera á þingi lengur en 10 ár, en ekki eru orðnir 65 ára, þegar þeir féllu frá, fá rétt til lífeyris á sama hátt og ákveðið er í lögunum að öðru leyti.

Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar og rætt það nokkuð ýtarlega og orðið á einu máli um að mæla með því, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum, sem eru aðallega formsbreytingar og í því fólgnar að færa þetta meira til samræmis við þau ákvæði, sem eru í lögum um lífeyrissjóð embættismanna, en efnishlið frv. breytir n. ekki.

Eins og nú standa sakir, virðist okkur, að þessi ákvæði muni taka til fimm ekkna, sem sé ekkna fimm alþm., sem dánir eru og voru þó ekki orðnir 65 ára, en búnir að vera það lengi á þingi, að þeir höfðu rétt til lífeyris.

Ég vænti þess, að það geti orðið fullt samkomulag um að samþ. þessar brtt. fjhn. og frv. þannig breytt.