02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

103. mál, óréttmætir verslunarhættir

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunna, að í flestum menningarlöndum er það tíðkað, að uppboð séu haldin á listaverkum og listmunum. Eru slík uppboð oft mjög vinsæl og mikið sótt af fólki, sem vill gera kaup á slíkum hlutum. Og þau fyrirtæki, sem annazt hafa slík uppboð, eru gömul og gróin víða um lönd, hafa getið sér ágætt orð og álit fyrir þá þjónustu við almenning, sem í þessum uppboðum felst.

Hér á Íslandi hefur þessi aðferð við sölu á listaverkum og listmunum lítt eða ekki verið tíðkuð, þangað til á ári, að ungur Íslendingur, sem kynnzt hafði þessari söluaðferð listmuna og listaverka erlendis, hófst handa um hana hér. Þótti hún mjög vel gefast. Það var mikil aðsókn að uppboðum þessa manns, sem gerðist brautryðjandi á þessu sviði hér, og yfirleitt var því fagnað, einnig meðal listamanna, að að þessu ráði skyldi horfið.

En þá kemur það í ljós nokkru síðar, að talið er, að þessi söluaðferð listaverka fái ekki staðizt, hún fari í bága við tilskipun um uppboðsþing í Danmörku og Noregi frá 19. des. árið 1693, en þessi tilskipun hefur aldrei verið birt hér á landi. Það kom síðan í hlut dómstóla að skera úr um þetta, og niðurstaðan varð sú, að sá maður, sem gengizt hafði fyrir þessum listaverkauppboðum, var dæmdur í nokkra sekt fyrir að hafa haft þennan hátt á.

Ég held, að allir hv. þm. geti verið sammála um, að það sé í fyrsta lagi mjög óeðlilegt, að ekki sé hægt að hafa sama hátt á í þessum efnum hér á landi og í öðrum löndum, þar sem þessi söluaðferð hefur tíðkazt og þótt gefast mjög vel. Í öðru lagi er það einnig dálítið annarlegt, að dómur skuli felldur í þessu máli samkv. tilskipun, sem aldrei hefur verið birt hér á landi.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að viðskmrh. skuli heimilað að veita þeim, sem verzlunarleyfi hefur, leyfi til þess að selja sjálfur málverk, myndir, listmuni og bækur á frjálsu uppboði. Það er sem sagt lagt til, að þessi aðferð verði lögheimiluð.

Við, sem að þessu frv. stöndum, teljum, að þetta fyrirkomulag miði að því að koma þessum málum í betra horf en þau áður hafa verið í hér á landi. Með því er listamönnum opnuð leið til þess að koma listaverkum sínum í verð og út til fólksins, án þess að þurfa að standa í verzlunarrekstrinum sjálfir. Auk þess er það öllum almenningi til töluvert mikils hagræðis að geta sótt slíkar kaupstefnur og átt þar völ þeirra listaverka og listmuna, sem upp eru boðin.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rökstyðja þetta mál öllu frekar. Hér er um sanngirnismál að ræða, og sú till., sem hér er flutt, miðar að því að verða í senn listamönnunum, sem verkin framleiða, til hagræðis og öllum almenningi, sem þau vill kaupa.

Ég leyfi mér því að vænta þess, að hv. þd. taki þessu litla frv. vei, og legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.