30.11.1954
Efri deild: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

103. mál, óréttmætir verslunarhættir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta var í Nd. flutt af hv. þm. N-Ísf. (SB) og nokkrum fleiri og er fram borið vegna hæstaréttardóms, sem nýlega staðfesti, að óheimilt væri að láta fram fara uppboð, nema formlegur háttur væri hafður á með þeim hætti, sem áður hafði tíðkazt. Þetta var nokkuð umdeilt mál, og var að lokum talið, að hér giltu ákvæði, gömul dönsk fyrirmæli, sem sumir töldu vafasamt hvort hér hefðu nokkurn tíma öðlazt gildi. Ég skal ekki blanda mér í það, en svo mikið er víst, að staðfesting var fengin á því, að þetta voru landsins lög, sem þarna hafði verið brotið á móti, og nú er ætlunin að breyta þeim fyrirmælum, sem talin voru gilda. Mér er ljóst, að nokkur sanngirni mælir með því, að breytingin eigi sér stað, en efast þó um, að full athugun hafi átt sér stað á því, hvort það sé annmarkalaust, að þessu sé breytt. Vildi ég mælast til við hv. n. hér, sem þetta mál fær til athugunar, þar sem mér er ekki kunnugt um, að n. í Nd. eða flm. hafi haft neitt samráð við dómsmálastjórnina um málið, að hún athugi málið og sérstaklega beri sig saman við t.d. borgarfógetann í Rvík og aðra þá, sem slíkum uppboðum eru kunnugastir, og heyri hjá þeim, hvort þeir telji annmarka vera samfara þeirri breytingu, sem hér er ráðgerð. Ég vil taka skýrt fram, að ég er ekki að leggja á móti þessu frv. Mér virðist greinilegt, að það hnígi viss rök því til stuðnings, en tel þó nauðsynlegt, að málið fái ýtarlegri athugun en ég hygg að hv. Nd. hafi veitt því. Í hv. allshn., sem sjálfsagt fær málið til meðferðar, eru ágætir lögfræðingar. Ef þeir leggja saman og hafa samráð við þá, sem kunnugastir eru því, hvernig uppboð hér á landi hafa tíðkazt á undanförnum árum, þá efast ég ekki um, að þeirra ráðum verði hlítandi.