17.12.1954
Efri deild: 36. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

103. mál, óréttmætir verslunarhættir

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., var borið fram í Nd. af þm. allra flokka og fékk hraðbyri í gegnum þá d. og var samþ. út úr henni í því formi, sem það þá var í, með miklum meiri hl. atkv.

Frv. þetta er gamall kunningi hér hjá okkur, vegna þess að þm. Str. (HermJ) bar sams konar frv. fram á síðasta þingi, þó að það hlyti ekki afgreiðslu.

Hér á landi hefur verið um nokkurn tíma talsverður vafi um það, hvernig löggjöf væri háttað með frjáls uppboð, enda hafa þau verið fátíð. Við höfum fengið ágæt lög um nauðungaruppboð, nr. 57 25. maí 1949, þar sem settar voru í kerfi þær reglur, sem gilt höfðu um nauðungaruppboð, og gerðar ýmsar hreytingar til bóta á þeim. En milli nauðungaruppboða og frjálsra uppboða er meginmunur, því að nauðungaruppboð, sem venjulega er síðasta skrefið til fullnustu réttargerða, er vafalaus dómsathöfn eftir lögum hér á landi, en aftur á móti eru frjáls uppboð aðeins ein aðferð til þess að gera samninga.

Fyrir tveimur eða þremur árum tók framtakssamur maður síg fram um það að halda uppboð hér, frjáls uppboð, á málverkum og ýmsum listmunum. Það kom þá strax í ljós, að það var æskilegt að hafa þessa aðferð á og gæti sérstaklega verið til hags fyrir listamennina. Það var þó álitið, að hann tæki sér þarna vald, sem hann ekki hefði, og hann var kærður í tilefni af þessu uppboði, og því máli lauk með hæstaréttardómi, sem er upp kveðinn fyrir skömmu og ákvað, að gömul tilskipun, sem farið hefur verið eftir hér á landi, frá 19. des. 1693, hefði löghelgazt fyrir venju og að það væri engum heimilt að halda hér frjáls uppboð nema hinum reglulegu uppboðshöldurum, sem eru sýslumenn og bæjarfógetar, í Reykjavík borgarfógeti, og svo hreppsstjórar í umboðum þeirra úti um sveitirnar.

Í tilefni af þessu hefur frv. verið borið fram að nýju og hlotið þá meðferð, sem ég gat um áðan, í Nd. Frv. var í fjhn. í Nd., en var vísað til allshn. hér, sem ég tel réttara, þó að það megi segja, að fjárhagsatriði séu í því, þar sem ríkissjóður hefur tekið sölulaun af þeim munum, sem seldir eru á uppboði, og þau allhá, 8%, en það hefur einmitt komið í veg fyrir, að menn settu muni, sem þeir vilja selja, á uppboð.

Allshn. hefði frekar kosið, að sett hefðu verið sérstök lög um frjáls uppboð, sem væru miklu nákvæmari en það, sem hér er um að ræða, enda tækju þá til allra muna. Til þess hefur þó hvorki verið tími né tækifæri, og hefur n. því orðið sammála um að mæla með, að frv. þetta yrði samþ., þó með allmiklum breytingum og takmörkunum, sem hún hefur gert.

N. hefur ekki álitið, að það væri rétt að veita öllum þeim, sem verzlunarleyfi hafa, rétt til þess að halda frjáls uppboð. Með því mundi verða stofnað til hins mesta glundroða, og n. hefur álitið, að það þyrfti að krefjast meiri hæfileika hjá þeim, sem fær leyfi til uppboðs, heldur en almennt er krafizt til verzlunarleyfis.

Hún hefur því lagt til, að ekki verði veitt fleiri mönnum en 5 í Reykjavík og 2 í hverjum kaupstaðanna leyfi til þess að halda slík uppboð.

Spurning kom fram um það, hvort leyfisveiting í þessu tilfelli ætti að vera í höndum dómsmrn., sem nauðungaruppboð heyra undir, af því að þau eru dómsathafnir, eða viðskmrn. Varð það ofan á í n., að þar sem hér væri einungis um vissa söluaðferð að ræða, þá væri eðlilegra, að það heyrði undir viðskiptamálaráðuneytið.

Þá hefur n. haldið þeim takmörkunum, sem sett voru í upprunalega frv., að aðeins yrði leyft að selja málverk, myndir, listmuni og bækur á þennan hátt.

Þá leggur n. til, að leyfi skuli ekki veitt til lengri tíma en 5 ára í senn og að það skuli verða látið af hendi gegn sérstöku gjaldi, 1500 kr., sem renni í ríkissjóð. Hins vegar hefur það verið tekið fram berum orðum í brtt. n., sem ekki stóð í upprunalega frv., að sölulaun af þessum munum skyldu ekki greidd til ríkissjóðs. Var það álit þeirra manna, sem fluttu frv. í Nd., að ekki þyrfti að taka þetta fram, því að það leiddi af sjálfu sér, en allshn. Ed. þótti réttara að taka þetta fram og getur því frekar mælt með því, þar sem hér er eingöngu að ræða um þá hluti, sem skattfrjálsir eru til eignarskatts og ekki tollaðir, þegar þeir eru fluttir inn í landið.

N. gerir sér það ljóst, að með því að leggja til, að þetta verði samþ. í þessu formi, er hér aðeins um tilraun að ræða, sem stendur til bóta, og að æskilegast væri, að útbúin væru sérstök lög um frjáls uppboð. — Ég skal svo ekki hafa þessa framsögu lengri.