18.12.1954
Efri deild: 42. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

136. mál, skemmtanaskattur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, að ég gat ekki verið kominn til að vera við 1. umr., sökum þess að ég tafðist af skiljanlegum ástæðum nokkrar mínútur vegna þeirrar slæmu færðar, sem er í úthverfunum.

Mér hefur verið sagt frá fyrirspurn, sem komið hafi fram um, hvað teljist íslenzkar kvikmyndir í því sambandi, sem um ræðir í 1. gr. þessa frv. Það er auðvitað erfitt að gefa á þessu fullkomna greiningu eða skýringu; ég er ekki reiðubúinn til þess. Þetta verður nokkuð að meta hverju sinni. En ég vil þó skýra frá því, að einmitt alveg nýlega kom til úrskurðar umsókn frá félagi, sem ég hygg að heiti Edda Film eða eitthvað þvílíkt og sótti um eftirgjöf samkvæmt þessari heimild, að því er ég hygg, og þó raunar er mér nær að halda um að sleppa alveg við skemmtanaskatt, vegna þess að um íslenzkar kvikmyndir væri að ræða.

Við töldum í ráðuneytinu, og það var í samræmi við álitsgerð tollstjóra, að þá mynd, sem þar var um að ræða, myndina Sölku-Völku, væri ekki hægt að kalla íslenzka kvikmynd. Það mun að vísu vera svo, að þetta íslenzka félag mun vera að 1/5 hluta eða eitthvað þar um bil þátttakandi í kvikmyndagerðinni, en að langsamlega mestu leyti er það erlent fé, sem hefur verið varið til þessarar kvikmyndar, hún er gerð undir stjórn erlendra manna, og að því er mér skilst eru einnig flestir leikendanna erlendir og myndin tekin á erlendu máli, svo að hvernig sem á er litið, þá er ómögulegt að telja þá kvikmynd íslenzka kvikmynd. Ef kvikmynd væri tekin, þar sem meira en helmingur þess fjár, sem lagt var fram til kvikmyndarinnar, er íslenzkur og íslenzkir kvikmyndaleikarar að meiri hluta og íslenzkt tal, þá mundi aftur tvímælalaust vera um íslenzka kvikmynd að ræða. Svo geta verið viss millistig þarna á milli, sem ég er ekki reiðubúinn að gefa almenna yfirlýsingu um, nema þau séu skoðuð í hverju einstöku tilfelli. En það meginsjónarmið, sem ég hef hér getið um, mundi verða mestu ráðandi um þann úrskurð, sem felldur yrði.