22.02.1955
Efri deild: 50. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

92. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Frsm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Landbn. hefur orðið ásátt um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 6. landsk., var ekki viðstaddur, þegar málið var afgr. í n., og mun hann því að sjálfsögðu hafa óbundnar hendur um málið.

Það eru aðallega tvö atriði, sem farið er fram á að breytt verði í l. um ættaróðal og erfðaábúð með þessu frv. Í fyrsta lagi er það að breyta um óðalsréttinn. Nú er það þannig undantekningarlaust, að elzta barnið hefur réttinn. Þetta þykir ekki heppilegt, vegna þess að það er oft svo, að einmitt eldri börnin yfirgefa fyrr heimilin en yngstu eða yngri börnin, sem eru heima og eru við búskapinn með foreldrunum, og þá þykir eðlilegra, að þau geti tekið við réttinum að foreldrunum föllnum frá. Þess vegna er ætlazt til að breyta 20. gr. þannig, að fyrir sitji það barnanna, sem að staðaldri hefur unnið að búinu. — Hitt atriðið, sem máli skiptir í þessu frv., er það, að nú er það skilyrðislaust fasteignamatið, sem ræður við eignaskipti á ættaróðali. Nú líður, eins og kunnugt er, æði langur tími milli fasteignamats, tíu ár, en það er oft mikið gert til bóta á jörðunum í millitíðinni, og þess vegna er lagt til að breyta hér, að í staðinn fyrir að fasteignamatið skuli ráða skilyrðislaust, þá skuli matsmenn, úttektarmenn, meta endurbætur á jörðinni, þegar eigendaskipti fara fram, og það mat bætist þá við fasteignamatsverðið.

Þetta eru þær aðalbreytingar, sem þetta frv. fer fram á, að gerðar verði á l., og leggur n. til, að það verði samþ., telur þær til bóta.