15.11.1954
Efri deild: 17. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

33. mál, búseta og atvinnuréttindi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. hefur verið samþ. í Nd. með smávægilegum breytingum, að því er ég hygg einungis um orðalag. Vonast ég til þess, að það fái greiðan framgang einnig í þessari hv. d. En efni þess er það, að á daginn hefur komið, að einstakir Íslendingar, sem búsettir eru erlendis og hafa viljað flytja heim til föðurlands síns, hafa hrokkið frá því, vegna þess að krafizt hefur verið ársdvalar þeirra hér, áður en þeir gætu farið að reka þá atvinnu, sem þeir höfðu ætlað sér. Þessi undanfarandi dvöl var sett sem skilyrði meðan við vorum í sambandi við Dani og þeir höfðu jafnrétti við okkur í okkar eigin landi. Nú orðið er þetta með öllu ástæðulaus kvöð á Íslendingum, og varð því að ráði að flytja þetta frv. Vonast ég til þess, að það mæti ekki mótspyrnu í þessari deild. Ég legg til, að frv. fari til 2. umr. og hv. allshn.