08.03.1955
Efri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

111. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. tók fram, hafði ég ekki flutt neina framsöguræðu fyrir þessari till., en ég skal gera hér aðeins með örfáum orðum grein fyrir henni nú.

Á Reykhólum er verið að byggja upp, eins og kunnugt er, tilraunastöð í jarðrækt, sem hefur hafizt handa um allmikla framleiðslu í garðrækt, en einn af þeim erfiðleikum, sem eru í sambandi við þá framleiðslu, er kostnaðurinn við að flytja vöruna frá framleiðslustað og á sölustaðina. Hefur þetta mest farið fram á bifreiðum, annaðhvort til Króksfjarðarness og svo þaðan aftur með skipum eða venjulega beint á sölustað, vegna þess að kostnaður við umskipun hefur orðið það mikill, að það hefur þótt borga sig betur að flytja vöruna á bifreiðum alla leið til Reykjavíkur. En það hefur sýnt sig, að erfiðleikarnir á flutningi á þungavöru milli Reykjavíkur og Reykhóla eru svo miklir, að það jafnvel kyrkir hverja þá framleiðslu, sem þar ætti að koma á fót, ef ekki er hægt að minnka flutningskostnaðinn, en það verður ekki gert, nema því aðeins að hægt sé að flytja þungavöruna frá og að Reykhólum að sjóleiðum.

Nú eru lendingarbætur þannig á Reykhólum, að ómögulegt er að leggja þar að neinni fleytu. Það þarf því að byggja þar upp bryggju eins og víða annars staðar, og það er þess vegna, sem ég hef borið þessa till. fram.

Það hefur einnig mjög komið til greina að setja upp þaravinnslu á Reykhólum, en frumskilyrðið til þess, að unnt sé að koma þar upp slíkri vinnslu, er, að þar séu gerð viðunandi lendingarskilyrði.

Það er því meginástæða fyrir áframhaldandi þróun og fólksfjölgun á Reykhólum, að komið sé þar upp hafnarbótum eins og annars staðar á landinu, þar sem þörf er á að flytja þungavörur frá stað og til.

Þetta mál hefur nokkuð verið rætt við vitamálastjóra, sem hefur talið sjálfsagt að láta rannsaka öll skilyrði fyrir hafnargerð á Reykhólum, og mundi það verða gert, eftir að þessi till. hefur verið samþ., en hann sér hins vegar ekki ástæðu til þess að framkvæma slíka rannsókn, nema vitað sé, að Reykhólar séu teknir upp í hafnarlög eins og aðrir staðir á landinu. Það hefur einnig komið til mála, að í stað þess að byggja slíka höfn á Reykhólum, þá verði það gert annaðhvort á Stað, sem liggur þar um 5 km vestar, eða á öðrum stöðum á nesinu, en hitt hygg ég þó eftir lauslega athugun, að það verði hallazt að því að gera lendingarbæturnar á Reykhólum sjálfum, enda talið, að það muni ekki verða erfiðara eða dýrara en að gera þær á öðrum stöðum. Það eru öll líkindi til þess, að hægt sé að gera það nú með sanddælum, frekar en með uppgrefti, eftir að tæknin er orðin slík, að hægt er að dæla upp sandi og gera rennur upp að þeim bryggjum, sem kynnu að verða byggðar.

Ég vil því þakka hv. n. fyrir að leggja til, að till. verði samþ., og sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð og vil vænta þess, að d. fallizt á þá till.