21.02.1955
Neðri deild: 50. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv. til laga um Brunabótafélag Íslands hefur verið til athugunar í allshn. d., en n. hefur ekki getað orðið ásátt um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur fram álit sitt á þskj. 359 og er málinu fylgjandi. Hins vegar hefur minni hl. n. þegar lagt fram brtt. við frv. á þskj. 336, og munu þar koma fram þær breytingar, sem minni hl. óskar að gerðar verði á frv.

Á síðasta þingi urðu talsverðar umræður um Brunabótafélag Íslands og starfsemi þess. Vildu margir þingmanna þá breyta svo lögum og reglum félagsins, að losað yrði um þau einkaréttindi, sem félagið hefur haft frá stofnun þess. Þingið kaus svo fimm manna mþn. til þess að að athuga lögin og gera till. til ríkisstj. N. klofnaði í málinn. Meiri hl. n. skilaði frv. því, sem hér liggur fyrir, og var það á sínum tíma afhent ráðherra, sem hefur ekki séð sér fært að afgreiða frv. frá sér eins og það lá fyrir.

Breytingin með þessu frv. frá þeim lögum, sem nú gilda um Brunabótafélagið, er þrenns konar. Í fyrsta lagi breyting í þá átt, að bæjarog sveitarfélög geta sagt sig úr félaginu með ákveðnum fyrirvara um tímatakmörk, ef þau óska að gera samninga við önnur tryggingarfélög. Einokunaraðstaða félagsins er það atriði, sem mest var gagnrýnt á þinginu í fyrra. Skildist mér, að mikill hluti þingmanna óskaði, að einmitt þessi breyting yrði gerð á lögunum, svo að menn hefðu frjálsari hendur en þeir hafa nú til þess að ráðstafa brunatryggingum sínum. En með þessari breytingu er mönnum tryggður þessi réttur, þó að það sé með þeim fyrirvara, að ákveðinn tími þurfti að líða frá uppsögninni og þangað til hún gengur í gildi, þ.e. sex mánuðir. Í öðru lagi er breyting á stjórn félagsins. Samkv. frv. er geri: ráð fyrir, að stofnað verði fulltrúaráð og hvert sveitarfélag hafi einn fulltrúa í því til þess að fylgjast með starfsemi félagsins og fara með yfirstjórn þess. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir víðtækari heimild um starfsemi félagsins en verið hefur til þessa. Geri ég ráð fyrir, að þetta sé gert með það fyrir augum, að félagið komist á þann grundvöll, að það geti rekið starfsemi sína í fullkominni samkeppni við önnur starfandi tryggingarfélög hér á landi.

Mér sýnist því, að með þessu frv. sé náð því marki, sem þingið í fyrra lagði mesta áherzlu á.

Félagið hefur að mörgu leyti verið merkileg stofnun og komið að miklum notum. Það hefur afkastað mjög merkilegu brautryðjandastarfi. Það hefur haft eftirlit með brunavörnum. Það hefur séð um eflingu brunavarna og m.a. styrkt í því skyni ýmis hrepps- og bæjarfélög til þess að byggja vatnsveitur. Ekki sýnist vera ástæða til að kippa grundvellinum undan félaginu fyrirvaralaust. Virðist miklu skynsamlegra, að hér fari nokkur þróun fram, og að félaginu verði um sinn settar þær reglur til að starfa eftir, sem eru í þessu frv. Getur þá félagið hagað starfsemi sinni í samræmi við þær kröfur, sem vafalaust verða gerðar til þess í framtíðinni, en það er að geta staðið í fullri samkeppni á hinum frjálsa tryggingarmarkaði í landinu.