21.02.1955
Neðri deild: 50. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Við hv. þm. Dal. (ÁB) og ég höfum skrifað undir nál. á þskj. 359 með fyrirvara. Einnig höfum við leyft okkur að flytja brtt. við þetta frv., sem hér er nú til umr., og er hún á þskj. 336.

Í sjálfu sér hefði verið æskilegt, að þessi frv. tvö, sem liggja hér fyrir hv. Nd., þetta frv., sem nú er til umr., þ.e. 129. mál, og enn fremur frv. um brunamál, sem er 141. mál, þskj. 335, hefðu verið bæði til umræðu samtímis, sakir þess að það er í raun og veru ekki hægt að tala svo um annað þessara mála, að ekki blandist inn í umr. efni hins. Það er um svo skyld atriði að ræða, og frv. fjalla um sama efni, svo að það hefði verið langæskilegast. Með tvískiptingu umr. um málið fer tæpast hjá því, að það verði nokkur endurtekning á umr.

Ég mun víkja að þeim atriðum í þessu frv., sem við hv. þm. Dal. höfum mest að athuga við. Og þó að síðar komi til umræðu frv. okkar, sem við flytjum og er á þskj. 335, þá geri ég ráð fyrir, að hægt verði að skírskota nokkuð til þeirra umræðna, sem fara nú fram. Fyrirvari okkar hv. þm. Dal. við þetta nál. lýtur að því, að við getum ekki fallizt á nokkur atriði þessa frv., og brtt. okkar, sem við flytjum og eru, eins og ég áður sagði, á þskj. 336, lúta að þeim atriðum. Ef þær brtt. verða samþykktar, þá munum við fylgja þessu frv. í þeirri breyttu mynd.

Eins og hv. þm. vita, er þetta frv., sem nú er til umræðu, samið af mþn., meiri hl. hennar. En það frv., sem við flytjum, hv. þm. Dal. og ég, er samið af minni hl. þessarar mþn. Það, sem á milli ber þessara frv., er, að samkvæmt þessu frv. er ætlazt til þess, að bæjar- eða sveitarfélög verði aðill að samningum um brunabótatryggingar. Eftir því frv., sem við flytjum, eiga einstaklingarnir að vera frjálsir að því, hvar þeir vátryggja, hjá hvaða félagi, aðeins er það sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði, að sá félagsskapur, sem tryggt er hjá, sé viðurkenndur af þeim ráðherra, sem þessi mál heyra undir. Þær brtt., sem við flytjum við þetta frv., lúta fyrst og fremst að þessu, að gefa það alveg frjálst, að einstaklingarnir sjálfir ráði því, hjá hvaða félagi þeir tryggja. Það er og heimilt samkv. okkar till., að ef menn óska eftir, að bæjar- eða sveitarstjórn semji fyrir einstaklingana, þá geti þeir óskað eftir því, og munu þá bæjar- og sveitarstjórnir auðvitað annast slíka samninga.

Samkv. þessu frv. er ekki ætlazt til, að einstaklingarnir ráði beinlínis neinu um það, hvar tryggt er, heldur er það fullkomlega á valdi bæjar- eða sveitarstjórnar. Okkur sýnist ekki, þm. Dal. og mér, ástæða til þess að hafa þetta svo bundið. Okkur sýnist, að menn muni vera þess umkomnir, þeir sem fasteignir eiga eða hús, að semja sjálfir um þessar tryggingar. Telji þeir sér annað betur henta, þá geta þeir veitt heimild sinni sveitarstjórn til þess að annast samningana, og ætti það að vera nóg.

Ég held, að eftir öllum málavöxtum ætti ekki að vera óæskilegt, að þetta fyrirkomulag væri haft á tryggingunum. Það er í samræmi við þann anda og þær óskir, sem hafa komið fram einmitt í þessum málum, að þetta sé ekki bundið í neinar viðjar. Það er náttúrlega ósköp gott og vel hugsað, að örfáir menn takist á hendur að annast samninga og hagsmuni annarra manna, en sé það ekki samkvæmt ósk eða vilja einstaklinganna, þá skilst mér, að það ætti ekki að vera neinum keppikefli að hafa slíkt umboð á höndum, a.m.k. væri þá viðkunnanlegast, að það væri með því fyrirkomulagi, ef svo ætti að vera, að menn óskuðu sjálfir eftir því, en ekki að það kæmi sem skipun ofan frá, og um annað gæti ekki verið að ræða.

Þá finnst mér einnig, að það sé æskilegast, að löggjöfin um þetta efni sé þannig afmörkuð, að það séu sérstök lög, sem Brunabótafélag Íslands á að starfa eftir, og öðru sé þar ekki blandað inn í en því efni, sem beinlínis kemur við þeirri starfsemi. En samkv. þessu frv. tekur það til hvors tveggja þessara atriða, en einnig er gert ráð fyrir, að menn geti gengið úr þessum félagsskap að uppfylltum vissum skilyrðum, sem sett eru í frv., og farið annað. Mér skilst, að í þessu efni væri einlægast, að löggjöfin, sem Brunabótafélag Íslands starfar eftir, væri aðeins fyrir þann félagsskap sniðin og um önnur atriði, sem lúta að brunatryggingarstarfsemi utan Reykjavíkur, væru sérstök lög. Samkv. þeim brtt., sem við flytjum, hv. þm. Dal. og ég, og því frv., sem við einnig flytjum og samið er af hv. minni hl. mþn., verða tvenns konar lög um þetta efni, önnur fyrir Brunabótafélag Íslands, sem snerta eingöngu þann félagsskap, en hin löggjöfin verður um þá almennu brunabótastarfsemi utan Reykjavíkur, og finnst mér, að vera muni æskilegast og einfaldast að hafa löggjöfina þannig úr garði gerða.

Við leggjum til með okkar brtt., að 5., 6. og 7. gr. og enn fremur 20. gr. falli niður og svo sé gerð lítils háttar breyting á 23. gr. Enn fremur, að nokkur breyting sé gerð á 4. gr. frv., sem lýtur að stjórn félagsins. Ef frv. yrði breytt í þessa átt, þá á það alveg við Brunabótafélag Íslands og er fullkomin löggjöf fyrir það, og þá munum við hv. þm. Dal. geta fylgt þessu frv., en annars ekki. Okkar fyrirvari lýtur að því, að verði brtt. samþykktar, þá munum við fylgja málinu, en verði þær felldar, munum við greiða atkv. á móti málinu.

Fyrsta brtt., sem við flytjum við 4. gr., lýtur að stjórn félagsins, að Alþingi kjósi þrjá menn í framkvæmdarstjórn. En samkv. ákvæðum 5. gr. þessa frv. er ætlazt til þess, að sýslunefndir og bæjarfélög, sem hafa tryggt hjá Brunabótafélaginu, kjósi fulltrúa, sem eiga að koma saman á fund á fjögurra ára fresti, og þessir fulltrúar eiga að kjósa þrjá menn í framkvæmdarstjórn. Ef 1/3 þessara fulltrúa, sem kjörnir eru á þennan hátt, sem ég var nú að segja frá, óskar að halda aukafund, þá á að gera það á milli þessara aðalfunda. Ætlazt er svo til, að þessir fulltrúar kjósi þrjá menn í framkvæmdarstjórnina. Þetta finnst okkur nokkuð viðamikið, og það kostar talsvert mikla peninga. Í sjálfu sér er ekki nema gott um það að segja, að nokkrir menn fylgist með starfsemi félagsins og viti deili á henni. En okkur lízt sem það megi uppfylla þær óskir á langtum einfaldari hátt, hagkvæmari og miklu ódýrari, og með því fyrirkomulagi sé þó fullkomlega gætt þess atriðis að hafa aðgæzlu með stjórn félagsins, og það er, að Alþingi kjósi þessa þrjá menn. Það er við ýmsa starfsemi, sem Alþ. kýs þannig menn til að stjórna fyrirtækjum eða til eftirlits, og okkur sýnist sem það megi auðveldlega koma því við, en það verður bara, ef það fyrirkomulag er haft, miklu ódýrara en að stofna til svona fjölmennra fulltrúafunda um ekki þó meira eða margbrotnara atriði, — stefna mörgum mönnum saman víðs vegar af landinu til fundarhalds hér fjórða hvert ár, og vel má hugsast, að það geti orðið oftar. Það er heimild til þess samkv. þessu frv., og enginn veit fyrir fram, nema það verði notað. Ég held, að með hinu fyrirkomulaginu, að Alþ. kjósi þrjá menn sem fulltrúa til þessara starfa, verði hægt að hafa jafngott eftirlit eða góða gæzlu á starfsemi félagsins, svo að hún þurfi á engan hátt að líða neitt fyrir það.

Þetta er að vísu ekki neitt höfuðatriði málsins; það skal ég játa. En mér sýnist það sé þó það mikilvægt atriði, að það sé rétt að gefa því gætur og að stofna ekki til allmikilla útgjalda gersamlega að óþörfu. Og ég get ómögulega séð með mínum bezta vilja, að þetta fyrirkomulag, sem þarna er lagt til að verði lögfest, verði á nokkurn hátt betra fyrir starfsemi félagsins eða tryggara en ef Alþ. kýs þrjá menn í framkvæmdarstjórn til þess að annast starfsemi félagsins. Það er síður en svo, að ég vilji á nokkurn hátt skaða þennan merka félagsskap. Ég hef ekki hina minnstu tilhneigingu til þess. Ég vil vona, að hann sé þannig á vegi staddur, að hann þurfi ekki sérstaka lagavernd til þess að standast samkeppni við önnur vátryggingarfélög. Og ég er alveg sannfærður um, að þess þarf ekki.

Þá er í 20. gr. þessa frv. gert ráð fyrir, að ef sveitarfélag vill fá samningum breytt við Brunabótafélagið, þá geti menn leitað samninga við stjórn þess, og til þess þarf tveggja mánaða fyrirvara, þ.e.a.s., það er gert ráð fyrir tveim mánuðum, ef þarf á að halda, til þess að koma slíkum samningum á eða leitast fyrir um samninga. Ef samkomulag næst ekki um brunatrygginguna fyrir næsta ár eða í framtiðinni, þá er heimilt að segja tryggingunum upp með sex mánaða fyrirvara, og þessi fyrirvari miðast við 15. okt. Ef tími er ekki nægur til þess, að það sé sex mánaða fyrirvari, miðað við 15. okt., þá framlengist vátryggingin af sjálfu sér um næsta ár. Mér finnst, að þetta beri með sér, að það á að vanda mjög til þessara samninga, og það lítur svo út eftir þessu, að þetta kunni að vera ekki alveg hættulaust„ að uppsögn á þessu takist, það sé a.m.k. allur varinn góður, að það skuli gert sex mánuðum fyrir 15. okt., ef menn eiga að losna næsta ár. Það má auðvitað ekki misskilja þann hug, sem þarna er á bak við, að þarna á sennilega að tryggja báða aðila vel, að það sé ekki rasað fyrir ráð fram, og báðir séu viðbúnir, ef breyting verður. En af því að það er nú um þau málsatriði að ræða, sem báðir aðilar hljóta að hafa nokkurn kunnugleika á, vátryggingarfélagið sjálft og einstaklingarnir, sem eru að tryggja eignir sínar, þá skilst mér, að vel mundi vera séð fyrir öllu, þó að þessir frestir væru nokkru styttri, og ekki væri neitt lagt á hættu, þó að það væri t.d. með eins eða tveggja mánaða fyrirvara sagt upp, ef það ætti að segja upp vátryggingunni hjá Brunabótafélaginu. Og fyrir hvert einstakt bæjar- eða sveitarfélag gæti manni dottið í hug að nægja mundi einn mánuður til samninganna, svo að þessir frestir yrðu nokkru styttri.

Þessi atriði, sem ég hef nú síðast gert að umtalsefni, skilst mér að séu engan veginn viðkunnanleg. Mér finnst, að þetta beri of mikinn keim af því, að að vísu vilji ekki Alþ. með þessari löggjöf alveg neita mönnum að vera annars staðar en þarna, en samt sem áður skuli ákvæði löggjafarinnar vera þannig, að torsótt verði það dálítið að ná þessu marki. Og þetta finnst mér alveg óþarft. Ég held, að þess gerist engin þörf, hagsmunum félagsins sé fullkomlega vel borgið, þó að þessi ákvæði séu ekki svona. Áreiðanlega er það viðkunnanlegra fyrir hlutaðeigandi menn, sem ætla að tryggja hjá félaginu eða annars staðar, að þeim sé ekki sniðinn þessi stakkur, eins og þeir séu hálfgert ómyndugir menn.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar. Ég vil vænta, að hv. d. fallist á brtt. okkar, og undir þeirri atkvgr., hvort þær verða samþ. eða ekki, er komið fylgi okkar hv. þm. Dal. við þetta frv.