21.02.1955
Neðri deild: 50. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Fyrir hönd okkar fim. vil ég leyfa mér að færa allshn. þakkir fyrir það, hve fljótt hún hefur afgreitt þetta mál. Það kom fram hjá frsm. n., að þetta mál hefði oft áður verið rætt. Það var rætt á hv. Alþ. í fyrra, og með frv. sjálfu fylgir mjög ýtarleg grg., svo að það má segja, að af hendi okkar flm. sé málið eins vel skýrt og hægt er að gera kröfu til. En það voru þó aðeins nokkur atriði, sem ég vildi leyfa mér að drepa á, en ætla mér ekki þó að halda langa ræðu um málið að þessu sinni.

Það er deilt um stjórnarhætti Brunabótafélags Íslands. Hv. 1. þm. Árn. vildi gera mikið úr því, hvað það hlyti að vera ákaflega kostnaðarsamt og viðamikið, að sýslufélögin og bæjarfélögin fengju að senda fulltrúa til þess að stjórna málefnum félagsins. Ég er hissa á þessari afstöðu hv. þm., vegna þess að Brunabótafélag Íslands er þannig byggt upp, að það eru raunverulega tryggjendurnir sjálfir, sem eiga félagið, og tryggjendurnir sjálfir hafa mestra hagsmuna að gæta, að félaginu sé vel og viturlega stjórnað. Það er því ekki nema eðlilegt, að þessir aðilar sendi einmitt fulltrúa, sem kjósi framkvæmdarstjórn fyrir félagið, en ekki að hv. Alþ.

kjósi Brunabótafélaginu stjórn. Um kostnaðarhliðina er það að segja, að ég hef ekki mikla trú á því, að hún geti skipt miklu, og í því sambandi má t.d. benda á það, að ýmis önnur félagssamtök hér á landi hafa ekki talið eftir sér að senda menn hingað til Reykjavíkur á fundi kostnaðarins vegna, og má t.d. í því sambandi benda á Samband íslenzkra samvinnufélaga og ýmis samtök útgerðarmanna og jafnvel bænda.

Hv. þm. ræddi um það áðan, að það hefði verið miklu skýrara, að meiri hl. n. hefði hlutazt til um það, að flutt yrðu tvö frv. um brunamál hér á Alþingi, og hann gaf það raunar í skyn, að lögin um Brunabótafélag Íslands næðu út fyrir þau tilvik, þar sem tryggt er hjá Brunabótafélaginu. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu. Það kemur greinilega fram í frv. sjálfu, að það er ætlazt til þess, að lögin frá því í fyrra um brunatryggingar utan Reykjavíkur gildi áfram, þannig að það verða sérlög eins og verið hafa um Brunabótafélag Íslands og svo aftur önnur lög, sem Alþ. hefur þegar samþ., um brunatryggingar utan Reykjavíkur.

Ég er raunar hissa á ýmsu því, sem kemur fram í umsögn hv. félmrn. um frv. Umsögn rn. byrjar á því að segja, að frv. geri ráð fyrir því að lögfesta áfram einkarétt þann, er Brunabótafélag Íslands hefur undanfarandi ár haft á brunatryggingum húsa utan Reykjavíkur. Þessi umsögn verður ekki skilin á annan veg en þann, að hv. rn. líti svo á, að Brunabótafélagið hafi einkaréttinn. En þó kemur það fram skömmu seinna í umsögninni, að sveitarfélögin geti sagt sig úr Brunabótafélagi Íslands, eins og 20. gr. frv. ber með sér, þannig að þessi umsögn rn. verður lítt skiljanleg.

Hv. þm. gerði mikið úr því áðan, að það væri óhæfilega langur uppsagnarfrestur fyrir sveitarfélög, sem vildu fara úr Brunabótafélaginu. Ég verð að segja, að það sé tæplega ástæða til þess að fetta fingur út í þetta. Sveitarfélögin úti á landi hafa í fjöldamörg ár verið lögskylduð til þess að tryggja hjá Brunabótafélagi Íslands, og Brunabótafélag Íslands hefur verið byggt upp með þetta fyrir augum. Það er því ósköp eðlilegt, að þegar gerð er alger breyting á þessum málum, eins og má segja að frv. fjalli um, sé Brunabótafélaginu gefið ráðrúm til þess að gera ráðstafanir í sambandi við þau skipti. Ég sé ekki, að það sé um neitt óeðlilega langan uppsagnarfrest að ræða í þessu sambandi.

Þá hefur verið víkið að því, að það væri óeðlilegt, að sveitarfélögin og bæjarfélögin sæju sjálf um tryggingar á húseignum í umdæmum sínum, - að það væri óeðlilegt, að þarna væri um nokkurs konar „kollektívar“ tryggingar að ræða. Við, sem stóðum að áliti meiri hl. n., lítum svo á og lítum svo á, að það verði hagstæðara, a.m.k. þegar til lengdar lætur, að sveitarfélögin tryggi í heilu lagi allar húseignir, og að húseigendur komi með því móti til með að fá hagstæðari samninga en ef hver og einn húseigandi um sig væri með sína samninga gagnvart tryggingarfélögunum. Það má á það benda, að sveitarfélögin geta t.d. fengið fyrir viðskipti við tryggingarfélög ýmiss konar fyrirgreiðslu, eins og Brunabótafélag Íslands hefur veitt mörgum sveitarfélögum, og það má alls ekki gera lítið úr þeirri aðstoð.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég tel, að það sé tiltölulega vel upplýst og að þau rök, sem meiri hl. n. færir fyrir þessu máli, komi fram í grg. fyrir frv. og skýringum við hverja einstaka grein frv.