21.02.1955
Neðri deild: 50. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ak. hefur nokkuð rætt um þau atriði, sem ég ætlaði að minnast á í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Árn., svo að ég get verið mjög stuttorður.

Hv. 1. þm. Árn. fannst uppsagnaratriðið vera mjög óaðgengilegt elns og það er í lögunum. Ég get skilið, að honum þyki uppsagnaratriðið óaðgengilegt, og okkur mundi finnast það líka, ef við vildum hafa sama hátt á tryggingunum og hv. þm. vill hafa. En ef gengið er út frá frv. eins og það liggur fyrir, þá virðast það ekki nein ógnarkjör, ef ekki næst samkomulag innan tveggja mánaða um tryggingarnar milli viðkomandi bæjar- eða sýslufélags og Brunabótafélagsins, að þá fellur tryggingarsamningurinn úr gildi eftir 6 mánuði. Eftir 8 mánuði frá því að óskað er eftir endurskoðun, eru viðkomandi bæjar- og sveitarfélög frjáls að gera nýja samninga, hvar sem þau vilja. Hins vegar finnst mér eigi skynsamleg rök, að bæjar- og sýslufélög, sem þarna eru aðilar og eigendur að, geti svo að segja fyrirvaralaust dregið sig út úr félaginu. Mér finnst, að það væri mjög óeðlilegt, hvernig sem á málið er litið.

Hv. þm. gagnrýndi einnig, að þarna fengju einstaklingarnir engu að ráða; hér væru bæjarog sýslufélög aðill að samningum og aðili að félaginn. Þetta er alveg rétt. Einstaklingarnir eru ekki aðilar að félaginu í þessu sambandi, en þó er þetta einmitt gert til þess að skapa einstaklingunum sterkari samningsaðstöðu en þeir hefðu ella. Það er sterkari samningsaðstaða fyrir einstaklingana í einu sýslu- og bæjarfélagi, ef þeir standa allir saman um samningana við þann aðila, sem þeir ætla að semja við, heldur en ef hver einstaklingur semur fyrir sig. (Gripið fram í.) Hreppsfélög, já, en í frv. eru aðilar sýslufélög og bæjarfélög. Þetta eru sannindi, sem við mætum daglega, og þetta er viðurkennd aðferð í viðskiptalífinu, sem notuð er í skiptum milli einstaklinga, bæjarfélaga og annarra félagsheilda. Það er hægt að ná betri samningum um verð með því að standa saman og hafa tryggingarfjárhæðina stærri en ella. Við vitum, að það er hægt að komast að betri samningum, ef um miklar fjárhæðir eða háar tryggingar er að ræða, heldur en ef hver einstaklingur er með nokkra tugi þúsunda, sem hann ætlar að semja um. Um þetta ætti að vera óþarfi að deila; þetta ætti hverjum manni að vera ljóst.

Svo var þriðja atriðið, sem ég vildi minnast á, en hv. þm. gagnrýndi einnig. Það var kostnaðurinn við fulltrúaráð félagsins. Ég hef ekki orðið var við það hér í þingsölum, að fyrr hafi komið fram gagnrýni á kostnaði við opinber samtök sem þessi. Mönnum hefur fundizt sjálfsagt og talið vel varið peningum, að aðilar úti á landsbyggðinni, sem hefðu mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta, svo sem í þessu máli, gætu komið saman og ráðið ráðum sínum. Þetta er opinber félagsskapur, þetta eru samtök allra bæjar-, hrepps- og sýslufélaga á landinu. Er nokkuð óeðlilegt, að þeir menn, sem að þessum samtökum standa, ráði ráðum sínum og tali saman um málefni þetta á ákveðnum fresti? Hér er ekki um að ræða að tala saman nema á fjögurra ára fresti. Ég skal gefa þær upplýsingar í þessu sambandi, að stéttarfélag bænda heldur fund árlega. Á þennan fund koma 47 fulltrúar, og er talið að ferðakostnaður hvers fulltrúa á fundinn sé rúmlega 1000 kr. Þessir menn koma hér árlega. Fjöldi þeirra, sem koma mundu hingað á fund fulltrúaráðsins, er talinn vera 33 menn fjórða hvert ár. Með öðrum orðum: Ef kostnaðurinn er svipaður og hjá stéttarfélagi bænda, þá svaraði þetta til, að kostnaður yrði 250–300 kr. á fulltrúa á ári, eða að einn fundur fjórða hvert ár mundi kosta rúmar 1000 kr. á mann. Eins og ég gat um, á að halda einn fund fjórða hvert ár, en fundur stéttarfélags bænda er á hverju ári. Mér þykir því þau rök, sem hv. þm. hefur borið fram í þessu efni, mjög léttvæg, og þetta ætti sízt að vera til þess að spilla fyrir því, að menn gætu samþykkt frv. eins og það liggur fyrir.