24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér hefur verið talað um brtt., sem hv. 1. þm. Árn. hefur borið fram við 20. gr. frv.

Það lítur út fyrir, að höfundur þessa frv. hafi lagt alveg sérstaka alúð við 20. gr. þess. Þar segir, að stjórn bæjar- eða sveitarfélags sé heimilt að leita til stjórnar Brunabótafélagsins og óska endurskoðunar á tryggingarkjörunum. Mikið er nú frelsið. En fari svo, að ekki hafi náðst samkomulag um endurskoðunina eftir tveggja mánaða samkomulagstilraunir, sé bæjar- eða sveitarfélaginu heimilt að segja sig úr Brunabótafélaginu með 6 mánaða fyrirvara.

Líklega hafa þeir, er sömdu frv., tekið fyrirmyndina að þessum merkilegu ákvæðum úr einum frægum samningi, sem er varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Atlantshafssáttmálans. Þar eru, ef ég man rétt, hliðstæð ákvæði um endurskoðun, sem er óhjákvæmilegur undanfari samningsuppsagnar. Ég lít svo á, að hér hefði átt að nægja að setja venjuleg ákvæði um, að samningi um tryggingarnar mætti segja upp með hæfilegum fyrirvara. Ég flyt þó ekki brtt. um þetta atriði. Úr því að hv. flm. frv. telja það verulegu máli skipta að setja ákvæði úr herverndarsáttmálanum inn í lög um Brunabótafélag Íslands, þá get ég vel gert það fyrir þá að láta það afskiptalaust. Annars hafa sumir hv. flm. frv. ekki haft sérstakt dálæti á varnarsamningnum að því er mönnum hefur skilizt. En þetta er kannske að breytast eins og ýmislegt fleira.

Við 2. umr. um þetta frv. bar ég fram fyrirspurn til 1. flm., hv. þm. Ak., og frsm. allshn., hv. 3. þm. Reykv. Ég spurði um það, hvers vegna húsatryggingar mættu ekki vera frjálsar, eins og t.d. bifreiðatryggingar. Ég fékk þá ekkert svar við fyrirspurn minni, en í umr. um annað frv. nefndu þeir fyrirspurn mína, án þess þó að gefa nokkurt svar við henni. Og hv. 5. landsk. þm. reyndi þá að koma til liðs við þá sjálfstæðismennina. Mér kemur það ekkert á óvart, þó að hv. 5. landsk. þm. sé sæmilega ánægður með þetta frv. Hann þarf ekki að hrekjast langt frá stefnu síns flokks til þess að telja það harla gott.

Af ummælum hv. þm. Ak. virtist mega ráða, að hann telji það næga ástæðu til að neita húseigendum um frelsi í þessum efnum, að þeir hafi ekki haft það áður. „Þetta hefur verið svona áður,“ sagði hv. þm. Að öðru leyti var ræða hans klögumál til Alþ. yfir því, að blaðið Dagur á Akureyri hefði ekki látið í ljós nógu mikla hrifningu yfir framgöngu hans í málinu.

Þá er það hv. 3. þm. Reykv., frsm. allshn. Hann segir, að brunatryggingarnar verði frjálsar, ef það frv. um Brunabótafélag Íslands, sem hér er til umr., verður samþ.

Mundi hv. 3. þm. Reykv. segja, að verzlunin í Reykjavík væri frjáls, ef meiri hluti bæjarstjórnar þar samþykkti — og hefði til þess lagaheimild — að taka alla verzlun í bænum í sínar hendur og gerði síðan heildarsamning um vörukaup fyrir alla íbúa kaupstaðarins? Hv. þm. segir, að einstaklingarnir standi svo miklu verr að vígi að ná hagstæðum samningum en bæjar- eða sveitarstjórnir, sem semji í einu lagi fyrir alla íbúa bæjarins eða hreppsins. Ég geri ráð fyrir, að flestir aðrir sjái, að það væri fullkomnasta öfugmæli að nefna slíkt fyrirkomulag frjálsa verzlun. Sama máli gegnir auðvitað um húsatryggingarnar. Frelsi húseigenda er vitanlega algerlega fyrir borð borið, ef þeir fá ekki sjálfir að ráða því, hvar þeir tryggja hús sin, en verða þess í stað, hvort sem þeim líkar betur eða verr, að hlíta því, sem meiri hluti bæjar- eða sveitarstjórnar ákveður í þessum efnum.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv. og lagði á það mikla áherzlu, að enginn húseigandi í Reykjavík léti sér detta í hug, að hann gæti fengið tryggingu á húsi sínu með betri kjörum en þeim, sem nú gilda þar. Þetta er auðvitað mesta fjarstæða hjá hv. 3. þm. Reykv., það vita allir, sem nokkuð hafa kynnt sér þessi mál. En ef hann trúir þessu sjálfur, hvers vegna vill hann þá ekki leyfa mönnum frjálsræði í þessum efnum? Ef það væri rétt, sem hann heldur fram, að enginn láti sér koma í hug, að hægt sé að fá betri kjör en menn búa nú við, þá mundi enginn breyta til um tryggingu, þó að hann hefði frelsi til þess.

Hv. 3. þm. Reykv. segir, að það sé engin frelsisskerðing að standa saman. Hann kallar það að standa saman, þegar meiri hlutinn beitir valdi sínu til þess að kúga minni hlutann. Þeir standa víst vel saman í einræðislöndunum, þar sem allir verða að sitja og standa eins og yfirvöldin segja fyrir um.

Ég fékk því engin svör við fyrirspurn minni hjá hv. 3. þm, Reykv. og ekki heldur hjá hv. þm. Ak. Og ég geri mér litlar vonir um svör frá þeim síðar. Ég get raunar skilið, að það sé erfitt fyrir þá að svara því greinilega og vafningslaust, hvers vegna húsatryggingarnar mega ekki vera frjálsar eins og bifreiðatryggingarnar.

Tveir af flm. frv., þeir sem þar eru í fararbroddi, hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. Skagf., og 2 af nm. allshn., sem mæla með frv., hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Siglf., hafa talið sig til Sjálfstfl. Sá flokkur hefur áður talið sér það til gildis, jafnvel öðru fremur, að hann vildi standa vörð um einstaklingsfrelsið í þjóðfélaginu og hann vildi leyfa frjálsri samkeppni að njóta sín á viðskiptasviðinu. En margt breytist. Nú verður ekki annað séð en að þeir sjálfstæðismenn séu búnir að leggja frelsisfánann sinn varanlega til hliðar. Hann hefur líka fengið á sig slíka bletti í meðförunum hjá þeim, að hæpið er að veifa honum lengur.