24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfði mér með örfáum orðum áðan að gera lítils háttar samanburð á afurðasölulögunum, sem sett voru fyrir 20 árum og við hv. 1. þm. Árn. munum sjálfsagt vel eftir, þegar sett voru, og svo þessum lögum, sem hér eru til umræðu nú.

Báðum þessum lögum er það sameiginlegt, að tekinn er rétturinn af hverjum einstaklingi til þess að ráða fullkomlega sínum málum sjálfur og hag heildarinnar talið betur borgið með því, að þessi réttur eða þetta frelsi sé af einstaklingnum tekið, en stærri heild látin ráða úrslitum.

Hv. 1. þm. Árn. sagði í sinni síðari ræðu, að þetta hefði ekki verið gert fyrr en að þaulathuguðu máli, vel undirbúnu af bændastéttinni allri, og þess vegna hefði þetta verið hennar mál og hennar áhugamál, að þetta yrði gert eins og gert var. Ég minnist þó þess, að þar voru ekki allir sammála. Það voru einstaklingar til þá, sem vildu fá leyfi til þess að selja sína vöru frjálst eins og þeim sjálfum líkaði, en vera ekki bundnir af þeim samtökum, sem þá voru sett. En meiri hlutinn var látinn ráða, og minni hlutinn varð að láta í minni pokann, og ég er sannfærður um, að það var rétt til þess að ná betri árangri fyrir heildina.

Í þessu sambandi er ekki nein spurning um það, eins og hv. þm. V-Húnv. var að segja hér áðan, hvort bæjarfélög eða meiri hluti hreppsfélaga ætti að fara að taka völdin af framleiðendum. Það er alls ekki um það að ræða. Í öðru tilfellinu eru það samtök framleiðenda, sem eiga að ráða sem heild um sölu afurða. Í hinu tilfellinu eru það bæjarfélög og hreppsfélög, sem eiga að ráða um það, hvernig samið verður um brunatryggingar á svæðinu, og í báðum tilfellum tel ég að það geti orðið hverjum einstaklingi og heildinni allri til nytja. Þetta kostar að vísu frelsisskerðingu í svipinn, en nákvæmlega sömu frelsisskerðinguna í báðum tilfellum. En þess vegna benti ég á þetta, að það eru sömu mennirnir, sem nú vita frelsisskerðinguna í öðru tilfellinu, en minnast ekkert á hana í hinu, vegna þess að það voru þeir sjálfir, sem stóðu að lagasetningunni. Það er aðeins þetta misræmi, sem ég benti á, þó að tilgangurinn sé greinilega sá sami í báðum tilfellum og árangurinn eigi og hljóti að verða sá sami.

Ég ætla mér alls ekki að fara að ræða þetta mál frekar og sé ekki ástæðu til þess að gera það. En mér finnst málflutningur eins og hefur verið hafður hér uppi af hv. framsóknarmönnum í þessari hv. d. á einhvern þann hátt óeðlilegur, að ég kann ekki við hann, og mér finnst eins og hann sé nokkuð utangarna gerður, af hvaða ástæðu sem það nú er. Þeir segja að vísu, að það sé ekki vegna Samvinnutrygginga, heldur eingöngu vegna frelsisins, en ég bendi bara á, að frelsisskerðing hefur átt sér stað svipuð og á sama hátt í öðru máli og síður en svo veigaminna, en réttlætt nákvæmlega á sama hátt og formælendur þessa máls réttlæta frelsisskerðinguna, að það sé bezt fyrir alla aðila.