10.03.1955
Efri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Ingólfur Flygenring:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð, af því að ég tel, að málið sé mér nokkuð skylt, því að á síðasta þingi fluttum við hv. þm. Vestm. frv. á þskj. 622 um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Frv. þetta var flutt til þess að losa kaupstaði og sveitarfélög undan þeirri skyldu að þurfa að tryggja hjá Brunabótafélagi Íslands, en eiga ekki kost á því að velja frjálst, hjá hverjum tryggt væri. Frv. þetta var samþykkt, og í 5. gr. þess er ákveðið, að sameinað Alþingi kjósi fimm manna nefnd til þess að endurskoða lög félagsins.

Eins og frv. á þskj. 290 ber með sér, er það fram komið lítið breytt frá því, sem mþn. gekk frá því. Við flm. frv. frá síðasta þingi getum verið ánægðir með starf nefndarinnar, a.m.k. mæli ég svo fyrir mig.

Það nýmæli er, að fulltrúar þeirra sýslufélaga og kaupstaða, sem tryggja hjá félaginu, mynda fulltrúaráð, sem aftur kýs þriggja manna framkvæmdarstjórn. Þessi háttur er að sjálfsögðu til öryggis fyrir þá, sem tryggja, en áður höfðu þeir enga íhlutun um stjórn félagsins, en slíkt var megingalli. Styrkur Brunabótafélags Íslands er mjög í því fólginn, að félagið á nú gilda sjóði, svo að það stendur nú ólikt betur að vígi en byrjendur í þessari grein. Iðgjöld miðast við hag og samkeppni tryggingarfélaganna á hverjum tíma. Þau geta lækkað þau beint eða með bónusgreiðslum, og einnig getur verið nauðsynlegt að hækka í bili, ef illa árar fyrir þessari starfsemi. En fjársterkt félag þolir meira en ungt og óreynt, bæði vegna efnahags og reynslu. Hvað sem öðru líður,

þá er valfrelsið fyrir mestu, en það var höfuðtilgangur okkar flytjenda frv. frá í fyrra.