11.03.1955
Efri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þessi ákvæði séu sett að ófyrirsynju. Þau eru einmitt sett í þeim tilgangi, sem hv. þm. Seyðf. sagði að þau væru ekki sett. Þau eru sett til þess að binda og koma í veg fyrir það, að sveitarfélög hreyfi sig, sveitarfélög segi upp tryggingum við Brunabótafélagið. Jafnglöggur lögfræðingur og hv. þm. Seyðf. getur ekki talað slíkt nema gegn betri vitund, því að hann hlýtur að sjá, að ákvæðin eru sett í þessum tilgangi. Fyrst skal þvælt við Brunabótafélagið í tvo mánuði, áður en sagt er upp, til þess að vita, hvort sé ekki hægt að þvinga sveitarfélagið með einhverju móti til að vera kyrrt, bjóða því þetta, bjóða því hitt, kannske lán, eins og stundum hefur verið boðið, til þess umfram allt að láta ekki koma til næsta skrefs, sem er að segja upp samningunum. Og þetta á að standa í tvo mánuði. Nú hef ég ekkert á móti því, að það séu reyndir samningar, áður en uppsögn hefst, og sex mánaða uppsagnartímabil, en ég kann ekki við að vera að ákveða það, hvað lengi samningar eigi að standa yfir. Í annan stað er það auðsætt mál og sér hver maður í hendi sér, og það er bersýnilegt, að jafnglöggur lögfræðingur og hv. þm. Seyðf. sér það, að þó að sé sagt upp með sex mánaða fyrirvara, þá er allan tímann í þessa sex mánuði hægt að semja aftur upp á önnur kjör við Brunabótafélag Íslands. Það sjá því allir, í hvaða tilgangi þessi ákvæði eru sett, og ég geri ekki ráð fyrir, að við þurfum að deila frekar um það. Og þó að hv. þm. hafi nú tekið að sér þessa málfærslu fyrir þingmann, sem er fjarverandi, þá er óþarfi að gera það svo samvizkusamlega að tala á móti betri vitund um atriði, sem hann sér glöggt að er á þann veg, sem ég hef lýst.