25.11.1954
Efri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

66. mál, dýralæknar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki borið fram neinar brtt. við þetta frv., en vildi þó leyfa mér að minnast á eitt atriði, og það er það, hvort ekki mundi vera réttara, að Ólafsfjörður tilheyrði Skagafirði heldur en Eyjafjarðarumdæmi, ekki vegna þess að ég búist við, að Eyjafjarðarumdæmi yrði svo fjarska erfitt, m.ö.o. ekki af sömu ástæðum beinlínis og ég vildi létta á héraðslækninum á Akureyri, heldur vegna þess, að það eru miklu betri og greiðari samgöngur á milli Skagafjarðar og Ólafsfjarðar en á milli Ólafsfjarðar og Eyjafjarðar, a.m.k. á landi. Það er akvegur frá Ólafsfirði yfir Lágheiði vestur í Fljót og þaðan til Skagafjarðar, en úr Eyjafirði er yfirleitt ekki hægt að komast til Ólafsfjarðar nema á sjó, ellegar þá með því að fara vestur í Skagafjörð og eftir endilöngum Skagafirði. Ég hef ekki borið fram brtt. um þetta, vildi fyrst vita, hvernig hv. n. tæki það, en ég vona, að hún taki þetta atriði til athugunar og hafi þá samráð við mig um það, láti mig fylgjast með því, hvað hún leggur til í þessu efni.