26.11.1954
Efri deild: 22. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

66. mál, dýralæknar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. landbn. fyrir það, að hún hefur tekið þá ábendingu, sem ég gaf hér við 2. umr. málsins, til athugunar, þó að hún kæmist að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að hafa frv. óbreytt að því leyti, sem ég minntist á. Það kom nú ekki fram hjá hv. frsm. n., á hverju n. byggði það álit sitt, að frv. skyldi vera ólbreytt að því er þetta snerti, en af því að ég átti tal við form. hv. n., þá get ég gizkað á, hvaða ástæður það hafi verið. N. mun telja, að það séu hægari samgöngur á milli Ólafsfjarðar og Eyjafjarðar á veturna en á milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar. Það er tvímælalaust, að það eru betri samgöngur á milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar á sumrin. Á því er enginn vafi, og mun hv. n. sjálfsagt fallast á það. En hitt er rétt, að það er vitanlega mjög oft á veturna, að ekki er hægt að aka á bílum frá Sauðárkróki til Ólafsfjarðar sökum snjóa., en það er þá ekki heldur hægt frá Akureyri til Ólafsfjarðar.

Ég geri ráð fyrir, að n. líti svo á, að þá séu miklu betri samgöngur á sjó við Akureyri en Sauðárkrók, en þetta munar alls ekki miklu. Póstbáturinn fer þrisvar sinnum á viku frá Akureyri og til Akureyrar aftur og kemur við í Ólafsfirði, en í tveimur þessum ferðum fer hann alla leið til Sauðárkróks, og það mætti því einnig á veturna hafa hér um bil eins gott samband á milli Ólafsfjarðar og Sauðárkróks og Ólafsfjarðar og Akureyrar. Samt sem áður er það svo, að mér er þetta ekkert sérstakt kappsmál, þó að ég óskaði eftir að þetta væri sérstaklega athugað, og ekki hefur mér borizt nein ósk úr mínu kjördæmi um að fá breytingu á þessu. Þar af leiðandi læt ég við þetta sitja og ber ekki fram neina brtt., en læt það aðeins í ljós, eins og ég hef þegar gert, að ég álit, að þetta sé að minnsta kosti mikið álitamál.