31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

66. mál, dýralæknar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Síðan þetta mál fór héðan úr d. er nú liðinn langur tími, og ég get þess vegna búizt við, þar sem málið er nýkomið til hennar aftur, að menn hafi ekki áttað sig á þeim breyt., sem gerðar voru á því í Nd., og það er eiginlega ein, þó að þær verði tvær í framkvæmdinni, og vildi þess vegna segja frá þeim. Brtt., sem gerð er, er sú, að dýralæknisumdæmi í Húnavatnssýslu er stækkað og látið ná yfir Inn-Strandasýslu allt norður í Bjarnarfjörð, en eins og málið fór héðan, var þessu svæði ætlað að heyra undir Dalasýsluumdæmi. Það voru í n. í Nd. bæði þingmaður fyrir Dalasýslu og Austur-Húnavatnssýsluna, og þeim fannst eftir atvíkum, að það væri heppilegra að skipta svona á milli umdæmanna eins og þeir nú leggja til og eins og frv. er komið til okkar aftur en eins og við gerðum hér í d. og eins og dýralæknarnir gerðu. Það hefur ekki verið haldinn fundur í n. um þessa breytingu, en ég hygg, að ég megi mæla fyrir munn allra nm., að þeir telja, að þessi breyt. sé ekki þess eðlis, að hún megi á neinn hátt standa í vegi fyrir samþykkt frv., og muni fylgja því eins og það nú er til deildarinnar komið.