31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef aldrei mótmælt því, að ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ., þá beri að greiða úr ríkissjóði kostnað, sem kann að verða af undirbúningi málsins, og það segir sig sjálft, að sá kostnaður hlýtur að greiðast úr ríkissjóði, ef ríkisstj. lætur framkvæma einhvern undirbúning; um það er alls enginn ágreiningur á milli mín og hv. þm. Barð. (GíslJ). En ég hafði skilið hans fyrri ræðu svo, að hann teldi, að samkv. þessu frv. væri skylt að greiða kostnað við stofnun hælis, og ég er ákaflega hræddur um, að sá skilningur, sem nú kom fram í hans síðari ræðu, hafi ekki komið skýrt fram í hans fyrri ræðu, enda er svipað eins og t.d. um þingmannabústaðinn. Ég geri ráð fyrir, að ef einhvern kostnað leiðir af þeim undirbúningi, sem hefur farið fram á síðasta ári um það að reisa þingmannabústað, þá hafi sá kostnaður verið greiddur úr ríkíssjóði, og bar að gera það að sjálfsögðu. En það er allt annað en að koma upp þingmannabústað, þó að það sé það fyrsta.