11.02.1955
Neðri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Pétur Ottesen:

Það er nú upplýst hér í þessu máli, að fyrir samgmn., sem flytur þetta frv., hafa ekki legið óskir frá öðrum kaupstöðum en frá Reykjavíkurbæ um breyt. á lögunum. Á síðara stigi þessa máls hafa hins vegar komið fram óskir frá tveimur öðrum kaupstöðum, Hafnarfirði og Akureyri, um að tekin yrði upp í frv. sams konar heimíld þeim til handa. Við þessu er að sjálfsögðu ekkert að segja, og eins og mál þetta hefur verið reifað hér, þá virðist vera sanngjarnt að verða við slíkum óskum. En ég vil aðeins benda á það, að mér finnst ekki rétt eða heppilegt að ganga lengra í þessu efni en óskir standa til, heldur verði heimildin eingöngu miðuð við þá kaupstaði, sem farið hafa fram á þetta. Það er viðurkennt, að framkvæmd á slíku ákvæði eins og þessu mundi geta orðið allerfið. Og þó að sá skilningur verði lagður í það, að þetta taki ekki til þeirra manna, sem nú eru starfandi í bifreiðaakstri, hvort sem um er að ræða fólks- eða vörubifreiðar, þá veit maður, hver þróunin er í þessu efni, og þegar á að fara að grípa inn í það, þá verða einnig ýmis ljón á vegi. Það verða menn að gera sér alveg ljóst. Auk þess er engan veginn útilokað samkv. orðalagi þessa frv., að óskir geti komið fram um það að fara að gera breytingar á því ástandi, sem nú ríkir í þessu efni. Orðalag frv. rúmar það alveg fullkomlega. Sú yfirlýsing, sem hér hefur komið fram, er aðeins fram flutt hér af hálfu frsm. þeirrar n., sem flutt hefur þetta mál. Og með tilliti til þess, að þarna geta orðið erfiðleikar á leið um takmarkanir, þá virðist mér, að fullkomlega sé réttmætt að benda á það að ganga ekki lengra í þessu efni en óskir liggja fyrir um hér á Alþingi. Ég vil því mjög skjóta því til hv. þm. Ak., að hann fari ekki lengra í sínum till. en að bera fram till. um þetta fyrir sitt kjördæmi, en sé ekki að leggja til, að Alþ. blandi sér inn í aðstæður annarra manna í þessu máli, sem engar óskir hafa borið fram í þessu efni. Ég vildi þess vegna mjög mælast til þess við hann, að hann breyti sinni till. og einskorði hana við sitt kjördæmi.