14.02.1955
Neðri deild: 47. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. hefur athugað þær brtt., sem lagðar voru fram við 2. umr. þessa máls s.l. föstudag frá hv. 5. landsk. þ:m. og frá hv. þm. Ak. Fyrri till. fjallar um það að bæta Hafnarfirði inn í heimildargrein frv. og hin síðari um það, að heimildin nái til kaupstaðanna allra.

Nefndin taldi ekki óeðlilegt, að komið yrði til móts við þær óskir, sem komið hafa fram úr öðrum kaupstöðum landsins en Reykjavík um það, að heimildin til þess að takmarka fjölda leigubifreiða næði einnig til þeirra. Hins vegar fannst henni, eins og einnig kom fram í ræðu hjá hv. þm. Borgf., nokkuð langt gengið að veita almenna heimild til slíkra takmarkana í öllum kaupstöðum landsins án tillits til þess, hvort óskir hefðu komið fram um það frá hlutaðeigandi kaupstöðum eða byggðarlögum. Samgmn. varð því sammála um að mæla með því, að samþ. yrði brtt. hv. 5. landsk. þm. um, að Hafnarfirði yrði bætt inn í, og enn fremur um hitt, að beina þeirri fsp. til hv. þm. Ak., sem flutt hefur brtt. á þskj. 350, hvort hann felldi sig ekki við það að breyta henni á þá lund, að í staðinn fyrir „í kaupstöðum“ kæmi: í Akureyrarkaupstað. Það, sem fyrir honum vakir, er fyrst og fremst, skildist mér af hans ræðu hér s.l. föstudag, að fá heimildina, sem farið er fram á í lögunum til þess að takmarka fjölda bifreiða, til þess að ná einnig til þess kjördæmis, sem hann er þm. fyrir. Ég vil því beina þeim tilmælum til hv. flm. brtt., að hann breyti henni á þá lund.

Síðan málið var rætt hér í hv. þd. síðast, hefur verið flutt ein brtt. á þskj. 352 af hv. 2. þm. Reykv. N. hefur ekki gefizt tækifæri til þess að athuga hana og taka afstöðu til hennar, og teldi ég því æskilegast, að sú till. yrði tekin aftur til 3. umr., ef hv. þm. treystir sér til þess að verða við þeim tilmælum. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið. Það liggur skýrt fyrir. Rök þess hafa komið fram, bæði í grg. málsins sjálfs og einnig í þeim umræðum, sem hér hafa farið fram.