18.02.1955
Neðri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér þykir eiginlega ástæða til í sambandi við þetta mál að vekja athygli á því hér í þessari hv. d., að svo undarlega hefur brugðið við í þessu máli, að Sjálfstfl. og hv. þm. hans, sem til máls hafa tekið í þessu máli, hafa barizt mjög skelegglega fyrir þeim takmörkunum, sem hér er farið fram á að gera fyrir einn hóp manna til valfrelsis atvinnu í landinu. Hér hafa líka talað í þessu máli hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. landsk., sem eru þm. verkalýðsflokka, og þeir hafa hvatt menn til varfærni í þessu máli og þeim takmörkunum, sem hér er farið fram á að setja.

Nú finnst mér það dálítilli furðu gegna, að hv. þm. Sjálfstfl., þess flokks, sem hefur hingað til talið sig í ræðu og riti sjálfkjörinn málsvara frelsis, einstaklingsframtaks og annars þess háttar, — að einmitt þingmenn þessa flokks skuli herjast hér jafnskelegglega fyrir takmörkunum á atvinnufrelsi manna og þeir hafa gert. Vildi ég spyrja hv. þm. Sjálfstfl., sem til máls hafa tekið í þessu máli, hvers ungir menn eiga að gjalda í þessu landi, sem á næstu árum teldu sig hafa meiri löngun til og meiri hæfileika til að leggja fyrir sig bifreiðaakstur en að annast önnur störf í þjóðfélaginu. Hvers eiga þeir að gjalda, að um það skuli sett lög nú, að þetta sé þeim ekki heimilt, þegar ekki eru almenn lög um almennar takmarkanir atvinnufrelsis í landinu?

Ég er í sjálfu sér ekki mótfallinn því, að það sé takmarkað með lögum, hve margir menn geti hópazt í eina atvinnugrein í þessu þjóðfélagi eða hverja atvinnugrein um sig. Það mætti segja sem svo, að eftir því sem þjóðin er minni, þá væri meiri ástæða til þess að koma í veg fyrir það með skipulagningu og með lögum, að allt of margir þjóðfélagborgarar hópist í hverja atvinnugrein. En slíkar takmarkanir eru þó fyrst og fremst réttlætanlegar, ef um heildarskipulag á öllum vinnumarkaði landsins er að ræða. Þær væru einnig að nokkru leyti a.m.k. réttlætanlegar, ef um algert neyðarástand í einhverri atvinnugrein væri að ræða — slíkt neyðarástand, að þangað hefðu hrúgazt allt of margir menn, sem hefðu ekki nema lítið brot af þeirri atvinnu, sem þeir þyrftu og gæti verið um að ræða, en enginn fengist samt sem áður til að hverfa úr atvinnugreininni og yfir í aðrar atvinnugreinar, þar sem hag hans væri betur borgið. Þetta neyðarástand held ég að sé ekki um að ræða í sambandi við það mál, sem hér hefur verið flutt og hér er til umræðu. Á meðan hæstv. núverandi ríkisstj. getur lagt óhemju skatta á atvinnutæki bifreiðarstjóra og þau ganga samt sem áður út með þessum sköttum og jafnvei á hærra verði en því, sem myndast, þegar sköttunum og öllum kostnaði er bætt við innkaupsverðið, og meðan það er opinbert leyndarmál, að atvinnuleyfi í þessari stétt ganga kaupum og sölum á jafnvel tugi þúsunda króna, þá sé ég ekki, að það verði færð að því óyggjandi rök, að slíkt neyðarástand sé í stéttinni, að það réttlæti slíkar takmarkanir sem hér er farið fram á.

Það hefur verið bent á það af hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. þm., að hér væri um hættulegt fordæmi að ræða, og ég er þeim algerlega sammála í því efni. Og það sýnir það nokkuð, hve háskaleg braut þetta er og hve fljótir menn eru að taka við sér að hlaupa inn á hana, að flestallir eða allir hv. þm. hér í þessari d., sem eru þingmenn fyrir kaupstaði á landinu, hafa nú þegar flutt brtt. við upphaflega frv. um það, að þeir kaupstaðir, sem þeir eru þm. fyrir, skuli líka njóta þeirra réttinda, ef svo mætti orða það, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er því nokkurn veginn ljóst, að ef hv. Alþ. samþykkir þetta frv. fyrir þessa stétt sérstaklega, þá munu fleiri stéttir á eftir koma. Og það tel ég algerlega ófært ástand að taka þessi mál þeim tökum, sem hér um ræðir, fyrir einn og einn hóp út af fyrir sig, að taka þau þannig til afgreiðslu, því að það eitt gæti orðið réttlátt og réttlætanlegt að taka þá til meðferðar atvinnumálin yfirleitt, taka þau öll til skipulagningar og tryggja þá um leið atvinnu í landinu, ef setja ætti takmarkanir við því, að menn gætu farið inn í ákveðnar atvinnugreinar.

Eitt atriði var það í ræðu hv. þm. N-Ísf., sem mig langaði til að gera athugasemd við. Í sambandi við brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. hefur hér flutt, sagði hv. þm. N-Ísf., að það yrði að ganga út frá því, að skorður yrðu reistar í reglugerð við því, að leyfi, þ.e.a.s. atvinnuleyfi bifreiðarstjóra, yrðu gerð að verzlunarvöru. Í þessu sambandi vil ég benda á þetta: Þetta eru náttúrlega falleg orð, en ég held, að það séu ekki meira en orð. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum vikum stóð hér uppi í ræðustól í þessari hv. deild annar þm. Sjálfstfl., nefnilega hv. 5. þm. Reykv., og lýsti með mörgum orðum því átakanlega ástandi, hvernig gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir bifreiðum hefðu verið gerð að verzlunarvöru. Og hann tilgreindi meira að segja nokkurn veginn nákvæmlega, hve mörg prósent af leyfum, gjaldeyris- og innflutningsleyfum, sem hefðu verið gefin út fyrir bifreiðum, væru komin á svartan markað. Og ég held, að mig misminni það ekki, að hann tilgreindi líka nokkurn veginn nákvæmlega í tölum, hvert svartamarkaðsverðið á þessum leyfum væri. Þó er í lögum bann við því að selja gjaldeyris- og innflutningsleyfi. Það er bannað með lögum, og við því liggur sekt. Og ég held, að það detti engum í hug, þó að með reglugerð yrði bannað að selja þessi atvinnuleyfi á sama hátt og gjaldeyris- og innflutningsleyfi, að þá yrðu slík lög eða slík reglugerð annað en pappírsgagn, á sama hátt og öll þau lög, sem um slíkt hafa verið sett, um meðferð gjaldeyris- og innflutningsleyfa, um meðferð byggingarleyfa, fjárfestingarleyfa, meðan þau voru í tízku. Öll slík lög og allar slíkar reglugerðir reyndust pappírsgagn og ekkert annað. Og eins og ég sagði áðan, meira að segja hv. þingmenn Sjálfstfl. greindu frá því alveg feimnislaust hér inni á þingi þjóðarinnar, hvers konar pappírsgögn þetta væru, hve mörg prósent af útgefnum leyfum hefðu verið sett á svartan markað og hve hátt svartamarkaðsverðið hefði verið. Þeir fóru ekki í neinar grafgötur um það, hvernig ástandið var, og a.m.k. hv. 5. þm. Reykv. virtist ákaflega vel kunnugur því, hvert form væri á þessum hlutum. Hann vissi prósenttölu leyfanna, og hann vissi verðið á þeim, og getur maður kannske skilið, að í þeim herbúðum ríki nokkuð nákvæm þekking á þessum málum.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta atriði. En með tilliti til þess, sem ég hef sagt, mun ég að vísu greiða atkv. með brtt. þeim, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur hér flutt, en þó að þær næðu fram að ganga, mun ég greiða atkv. gegn frv. sjálfu, þannig breyttu.