31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst ekki óeðlilegt, þó að þetta mál veki allmiklar umr. hér í þessari hv. d., svo miklu sem það kann að varða framtíðina, hvernig með þessi mál verður farið, og þá einkum og sér í lagi eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. ráðherra. Hann sagði hér beinlínis, að hann sæi sér ekki fært að greiða atkv. á móti þessu frv. vegna þeirra samþykkta, sem hefðu verið gerðar hér á síðasta þingi um þessi mál. Það bendir til þess, að hugur hans hefði verið allt annar, ef Alþ. hefði ekki verið búið að marka þessa stefnu með lögunum í fyrra. En einmitt þessi aðvörun ráðherra gefur tilefni til þess, að ekki einungis hv. d., heldur og hv. n. hugsi nokkuð um, hvað hún er að gera, áður en hún leggur til, að svona frv. verði samþykkt. Mér finnst, að það hefði verið eðlilegra, og ekki hvað sízt nú, eftir að þessi yfirlýsing kom frá hæstv. ráðh., að það hefði komið brtt. við frv., við 1. gr., að gr. orðist þannig: „Lög nr. 23 16. febr. 1953 skulu falla niður.“

Hér er raunverulega verið að fara inn á braut, sem við vitum ekki hvenær eða hvar við stöðvum okkur á. Og ef það á að verða framvegis þannig, að jafnvel hæstv. ráðherrar koma upp og segja: Við treystum okkur ekki til að vera á móti því að halda lengra áfram inn á brautina, af því að Alþ. hefur áður markað stefnuna — þá er sannarlega rétt að spyrna við fæti og athuga, hvort við eigum ekki að fella þetta frv. einmitt af þeim ástæðum.

Mér finnst, að alveg burt séð frá því, hvort þörf er á að fækka á einn eða annan hátt aðstreymi að þessari stétt á einum eða tveimur eða fleiri stöðum í landinu, þá verði fyrst og fremst að gera sér það ljóst, inn á hvaða braut Alþ. er að fara með slíkri löggjöf eins og hér er verið að setja og eins og hæstv. ráðh. minnti réttilega á að sett var hér í fyrra á Alþingi. Ef það er hugsun Alþ. almennt að fara lengra og lengra inn á þá braut að skipta þjóðinni í stéttir og ákveða, hvað margir menn megi vera í hverri stétt, og miða það þá við aðsóknina að stéttinni, eins og virðist vera gert hér, og fara þá síðan enn lengra inn á þá braut með því að skipa í einhverjar aðrar stéttir mönnum, sem hægt er frá þeim stéttum, sem verið er að loka, þá er það orðið mikið vandamál fyrir Alþ. frá mínu sjónarmiði. Sýnist mér það þá mikill misskilningur hjá 4. hv. þm. Reykv., að þetta litla frv. gæfi ekki tilefni til þess að ræða málið á þessum grundvelli. Ég álít einmitt, að hér sé tími til að ræða málið á þessum grundvelli og á engum öðrum grundvelli, — því að ef á að stöðva aðgang að þessari stétt hér í Reykjavík og á nokkrum öðrum stöðum á landinu bara af því að það er tímafyrirbæri, að stéttin sé þar of fjölmenn nú, þá á að fara einhverjar aðrar leiðir til þess að bæta úr því heldur en þá leið, sem hér er lagt til að sé farin.

Við skulum hugsa okkur, að í framtíðinni komi, eins og hv. 1. þm. N-M. benti á, mjög sterk sókn frá iðnaðarmönnum, sem við raunverulega vitum að er þegar hafin, um að loka enn meira þeirri stétt. Henni var lokað hér á einu tímabili þannig, og við það kom mjög mikill kyrkingur í stéttina, þar sem iðnaðarmennirnir lokuðu gersamlega fyrir nýja iðnnema, og það varð þjóðinni raunverulega til stórtjóns. Svo skulum við hugsa okkur, að einn góðan veðurdag taki bændur sig saman, ekki um allt land, heldur taki þeir sig saman í einhverjum ákveðnum hreppi með tilliti til laga um ítölu og segi: Þar sem nú er orðið þröngt í okkar beitilandi, skulum við skrifa undir skjal og heimta, að það sé borið fram í landbúnaðarnefnd frv. um, að það megi ekki vera fleiri býli í byggðinni en okkur sýnist, svo að við getum stækkað okkar bú og stækkað okkar afrétt. — Svo komi búnaðarfélögin og samþykki slíkt um allt land, að nú væri orðin svo mikil framleiðsla á mjólk og kjöti í landinu, að sýnilegt væri, að stéttin þyldi ekki fleiri búendur, þar sem ekki væri fært að skapa öruggan markað fyrir meira magn. Og það er ekki langt frá því, að við séum komnir á það stig, með vaxandi tækjum og vélakosti. — Þá kæmu þeir til þingsins og segðu: Nú viljum við láta fækka býlunum og fá stærri jarðir, og á sama tíma krefjumst við þess, að við einir sitjum að markaðnum, og þá getum við sett okkar verð eins og okkur sýnist.

Sama má segja um allar aðrar stéttir í landinu, og þá erum við komnir inn í slíkt öngþveiti, að ekki er stætt lengur á því, og þá getur enginn staðið upp, ekki heldur hæstv. ráðh., og sagt: Ja, nú fylgi ég þessu, af því að það hefur verið gert áður. — Þá koma væntanlega nægilega margir vísir menn og segja: Nú stöðvum við þessa vitleysu. — Það er áreiðanlegt, að þessi braut, sem við erum að fara inn á hér, er röng í eðli sínu. Og það er einnig áreiðanlegt, að það er hægt að laga þessi mál á einhvern annan óskaðlegri hátt, ef hv. samgmn. vill virkilega hugsa það mál og brjóta heilann um þau ariði. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram sem almenna umr. um málið, úr því að það er hér til umr.

Þá er annað atriði, sem ég vildi minnast hér á. Í frv., eins og það er lagt fyrir hv. Nd. á þskj. 278, er birt fylgiskjal í grg., þar sem sagt er, að þetta frv. sé flutt samkvæmt ósk stjórnar Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils. Síðan er birt hér sem fylgiskjal bréf, dags. 24. nóv. Auk þess hefur hv. frsm. skýrt frá því hér, að þetta hafi einnig komið fram hjá nefndinni, sem hafði með þetta að gera, að þetta sé ósk stjórnar Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils og að Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill eða stjórn þess hafi verið á fundum með nefndinni, eins og segir á þskj. 526. Nú er það vitað, að þetta er ekki rétt. Mér hefur verið tjáð hér í dag af mönnum, sem sitja í stjórn þessa félags, að þetta mál hafi aldrei verið rætt, hvorki í félaginu Hreyfli né á stjórnarfundi í Hreyfli, þar hafi engar ákvarðanir verið teknar um málið. Og það er sannarlega varhugavert, ef verið er að senda inn til æðstu stofnunar þjóðarinnar slík fölsk skjöl og skilríki og síðan byggt á þeirra rökum og krafizt framgangs mála. Mér er sagt, að Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill hafi verið samsett af þremur deildum, þegar þetta frv. var lagt fram hér í nóvembermánuði, þ.e. sjálfseignarmannadeild, launþegadeild og strætisvagnstjóradeild. Félagið er samsett af öllum þessum aðilum, og allir þessir aðilar eiga stjórn í félaginu. Það er ekki einu sinni leitað álits þessara manna, hvort þeir séu fylgjandi þessu frv. eða ekki. En nú hefur einmitt ein deildin af þessum þremur sent inn mótmæli gegn frv., svo að það er sýnilegt, að það er ekki flutt vegna þess, að stjórn félagsins í heild eða jafnvel ekki einu sinni meiri hluti hennar hafi haft nokkra heimild til þess að óska eftir því, að þetta frv. væri flutt. Og einmitt vegna þessara upplýsinga vildi ég nú óska eftir því, að hv. form. n. færi þess á leit við forseta að fresta umr. um þetta mál nú og afla síðan nánari upplýsinga um þetta frá réttum aðilum. Hvað eru það t.d. margir stjórnarmeðlimir Hreyfils, sem óska eftir, að þetta nái fram að ganga, og hvað er það mikill hluti af þeim mönnum, sem eiga að búa við þessi lög, ef samþ. verða? Og eru það ekki einhverjir aðrir aðilar en þeir, sem eru í stjórn Hreyfils, sem eiga að hafa eitthvað um málið að segja? Hvað segja meðal annars aðrir bifreiðaeigendur um þetta mál, sem ekki eru þar félagar? Og svo er eitt enn, sem ég sé ekki að hafi heldur verið rannsakað: Hvað segir fólkið sjálft, sem á að nota þetta? Hvað segir fólkið í dag, sem verður að bíða í einn klukkutíma, tvo eða þrjá á næturnar eða á kvöldin til þess að ná í bifreiðar og getur ekki fengið þjónustu, jafnvel þó að sé um að ræða mjög nauðsynleg eða aðkallandi atriði? Hvað segir það um það? Ég hef hitt fjöldamarga menn, sem eru æfir út af því, ef á að takmarka aksturinn þannig, að það eigi að verða enn torveldara að geta fengið sig fluttan á milli húsa hér í þessum bæ, eftir að þetta frv. hefur náð fram að ganga. Ég held, að það mál sé ekki rannsakað nógu vel enn, og væri nauðsynlegt að rannsaka það nánar en gert hefur verið. Ég kann e.t.v. að mæla eins og ég hef mælt hér vegna þess, að ég er persónulega andvígur slíkum höftum sem hér er verið að leggja á. Mér var það ljóst, að þegar samin voru hér á Alþ. lögin um fjárhagsráð, þá var það sannarlega gert í góðri meiningu, og það var hugsað til þess að bæta úr því ástandi, sem þá var hjá þjóðinni í efnahagsmálum. En ég er líka alveg viss um það, að þeir verða mjög fáir, sem voru þá sammála því að setja slík lög, sem vildu gera það nú, vegna þeirrar sorglegu reynslu, sem fékkst af þeim höftum. Ég var því andvígur þá, eins og ég er almennt andvígur höftum. Og reynslan hefur sýnt, að aðrar leiðir hefðu verið miklu heppilegri, þó að þær væru ekki farnar á þeim tíma. Það er þess vegna, sem ég vil enn vara við því að vera að fara inn á þessa braut. Mér er það alveg ljóst, að það er enginn veðhlaupahestur, sem nær markinu fyrstur með því að vera í hafti. Það þarf ekki að halda, að það geti skeð. Og engin stétt og engin þjóð kemst fljótast að settu marki með því að vera heft, hvorki á einn né annan hátt.

Hefur hv. n. nokkuð rannsakað það, hver er ástæðan fyrir því, að það er svo mikill ofvöxtur í þessari stétt hér í þessum bæ? Væri það ekki einmitt rannsóknarefni, jafnvel fyrir hæstv. ríkisstj., að láta rannsaka það, að það skuli vera svo mikið aðstreymi að þessari stétt hér í Reykjavík, að það þurfi sérstök lög til þess að fyrirbyggja, að menn geti komizt þar að, - lög, sem hljóta að framkalla alls konar öngþveiti og alls konar hrossakaup, eins og hv. 4. þm. Reykv. benti á? Væri það ekki rannsóknarefni fyrir hv. n. og hæstv. ríkisstj. að rannsaka ástandið í þessu máli og sjá, hvort ekki sé hægt að laga það með öðrum aðgerðum? Er aðsóknin að stéttinni af því, að þessir menn hafa svo mikil laun, að þeir treysti sér betur til, jafnvel þó að þeir verði að taka upp baráttuna um að fá ekki nema hluta af þessu starfi, að hafa miklu betri lífskjör en að vera í annarri atvinnu, eins og tímarnir eru nú, eða er það vegna þess, að þeir sjái sér leik á borði með að geta haft einhverjar aukatekjur með, sem e.t.v. væru ekki í samræmi við lög og rétt og ekki þarf að borga skatt af? Er það ástæðan? Og á þá Alþ. að hlúa að því? Ég held, að það sé veruleg ástæða til þess að óska eftir því, að það verði rannsakað, hvaða ástæður liggi til þess, að menn sæki svo fast að komast að þessari stétt.

Við, sem erum komnir á efri árin, minnumst þess, þegar vistabandið var hér í gamla daga á Íslandi. Hver treystir sér t.d. til þess að hafa það núna? Hver treystir sér til þess að segja, að menn skuli vera í vist, eins og var fyrir hálfri eða meira en hálfri öld, skuldbundnir til þess að vera það? Vistabandið var leyst vegna þess, að það var fjötur um fót margra manna, sem vildu nota sitt afl til þess að hafa betri lífskjör en þeir gátu haft með því að vera þvingaðir til þess að vera undirokaðir hjá öðru fólki. Þetta er einn hluti af nýju vistabandi, sem verið er að setja á hér, að vísu sams konar þáttur og snúinn var hér á seinasta Alþ.„ þegar samþykkt voru lögin um leigubifreiðarnar, sem ég frá mínu sjónarmiði álít að ekki hefði átt að gera og álít að eigi að afnema.

Þá vil ég að síðustu benda hv. n. á, að ef það er ætlunin að láta þetta mál ná fram að ganga, sem ég sé nú ekki annað en sé ætlað, eftir því sem sést af nál. og þeim ræðum, sem hér hafa farið fram, og eigi að gera það að lögum, hvort ekki sé þá hægt að setja inn í þessi lög, að öryrkjar skuli ganga fyrir, að svo miklu leyti sem þeir hafa ökuréttindi. Það er vist, að hér í þessum bæ eru margir öryrkjar, sem mætti losa frá því að taka örorkustyrk og eru fullfærir um að gegna slíku starfi. Ef á að fara að skammta þessi störf, þá finnst mér þó, að þeir ættu að ganga fyrir öllum öðrum. Og ég vil mjög óska eftir því, að hv. n. taki það upp til athugunar í samráði við forstjóra Tryggingastofnunarinnar, hv. 4. þm. Reykv., hvort ekki sé hægt að tryggja það, að einmitt þeir menn hafi fyrsta rétt til þessara starfa, úr því að á að fara að úthluta þessu eins og brauði á borð almennings, því að það eru þó mennirnir, sem við ættum ekki hvað sízt að muna eftir. Og það var kannske mest þess vegna, sem ég nú tók til máls um þetta mál.

Ég vil svo að síðustu beina þeim orðum mínum til hv. form. nefndarinnar, hvort hann vildi ekki óska eftir því, að málið yrði tekið út af dagskrá og umr. frestað og hann og n. athuguðu öll þessi atriði, sem hér hefur verið bent á í sambandi við þetta mál.