31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem mig langar til að benda á og fram hefur komið í umr. og annaðhvort er misskilið hjá þeim, sem það sagði, hv. 4. þm. Reykv. (HG), eða hjá mér. Hann skilur þannig orðið „leigubifreiðarstjórar“ í þessum lögum, að það séu einungis þeir, sem keyri bíl, sem þeir eigi sjálfir og taki greiðslu fyrir að keyra menn í. Þá vil ég segja: Er þá meiningin, að það eigi að takmarka, hvað margir menn megi eiga bil sjálfir í Reykjavík og aka honum, en ekkert takmarkað, hvað Steindór megi eiga marga og láta keyra þá? Um leið og það er búið að ákveða, að það megi vera 100 á Hreyfli, þá má Steindór láta keyra 200 bíla frá sér, ef skilningur hv. þm. er réttur. Er það til þess að koma rekstri bílanna í Reykjavík, sem nú eru leigubílar í eigu bilstjóranna, yfir á það, að þeir eigi ekki sjálfir sínar bifreiðar, eða er verið að hlúa að þeim mönnum, sem eiga margar bifreiðar og láta aðra keyra þær? Eftir skilningi hv. 4. þm. Reykv. mætti segja, að frv. ýtti undir það, að leigubílarnir færðust á hendur fárra eigenda og sjálfstæðum leigubílstjórum færi fækkandi.