18.04.1955
Efri deild: 70. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. Ed. hefur nú samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 575. Er þar gert ráð fyrir, að samgmrn. sé heimilt, að fengnum till. frá hlutaðeigandi stéttarfélögum og meðmælum bæjarstjórnanna, að takmarka fjölda leigubifreiða á nokkrum stöðum í landinu. Eftir að búið er að samþ. þetta mál þannig við tvær umr. í þessari hv. d., þótti mér rétt að bera fram nýja brtt., sem er á þskj. 582 og hljóðar þannig:

„Skylt skal leyfishafa að hafa jafnan til taks nægilegan bifreiðakost til þess að fullnægja eftirspurn á hverjum tíma á svæði því, er hann hefur fengið leyfi til að starfa á, enda sé hverjum manni heimilt að leigja sér bifreið frá öðrum, ef leyfishafi uppfyllir ekki þetta skilyrði.“

Mér finnst, að það sé alveg óhjákvæmilegt, þegar búið er að gefa einkaleyfi ákveðnum aðilum til þess að reka slíka atvinnu, að þá hafi þeir einnig skyldur við þegna þjóðfélagsins, og það sé það minnsta, sem hægt sé að krefjast, að þeir hafi alltaf til staðar nægilegan bifreiðakost til þess að sinna þeirri eftirspurn, sem verður á hverjum tíma. Ég vil því vænta þess, að hv. alþm. fallist á þessa brtt. og samþykki hana.

Sökum þess að við síðustu umr. var því haldið fram af hv. frsm. n., að þessi lög væru alveg sambærileg við lögin um sérleyfin fyrir bifreiðar á langferðum, vil ég nú leyfa mér að taka fram, eins og reyndar hv. 1. þm. N-M. einnig benti á, að hér er raunverulega um allt annað að ræða. Það er leyfilegt hverjum manni að leigja sér bifreið til þess að ferðast yfir þessi sömu svæði og það bifreið, sem tekur allt að 6 farþegum. Hér er mönnum ekki leyfilegt samkvæmt þessum l. að leigja sér neina bifreið til þess að flytja sig á milli húsa á þessum ákveðnu stöðum. Þess vegna er einmitt nauðsynlegt að samþ. þá till., sem ég ber hér fram, og vil ég vænta þess, að hún verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar, en mun ekki sjá mér fært að greiða atkv. með frv. út úr d., nema því aðeins að þessari viðbót verði bætt við.