18.04.1955
Efri deild: 70. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafason):

Herra forseti. Viðvíkjandi þeirri brtt. frá hv. þm. Barð. á þskj. 582, sem hann mælti nú fyrir, vil ég segja nokkur orð.

Ég hygg, að það muni geta orðið nokkuð erfitt í framkvæmd, ef þessu ákvæði ætti að fylgja fram og þessi brtt. yrði samþykkt. Það gæti komið til þess, að vissa tíma sólarhringsins gæti stór hópur bifreiða ekki sinnt þeirri eftirspurn, sem fram kæmi. Þetta gæti staðið í hálfan klukkutíma eða einn klukkutíma. En yrði þessi brtt. samþykkt, þá virðist mér það vera alveg skilyrðislaus skylda bifreiðastöðvanna að hafa bifreiðarnar alltaf það margar til taks á stöðvunum, að aldrei þurfi að neita, ef um bifreið sé beðið, en ef það sé ekki gert, þá séu viðkomandi bifreiðastöðvar að brjóta lögin. Ég legg þann skilning í þetta ákvæði. Nú er það vitað, að það gæti dugað viss fjöldi bifreiða á öllum venjulegum tímum sólarhringsins, en svo getur komið sá tími, að það sé ekki hægt að anna þessu með þeim bifreiðafjölda, sem hæglega mundi geta dugað á venjulegum tíma. Ég vil benda á í þessu sambandi, að t.d. hér í Reykjavík, um það leyti þegar samkomuhús eru að loka, um miðnættið, getur eftirspurnin eftir bifreiðum verið það mikil allt í einu, að henni verði ekki annað með venjulegum bifreiðafjölda. En ef þessi brtt. væri samþ. eins og hún er, þá væri það strax orðið lögbrot hjá viðkomandi bifreiðastöð, ef hún gæti ekki annað slíku. Ég held þess vegna, að samþykkt þessarar brtt. geti orðið mjög erfið í framkvæmdinni. Aftur væri hugsanlegt að taka ákvæði þau, sem í henni felast, upp í reglugerð, sem samin yrði eftir þessum lögum. Þá er og sjálfsagt að tryggja það með reglugerðarákvæðum, að bifreiðastöðvar þær, sem fá umrædda takmörkunarheimild, standi í stöðu sinni og hafi svo margar bifreiðar alltaf til taks sem með nokkurri sanngirni er hægt að heimta af þeim. En að setja þetta beint í lögin álít ég að sé ekki heppilegt vegna þess, hve erfitt verður að framkvæma það að því leyti, sem ég nú hef bent á.