18.04.1955
Efri deild: 70. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil benda hv. frsm. á, að hann hefur engan veginn skilið rétt þá brtt., sem liggur hér fyrir. Og ég hefði talið miklu heppilegra, að hann hefði óskað eftir því, að umr. yrði frestað og hann ræddi þetta mál við n., heldur en að gefa út slíkt álit hér án þess að hafa rætt um það við hana, en mér skilst, að það hafi ekki verið gert í samráði við samgmn. Hins vegar er ekkert að hafa á móti því, að hv. þm. láti í ljós sína skoðun á málinu, nema síður sé. En mér hefði ekki fundizt óeðillegt, að málinu yrði frestað og það yrði athugað af n.

Vegna þeirra ummæla, sem hv. frsm. hafði hér um till., vil ég leiðrétta þann misskilning, sem þar kemur fram. Það er skylt, eins og frsm. tók fram, að leyfishafi hafi jafnan nægilegan bifreiðakost, en það er ekkert sagt um, að það skuli varða missi sérleyfis, ef þetta skyldi bregðast. En það er annað, sem tryggt er með till. minni, ef hún verður samþ., en það fór fram hjá hv. frsm., en það er, að ef þetta skilyrði er ekki uppfyllt, hafa þegnarnir réttinn til þess að leigja sér aðrar bifreiðar, og það er höfuðatriði till. Ég trúi því ekki, að hv. samgmn. og ekki heldur hv. dm. gangi svo á rétt þegnanna í landinu, að þeir vilji ekki fá inn í löggjöfina skýr ákvæði um það, að ef leyfishafi uppfylli ekki þetta sjálfsagða skilyrði, þá megi þegnarnir leita annað um þjónustu. Við skulum hugsa okkur, að það komi fyrir, eins og hv. þm. minntist á, að það væri svo mikið að gera, annaðhvort um hátíðar eða við samkomur, að það væri allur sá bifreiðakostur í notkun, sem undir venjulegum kringumstæðum væri nægilegur til þess að hafa á stöðvunum. Er það þá hugsun hv. frsm., að þegnarnir eigi að bíða kannske í einn, tvo þrjá eða fjóra klukkutíma eða kannske til næsta dags, þangað til þeir geti fengið sér bifreið? En þeir hafa óneitanlega gerzt brotlegir við lögin, ef þeir nota aðra en þá, sem hafa sérleyfi, þótt þeir geti ekki fengið sérleyfishafana til þess að flytja sig.

Höfuðatriði mínnar till. er einmitt að tryggja rétt þegnanna til að velja sér aðra þjónustu, ef viðkomandi leyfishafi uppfyllir ekki sínar skyldur. Við skulum hugsa okkar, að hér væri um sjúkling að ræða, sem þyrfti á bifreið að halda. Ætti hann þá að bíða, þar til leyfishafa þóknaðist að hafa bifreið til þess að flytja hann, hve langan tíma sem það kynni að taka og hvaða afleiðingar sem það kynni að hafa? Annars má vera að gert sé ráð fyrir því, að sjúkraflutningur á sérleyfissvæði sé undanþeginn og þyrfti þá að taka það fram í lögunum eða reglugerð.

Annars benti einn hv. þm. mér á áðan, að þetta væri frekar reglugerðarákvæði. Ég viðurkenni, að slíku má koma fyrir í reglugerð, þó að ég telji tryggara að taka það fram í l. sjálfum. Ég mundi þó taka þessa till. aftur, ef hæstv. samgmrh. vildi lýsa því yfir, að hann setti þetta ákvæði í reglugerð. En ég get ekki fellt mig við undir neinum kringumstæðum, að aðila séu gefin slík réttindi, án þess að hann jafnframt hafi skyldur gagnvart þegnunum. Það er höfuðtilgangurinn með minni brtt., og þess vegna vildi ég nú ítreka það aftur við hv. frsm., hvort hann vildi ekki óska eftir því, að þessari umr. verði frestað, og athuga málið nánar í n. og einnig við hæstv. samgmrh., sem þá e.t.v. vildi lýsa því yfir, að tekið yrði upp slíkt ákvæði í reglugerð. Þá mundi ég geta fallizt á að taka till. aftur, því að með því væri sá réttur þegnanna tryggður, sem ég vil tryggja með tillögunni.