18.04.1955
Efri deild: 70. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Í þessari till. hv. þm. Barð. (GíslJ) á þskj. 582 stendur, að skylt sé leyfishafa að hafa jafnan til taks nægilegan bifreiðakost til þess að fullnægja eftirspurn á hverjum tíma á svæði því sem hann hefur fengið leyfi til að starfa á. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur athugað það, hver er leyfishafi samkvæmt þeim lögum, sem hér um ræðir. Leyfishafi er hver einstakur bifreiðarstjóri, þannig að það, sem farið er fram á í þessari brtt., er, að hver einstakur bifreiðarstjóri hafi nægilegan bifreiðakost til þess að fullnægja eftirspurninni á hverjum tíma. Eins og allir sjá, er þetta alger fjarstæða, og kemur náttúrlega ekki til mála að samþykkja þessa till. í því formi, sem hún hér er. Hins vegar minntist hv. þm. á það, að hann gæti kannske fellt sig við það, að þetta yrði tekið til athugunar, þegar reglugerð yrði sett, og ég vænti nú þess, að hv. þm. vilji á það fallast að taka þessa till. til baka í trausti þess, að þetta verði tekið til athugunar í sambandi við reglugerðina.