19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins ekki láta ómótmælt þeirri ásökun, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) bar hér fram á dómsmrh. eða dómsmálastjórnina, að hún hefði ekki séð um, að lögunum frá 1953 væri framfylgt. Sjálfur gaf hann þær upplýsingar, að skilyrði til þess að framfylgja þeim lögum eru alls ekki fyrir hendi, því að eftir því sem hann segir, þá er það ákvæði þeirra, sem hann talaði um, alls ekki komið í framkvæmd.

Það stendur, með leyfi hæstv. forseta, í 1. gr. l. nr. 23 frá 1953: „Bæjarstjórn er heimilt, að fengnum tillögum hlutaðeigandi stéttarfélaga bifreiðarstjóra, að ákveða, að allar leigubifreiðar í kaupstaðnum, hvort heldur eru fólks-, vörueða sendiferðabifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefur viðurkenningu bæjarstjórnar.“

Eftir því sem hv. þm. las upp og vitnaði í reglugerð um hámarkstölu vörubifreiða í Reykjavík, þá fjallar sú reglugerð alls ekki um þetta efni, og þar af leiðandi, ef þetta eru einu fyrirmælin, — ég hef ekki kannað það sérstaklega, og mér er ókunnugt um annað, — þá vantar þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjavíkur, að bifreiðar skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem er skilyrði fyrir því, að dómsmálastjórnin geti skipt sér af þessu máli eða samgmrh. Frumkvæði í þeim efnum á að vera hjá stéttarfélögum bifreiðarstjóra, og síðan kemur það undir bæjarstjórn. Eftir lögunum sjálfum heyrir það raunar alls ekki undir samgmrh. Það er bæjarstjórnin ein, sem getur tekið þessa ákvörðun, og þarf ekki neitt reglugerðarfyrirmæli um það. Það kann að vera, að bæjarstjórn hafi gert um þetta einhverja samþykkt, ég hef ekki kannað það, en það hefur a.m.k. aldrei staðið á neinni framkvæmd af hálfu dómsmálastjórnarinnar, því að hennar aðstoðar hefur ekki verið leitað og ekkert mál þess efnis verið stöðvað af henni eða kæra; það þori ég að fullyrða. Málflutningur hv. 1. þm. N-M. að þessu leyti er því á misskilningi byggður.

Hitt hefur svo reynslan sýnt, að þetta ákvæði fyrri málsgr. 1. gr. l. frá 1953 hefur ekki reynzt nægilegt í þessu sambandi, að stéttarfélag bifreiðarstjóranna hefur ekki talið það nóg, að sett væru fyrirmæli um það, að allar bifreiðar ættu að vera frá stöð, heldur telur nauðsynlegt, að það sé sams konar heimild um fólksbifreiðar og sett var 1953 um vörubifreiðar, til þess að takmarka fjölda þeirra. Og þetta mál hefur af fylgjendum þess fyrst og fremst verið flutt á þeim grundvelli, að eðlilegt væri, að sams konar ákvæði giltu um bæði vörubifreiðarstjóra og fólksbifreiðarstjóra, og hv. þm. hefur ekki fært nein rök því til afsönnunar.