03.12.1954
Efri deild: 25. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

82. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Akureyrarkaupstaðar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem er stjórnarfrv., til okkar komið úr Nd., er um það að leggja undir Akureyrarlögsagnarumdæmi nokkurn hluta Glæsibæjarhrepps. Það er sá hluti hreppsins, sem næst liggur Akureyri og á afkomu sína að langsamlega mestu leyti saman með Akureyringum og líka með þeim önnur sameiginleg áhugamál.

Þegar þetta mál var fyrst rætt hér á þingi, þá var ekki komið samkomulag milli Akureyrarbæjar og Glæsibæjarhrepps um fjárhagslegan grundvöll fyrir skiptingunni. Þess vegna dagaði það þá uppi. Nú er sá grundvöllur fenginn, og liggur fyrir bréf frá oddvitanum í Glæsibæjarhreppi og bæjarstjóranum á Akureyri um, að þeir séu búnir að koma sér saman um það, og þess vegna hefur þótt rétt að láta þetta nú ná fram að ganga, og leggur nefndin til, að svo verði geri. Þetta er sjálfsagt réttlætismál, eins og málum þar norður frá er hagað nú.

N. er öll sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Einn nm. var að vísu ekki á fundi, en ég hygg, að hann sé sammála því líka. Ég legg það sem sagt til, að það verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.