14.04.1955
Neðri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

133. mál, jarðræktar og húsagerðarsamþykktir

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. var samið af mþn. á s.l. ári eftir tilmælum hæstv. landbrh. Var það lagt fyrir þingið fyrir hátíðirnar í vetur.

Það má með sanni segja, að mörg lagafyrirmæli hafi orðið til þess að styrkja og efla landbúnaðinn í landinu, en ég hygg þó, að fá lög hafi átt ríkari þátt í því að efla jarðræktina eins mikið og sú löggjöf, sem hér um ræðir, því að einmitt eftir að hún öðlaðist gildi og innflutningur á vélum varð nokkru meiri, urðu mjög mikil stakkaskipti í þessum efnum, þannig að það hefur á því tíu ára tímabili, sem þessi lög hafa ríkt, orðið alger bylting í þessum efnum.

Það hafa vegna þessara laga verið fluttar til landsins um 10 skurðgröfur og um 113 dráttarvélar. Meiri hlutinn af þessum vélum var fluttur til landsins fyrir 1950, en nokkrar síðar.

Það voru upphaflega lagðar fyrir í framkvæmdasjóð um 3 milljónir, sem áttu að standa straum af þessum vélakaupum af ríkisins hálfu. Síðan var þetta framlag hækkað 1950 upp í 6 millj., en nú hefur breytingin orðið svo mikil á verðiagi þessara véla, að þessar upphæðir hafa engan veginn nægt eins og til var ætlazt í upphafi, svo að nú er farið fram á, að þessi upphæð sé hækkuð enn þá einu sinni, og mun ekki af veita, því að enn þá hafa ekki allir landshlutar getað komið á hjá sér ræktunarsamböndum og orðið aðnjótandi þessara laga. Það er því farið fram á, að lögð sé fyrir nokkur upphæð til þessara vélakaupa eða um 6 millj. kr. á næstu sex árum.

Landbn. hefur athugað frv. frá því það var lagt fyrir þingið og breytt því nokkuð. M.a. hefur verið felldur úr frv. styrkur til vélageymslna, þ.e.a.s. til að byggja geymslur yfir þessar vélar. Það þykir ekki tímabært að styrkja þær, þar sem enn þá hafa ekki allir getað fengið nægjanlega margar vélar til ræktunar. Hugsanlegt er síðar meir, að komið geti til greina að styrkja geymslurnar einnig, en á þessu stigi málsins hefur n. ekki talið það eðlilegt.

Þá hefur n. gert nokkrar breytingar varðandi fyrningarsjóðina, sem upphaflega var ætlazt til að yrðu greiddir á vissum árafjölda, þannig að vélarnar greiddust niður á fárra ára fresti, eða á sex árum, að mig minnir. Nú er tekin inn heimild í l. að semja við stjórn vélasjóðs um, hvað tíminn verði langur, sem vélarnar eigi að greiðast niður á, vegna þess að notkun vélanna er ákaflega misjöfn, ársvinnutekjurnar eru mjög misjafnar, þannig að það getur tæplega gengið, að vélar, sem hafa sáralitla vinnu árlega, greiði jafnmikið og hinar, sem koma í hámarksvinnu og hafa því miklar tekjur.

Sökum þessa hefur einnig þótt eðlilegt að gera nokkru strangari ákvæði um skil á fyrningarsjóðum, því að það hefur borið við á stöku stöðum, að ekki hafi verið gerð nægjanleg skil eins og l. ætluðust til. En þar sem þessi ákvæði eru sett inn, þá hygg ég, að önnur ákvæði, sem einnig eru tekin inn í þetta frv., verði ekki skoðuð á þann veg, að þau verði neinn fjötur um fót ræktunarsambandanna, nema síður sé.

Þessu frv. hefur fylgt ýtarleg grg., þar sem gerð er grein fyrir öllum þeim brtt., sem fram eru bornar, og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynnt sér hana. Sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv., en vænti þess, að það fái góðar undirtektir hjá hv. þm. og að því verði vísað til 3. umr. að þessari lokinni.