07.02.1955
Neðri deild: 41. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

132. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Setning jarðræktarlaganna, sem upphaflega voru samþ. árið 1923, hefur haft í för með sér meiri framfarir á sviði jarðræktarmála í okkar landi en flest annað, sem gert hefur verið okkar sveitum til gagns, og ég held, að það sé einmæli meðal allra landsmanna, að það hafi verið rétt stefna og heilbrigð, sem þar var tekin í því, að ríkissjóður veitti allverulegan styrk til þeirra framkvæmda, sem eru unnar á þessu sviði og ekki eru einasta unnar fyrir núlifandi kynslóð, heldur og að miklu leyti fyrir framtíðina. Þessum l. hefur verið nokkrum sinnum breytt, en aðalbreyt. hafa farið fram árið 1936 og árið 1950, og þau lög, sem nú gilda í þessu efni, eru lög frá 1950, nr. 16 frá 17. maí það ár.

Það frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. landbn. þessarar d., er flutt eftir tilmælum hæstv. landbrh., en undirbúið af mþn., sem sett var af búnaðarþingi í fyrra. Aðalástæðan til þessa frv. er sú mikla breyting, sem orðið hefur á kostnaði við jarðræktarframkvæmdir frá því árið 1950, að l. voru sett, og samkv. grg. fyrir þessu frv. er svo komið, að á þessu tímabili lætur nærri samkv. fróðustu manna útreikningi, að kostnaður við framkvæmdirnar, margar hverjar a.m.k., hafi um það bil tvöfaldazt, eða það, sem kostaði að rækta hektarann, hafi verið 3500 kr. og upp í 4:500 kr., en nú sé það komið upp í 7500 kr. og upp í 9000 kr. Þetta er dálítið misjafnt eftir aðstæðum, eins og gefur að skilja, en aðalorsökin til þessarar miklu hækkunar er hækkun á kaupgjaldi og hækkun á öllum kostnaði við vélar.

Ég fyrir mitt leyti tel það þess vegna mjög sanngjarnt, sem er að vissu leyti meginatriði þessa frv., að það sé farið fram á það og lögfest nú að hækka framlag ríkisins til þessara mála, sem hér er fyrst og fremst ákveðið í 4. gr. þessa frv.

En í þessu frv. eru þó nokkur önnur atriði, sem að vissu leyti er ekki alveg eins ákveðið með, að sjálfsagt sé að samþykkja, þó að það sé hins vegar mjög sanngjarnt og margt mæli með því. Það eru aðallega tvö atriði, sem þar er um að ræða og eru allt annars eðlis en þetta. Það er í fyrsta lagi að hækka styrkinn eða framlagið til vélgrafinna skurða úr 50% kostnaðar upp í 70%. Þetta er, eins og menn sjá, töluvert mikið annars eðlis, vegna þess að framlagið eins og það er í lögunum er „prósentvís“ framlag og er því öðruvísi en með hinn almenna ræktunarkostnað. Hitt ákvæðið, sem í þessu frv. er nýtt, er að taka upp styrk eða framlag, sem ekki hefur verið áður í lögum, til búvélageymslna. Hefur mjög borið á því, að það er mjög vanrækt, ef svo mætti segja, víðs vegar í sveitum landsins, að með hinar dýru búvélar sé svo vel farið sem æskilegt væri og þarf að vera. Þess vegna er það áreiðanlega ekki fjarri vegi, að ýtt sé undir það, að betur sé með þessar nytsömu vélar farið en gert hefur verið, og það verður ekki gert á annan hátt en þann að koma upp hæfilega góðum geymslum yfir þessar vélar, þannig að þær geti jafnan verið undir þaki, þegar þær eru ekki í notkun.

Þessu frv. fylgir nú, eins og menn sjá, ekki nein kostnaðaráætlun, þannig að það er ekki svo þægilegt að segja um það, hvað mikinn kostnað þetta hefði í för með sér fyrir ríkissjóð.

Það er hins vegar vitað, að það er talsverð hækkun frá því, sem nú er. En hér er um að ræða mikið nauðsynjamál, og vil ég því fyrir hönd landbn. mæla með því, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þetta frv. á þessu þingi, annaðhvort eins og það liggur fyrir ellegar þá með þeim breyt., sem samkomulag yrði um.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða á þessu stigi meira um málið. Það er, eins og ég hef þegar tekið fram, flutt af nefnd, og þarf þess vegna ekki að vísa því formlega til hv. landbn. aftur. Hins vegar tel ég sjálfsagt, að n. taki það til athugunar og athugi, hvort það eru einhver fleiri atriði í jarðræktarl., sem henni finnst nauðsyn að breyta, ellegar þá að hún leggur til að breyta einhverjum af þeim ákvæðum, sem eru í þessu frv.