04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

132. mál, jarðræktarlög

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Af ræðu hæstv. viðskmrh. sýnist mér ljóst, að hann muni minni upphaflegu till. meira fylgjandi en þeirri breyt., sem landbn. hefur á henni gert, og þykir mér það í sjálfu sér vel, þó að ég hins vegar fyrir mitt leyti hafi á það fallizt og geti á það fallizt að samþykkja brtt. hv. landbn., til þess að þessi till. nái þó fram að ganga í því formi, sem n. hefur lagt til. Þykir mér það mun betra en ekkert. En þegar ég bar þessa till. fram hér á síðasta þingi, sá hv. formaður landbn., hv. þm. Dal. (ÁB), ástæðu til að stíga hér í ræðustólinn og lýsa því yfir, að með þessari till., eins og hann tók sérstaklega fram um þennan lið till., væri verið að stiga aftur á bak frá núverandi ástandi. En nú hefur þó sú framför á orðið hjá hv. landbn., að þessi skoðun er ekki ríkjandi lengur, og þess vegna hefur hún tekið mína till. upp í sínar, og er það vel. Þykir mér leitt, ef ég skyldi þurfa að álíta, að þessi breyting á hugarfari n. stafaði af því og því einu, að nú væri einum framsóknarmanni færra í n. en var á síðasta þingi, og ef ég svo í framhaldi af því skyldi láta mér detta í hug, að leiðin til að fá alla till. samþ. væri að reyna með einhverjum ráðum að koma því þannig fyrir, að það væri enginn framsóknarmaður í hv. landbn. Ég segi, mér þætti mjög leitt að þurfa að láta mér detta það í hug, en eftir ræðu hæstv. viðskmrh. sýndust mér samt allar horfur á því, að svo væri, þar sem hann er sýnilega meðmæltari minni upphaflegu tillögu en breytingu hv. landbúnaðarnefndar á tillögunni.

Í tilefni af ræðu hv. þm. A-Húnv. (JPálm) vil ég svo segja það, að ég þakka honum fyrir, hve vinsamlega hann tók nú í mál mitt hér, enda þótt röksemdir hans gegn því væru hálfbágbornar, sem vonlegt er. Þar sem hann viðurkennir það, að hér sé um mjög gott og nauðsynlegt mál að ræða, þá er ekki ástæða til að ætla, að maðurinn hafi mjög haldgóðar röksemdir gegn því að samþykkja góða og skynsamlega till. Við því er ekki að búast, enda hafði hann ekki slíkt fram að færa. Hann sagði, að skjólbeltaræktun á Sámsstöðum hefði gefizt vel, þar sem ekki hefði þurft að spara peningana til þessarar ræktunar. Ja, það er leiðinlegt, að Klemenz Kristjánsson á Sámsstöðum skuli ekki eiga sæti á þingi núna. Hann hefði getað lýst því fyrir mönnum, hvort hann hefði haft næga eða helzt til mikla peninga til þessarar ræktunar. Hann hefði getað komið hv. þm. A-Húnv. örugglega í skilning um það, hvort þar hefði aldrei þurft að spara peningana.

Ég held, að þm. A-Húnv. þurfi ekki að álíta það, að Klemenz á Sámsstöðum hafi haft ótakmarkaða peninga til sinnar skjólbeltaræktunar og að skjólbeltaræktunin þar hafi gefizt vel eingöngu af þeim sökum, að það hafi ekki þurft að horfa í peningana til hennar. Það þarf ábyggilega að leita að einhverjum öðrum ástæðum til þess að vera andvígur því, að veittur verði nokkur styrkur til ræktunar á skjólbeltum.

Þá sagði þm. A-Húnv., — og það var helzta röksemdin, skildist mér, hjá honum, — að það væri ekki rétt að fara út á þessa braut, þar sem reynslan væri svo lítil af skjólbeltaræktuninni. Um það segir nú Klemenz Kristjánsson sjálfur í því, sem ég vitnaði til áðan og skal þá vitna til aftur, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir: „Á Sámsstöðum eru skjólbelti úr birki, 4–20 ára gömul.“ Þetta hefði nú í sumum tilfellum, held ég, þótt nægur reynslutími, og ég held, að hið háa Alþingi Íslendinga hafi samþykkt ýmsa hluti, þó að jafnlöng og jafnhaldgóð reynsla hafi ekki verið fyrir hendi og einmitt er í þessu tilfelli. Og ástæðan fyrir því, að reynslan er ekki nógu víðtæk hérlendis, er einfaldlega sú, að stofnkostnaðurinn við þessi skjólbelti er svo mikill, að fátækir bændur hafa alls ekki séð sér fært að hefjast þar handa, þar sem árangurs er ekki að vænta fyrr en eftir tíu ár. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að hér er um allt annað mál að ræða en túnræktina. Eðli þessa máls er allt annað. Túnræktin sjálf skilar arði nærri því strax eða eftir örskamman tíma. Þá fá bændur strax borið uppi nokkuð af þeim kostnaði, sem þeir lögðu í að rækta túnið, og svo árlega á hverju ári síðan. En það er vitað, að skjólbeltin þurfa 5–10 ára vaxtartíma, til þess að árangur sjáist í uppskeru þess lands, sem verið er að skýla.

Sú röksemdafærsla hv. þm. A-Húnv., að ekki væri sýnilegt af till., hvort hún ætti heldur við það, að styrkinn ætti að veita út á það land, sem skjólbeltið sjálft nær yfir, eða allt landið, sem það á að skýla, er algerlega út í hött. Þetta er aðeins hártogun. Það dettur að sjálfsögðu engum manni í hug, að veita eigi styrk aftur fyrir túnið, þó að nú sé búið að skýla því, í viðbót við það, að áður var veittur styrkur út á að rækta það og girða, enda kom það fram í grg. á sínum tíma alveg augljóslega, að hér var eingöngu átt við skjólbeltið sjálft. Og þó að hér sé um nokkuð háa upphæð að ræða, 1800 kr. á hektara, þá held ég, að enginn þurfi að kviða því, að það fari svo stórar fjárfúlgur til þess arna á næstu árum, að ríkið rísi ekki undir því. Menn sjá það, að einn hektari af skjólbelti tví- eða þrísettu nær í kringum stóra spildu af túni eða akurlendi, og umfang þessarar ræktunar verður aldrei neitt sambærilegt við túnræktina sjálfa. Ef menn hins vegar skyldu samt sem áður vera uggandi við þessa háu tölu þarna, þá er ég vel til með að bera hér fram og mun bera hér fram varatill., þannig að í staðinn fyrir 1800 kr. á hektara verði þetta til vara 1000 kr. Ég vil það til vinna til þess að koma þessum styrk þarna inn, því að ég er sannfærður um, að skjólbelti verða ekki ræktuð almennt hér á landi, nema því aðeins að fyrst verði veittur styrkur til þess. Og það er ómótmælanlega þjóðinni til stórfelldra hagsbóta að rækta skjólbelti, þar sem tilraunir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt, að sama land gefur 16-44% meiri uppskeru, ef því hefur verið skýlt með skjólbeltum, heldur en bersvæði. Það er því ekki aðeins tryggður hagur þeirra bænda, sem hér eiga hlut að máli, heldur þjóðarinnar allrar.

Fleira kom ekki athugasemdavert fram í ræðu hv. þm. A-Húnv., enda var sýnilegt og auðheyrt á hans ræðu, að hann var þessu máli fylgjandi, en af einhverjum ástæðum reyndi hann samt sem áður af mjög veikum mætti að tala gegn málinu.