04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

132. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það virðist nú vera óþarfi að svara hv. 8. landsk. (BergS), vegna þess að honum er margt annað betur gefið en að skýra rétt frá mönnum og málefnum, en þó vil ég að nokkru útskýra málið, til þess að það rétta komi í ljós.

Hann sagði, að ég hefði sagt á Alþ., að það væri afturför í frv. hans, en ekki framför, þ.e.a.s., að það framlag, sem hann færi fram á til að endurrækta tún, væri afturför frá því, sem nú gildi í l. Þetta er alveg rétt, vegna þess að það hefur gilt þar til nú við síðustu áramót, að endurræktun túna — sléttun túnþýfis — hefur verið styrkt með helmingi hærra framlagi en hefur verið til nokkurrar annarrar jarðræktar, og hans till. kemur ekki beint fram í þeim brtt., sem jarðræktarnefnd gerir, þó að hún sé þar innifalin, og vil ég koma dálítið nánar inn á það atriði málsins, því að ég tel það mjög mikilsvert.

Það stendur hérna á þskj. 528 í bráðabirgðaákvæðum, að það skuli veita 450 kr. grunnframlag til þeirra, sem hafa innan við 10 hektara tún.

Þetta ákvæði nær bæði til endurræktunar túna og til nýræktar hjá þeim, sem hafa innan við 10 ha. tún, en hinir, sem eiga eftir að endurrækta tún sín og hafa yfir 10 ha. tún, fá ekki neitt framlag til þess samkv. þessu frv., ef að lögum verður, en hitt stendur hvergi í þessum brtt., og ég hygg, að hv. 8. landsk. hafi einnig hugsað sér, að það bæri frekar að styrkja þá, sem væru skemmra á veg komnir með jarðrækt, heldur en hina og geti þar af leiðandi vel sætt sig við þetta ákvæði laganna. En eins og stendur þarna, þá er um 450 kr. grunnframlag að ræða á hektara, en ekki 200 kr., og er það meira en helmingi hærra en hv. 8. landsk. fer fram á, svo að mér finnst, að hann megi í þessu tilfeili vel við una.

Varðandi skjólbeltin, þá er, eins og hv. þm. A-Húnv. (JPálm) gat um, margt mjög mikið órannsakað í þeim efnum. Það liggur ekki það fyrir, sem þarf, og við höfum ekki heldur getað aflað okkur upplýsinga um það, hvað langt ætti að vera á milli þessara skjólbelta, t.d. í einum hektara lands, og svo stendur ekki þarna, að það eigi að vera um ræktað land að ræða, heldur „ræktunarlönd“, þannig að það er hægt fyrir menn, sem þegar eru búnir að ræsa fram mýrar og ætla í framtíðinni að rækta þær, að fá til þeirra ríkisframlag nú þegar, ef till. hv. 8. landsk. yrði að lögum, og það eru engar 1800 kr. á hektara, vegna þess að vitanlega mundi verða greidd vísitöluuppbót á þennan lið jarðræktarlaga eins og aðra, svo að upphæðin mundi þá verða nær 8 þús. kr. á hektara. Ég er ekki að telja þetta eftir fyrir bændur, það er síður en svo, og ég veit, að þetta verður eitt af framtíðarmálefnum sveitanna í landinu, að slík skjólbelti geti komið sem víðast. En þar sem þetta mál liggur þannig fyrir nú, að ekki er hægt að afgreiða það án þess að taka jafnframt nokkurt tillit til fjárhags þess opinbera, þá verðum við einhvers staðar að draga markalínurnar, og þar sem hér er um nýmæli að ræða, sem er það lítið rannsakað, að tæplega er frambærilegt að viðurkenna það strax án frekari rannsóknar, þótt hins vegar mér sé ljóst, að það geti komið til greina síðar, þegar þetta mál liggur betur fyrir, að það verði viðurkennt með því að greiða jarðræktarframlag á það eins og annað.

En vitanlega, ef greitt yrði framlag á skjólbeltin, þá yrði síðar, þegar það væri búið að rækta þarna tún, greitt framlag út á túnið einnig, svo að í raun og veru væri tvöfalt framlag á þetta land, miðað við sama hektara.

Ég ætla, að hv. 8. landsk. hafi skilið, hvað hér er um að ræða, og þurfi þar af leiðandi ekki að álíta, að það sé verið með neitt rangt mál. Annars hef ég honum ekki meira að svara, því að honum er sjaldnast svaravert.