04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

132. mál, jarðræktarlög

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að hin skörulega ræða hv. þm. Dal. (ÁB) skyldi fara algerlega fyrir ofan garð og neðan og vera fullkomlega út í hött, en hún var það, þar sem hún var byggð á algerlega röngum forsendum. Hann sem mælingamaður ætti að vita, að það hefur aldrei verið heimilt að borga styrk út á endurræktun gamalla túna, sem t.d. hafa verið orðin arðlaus vegna þess, að kal hefur verið komið í þau. Það var aðeins um að ræða sérstakan tímabundinn styrk til að rækta túnþýfi, og það er allt annars eðlis. Þessar upplýsingar veitti ég honum í fyrra frá sjálfum búnaðarmálastjóra, sem ætti að vita gerst um þessa hluti. En hann hefur ekki enn þá lært þetta, og ég vil benda honum á það, að ef mælingamenn hafa hingað til mælt upp endurræktuð kaltún,

þá hafa þeir verið að brjóta lög. Það vildi ég benda honum á, svo að hann komi ekki aftur hér eða enn þá einu sinni með þessa sömu ræðu sína algerlega út í loftið.

Annað þarf ég svo ekki að taka fram og ætla ekki að misnota heimildina, sem mér var hér veitt til að gera stutta aths. Báðir þeir hv. þm., sem hér töluðu, töluðu mjög eindregið með því að styrkja skjólbeltin, sem raunverulega væri framtíðarlausnin, sem og er óumdeilanlega. En hvers vegna að tefja og seinka því máli? Við vitum, að þetta verður gert. Það verður tekinn upp styrkur til skjólbeltaræktunar, vegna þess að það er það skynsamlegasta, sem hægt er að gera í íslenzkum ræktunarmálum eins og nú horfir. En hvers vegna þá að draga það og hvers vegna að tefja það? Hv. þm. A-Húnv. endurtekur það, að reynslan sé lítil hér. Við höfum okkar reynslu í 20 ár á Sámsstöðum, sem er ekkert óvenjulegt skógræktarland, eins og hv. þm. A-Húnv. vildi halda fram. Það eru víðast til hér á landinu jafngóð eða betri skilyrði til skógræktar en á Sámsstöðum. Þar að auki höfum við reynslu fyrir þessu erlendis, og hvers vegna getum við ekki lært af þessari reynslu allri saman? Hvers vegna endilega að fikra okkur áfram í hverju einasta máli, hverju einasta atriði eins og fullkomnir steinaldarmenn, hunza reynslu allra annarra og ætla að leggja í kostnað við það að reyna þetta allt saman sjálfir og prófa upp á nýjan leik? Ég segi, að þetta eru engin rök í málinu. Við eigum að veita þennan styrk. Ef hv. þm. geta ekki fallizt á mína fyrri till., þá er ég búinn að bera fram aðra till. um lægri fjárhæð, og ég vonast til, að þeir geti a.m.k. fallizt á hana.