22.04.1955
Efri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

132. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það munu vera núna í ár rétt 80 ár síðan Alþ. fór að samþ. að veita styrk til landbúnaðarframkvæmda. Það voru veittar 2 þús. kr. 1875 og mun vera fyrsta fjárveitingin í því skyni. Frá þeim tíma til 1891 voru þessar fjárveitingar ákaflega litlar og ekki neinar algildar, alhliða reglur, sem eftir var farið við úthlutun styrkjanna. Þær gengu í gegnum amtsráðið og voru alltaf sáralitlar. En 1891 voru settar um þetta reglur, og eftir það fór þetta að verða í fastara formi. Það má segja, að frá þeim tíma og þar til jarðræktarlögin voru samþ. og komu til framkvæmda, en til framkvæmda komu þau 1924, hafi verið það „prinsip“ hjá löggjafanum að veita ákveðna fjárupphæð til landbúnaðarframkvæmda, til jarðabóta og annars þess háttar, og síðan voru jarðabæturnar mældar og lagðar í dagsverk og þá lagt í dagsverk þannig, að það, sem ætlað var einum manni að gera á einum degi, var lagt í dagsverkið fyrir hverja einstaka jarðabót. Allan þennan tíma voru þess vegna dagsverkin ákaflega góður mælikvarði bæði fyrir því, hvað mikið var gert og hvað það kostaði, sem gert var. Mannshöndin vann það, og þegar það svo lá fyrir, hvað dagsverkin voru mikil á öllu landinu, var tölu þeirra deilt í upphæðina, sem í fjárl. var ætluð til þess, og komu þá út nokkrir aurar, hæst 18 aurar og venjulega á milli 12 og 16 aurar. Þetta hélzt alla leiðina til 1923. Þá var breytt um og fyrir fram ákveðið, hvað mikill styrkur skyldi vera á hvert dagsverk. Það skyldi vera svona mikið, hvort sem það var nú unnið meira eða minna, og þá var fjárveitingin í fjárl. áætlunarfjárhæð, og hefur svo verið alltaf síðan. Áður varð það að fara eftir því, sem verða vildi, hvað styrkurinn varð hár. Það fór eftir því, hvað mikið var gert í landinu hvert árið, þá var fjárveitingin föst, en eftir að jarðræktarlögin komu til framkvæmda, var fjárveitingin færanleg — áætluð — og réð hvað mikið var gert, hver hún varð endanlega. Þetta varð til þess að ýta undir menn að framkvæma umbætur á jörðum sínum, því að nú vita menn, hvaða styrk þeir eigi von á út á ákveðnar umbætur.

Síðan hefur jarðræktarl. oft verið breytt, nú er alveg hætt að leggja í dagsverk, og enn erum við með brtt. á þeim, sem ég mun talsvert koma að. Það hefur alveg fallið burt og er fyrir nokkuð löngu fallinn burt sá allsherjarmælikvarði, sem maður hafði í dagsverkunum. Það kom bæði til af því, að farið var að mismuna í, fá menn til að vinna frekar að þessari jarðabót en hinni með því að styrkja hana hærra. Þetta var gert með því að leggja minna í dagsverkið í einni jarðabótinni en annarri, jarðabætur, er kostuðu t.d. 50 kr., voru dagsverk í einni greininni, en í annarri kostaði það 150 kr., og hættu dagsverkin því að verða sameiginlegur mælikvarði á kostnaðinn.

Það er ekkert langt síðan jarðræktarl. var breytt seinast, 1952. Það var lítilfjörleg breyt., sem þá varð á þeim. Þá voru teknar þar inn í kartöflugeymslur sem styrkhæfar. Nú er enn lagt til að breyta þeim.

Landbn. er sammála um að leggja til, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. Þó er rétt að geta þess, að ég geri ráð fyrir því, að öll landbn. hefði heldur kosið ýmis ákvæði frv. öðruvísi og öll á þá leið, að það hefðu hækkað framlög ríkisins til þessara umbóta. En þegar það er ekki gert þrátt fyrir þetta, þá er það af því, að við sjáum bæði óvissuna, sem fram undan er með tekjur ríkissjóðs, þar sem allt er í óvissu, hvernig því verkfalli linnir, sem staðið hefur um skeið og skerðir útflutningsverðmæti heildarinnar, þar með innflutninginn, tollana o.s.frv., og maður veit ekki heldur nema að einhverju leyti orsaki, að ný gjöld komi á ríkissjóð, og vegna þessa er þessu öllu meira stillt í hóf hér en ella hefði verið.

Enn fremur er á það að líta, að þessar jarðabætur, sem hér er talað um að styrkja, eru ýmislega lagaðar, og hefur þá yfirleitt verið reynt að klípa af og spara á þeim, sem ekki hafa eins almennt gildi fyrir alla og þó alveg sérstaklega fyrir framtíðina og hinar. Þessi sjónarmið bæði hafa komið til greina mjög greinilega við meðferð málsins í Alþ.

Síðan jarðræktarlögin öðluðust fyrst gildi,hafa túnin í landinu stækkað úr hér um bil 23 þús. hekturum og eru núna orðin trúlega 58 þús. ha. Ég veit ekki enn nákvæmlega, hve nýræktin er mikil frá s.l. sumri, en áður en hún kom til, voru túnin orðin 55 þús. ha. að stærð. Í fyrra voru það rétt að segja 3 þús. ha., sem bætt var við, og hafi það verið eins í sumar sem leið, þá geri ég ráð fyrir, að það séu núna í kringum 58 þús. ha. tún.

Þessi aukning hefur leitt til þess, að töðufallið hefur aukizt úr 600 þúsundum og upp í yfir 11/2 milljón töðuhesta, sem það var bæði í fyrra og hittiðfyrra. Og þetta hefur aftur leitt til þess, að þó að fólkinu, sem stundar landbúnað, hafi fækkað ákaflega mikið og sé ekki núna orðið nema 19.9% af allri þjóðinni, sem framfærslu hefur af landbúnaði, og því, sem er vinnandi, hefur fækkað enn meira, — eða sem sagt, þó að því, sem stundaði landbúnað, hafi fækkað úr 56 þús. um það leyti, sem jarðræktarlögin komu til framkvæmda, og niður í 28 þús. hér um bil núna, eða um helming á þessum tíma, þá hefur samt sem áður töðufallið vaxið þetta og þess vegna hefur kúatalan tvöfaldazt og mjólkin nærri fjórfaldazt. Kjötframleiðslan hefur aukizt það, að þar sem hún var tæp 10 kg á kind, er hún rúmlega 15 kg.

Allt þetta hefur unnizt einmitt fyrir þetta ríkissjóðsframlag, fyrir það, að ríkið hefur hvatt bændurna og bændurnir lagt sig fram um að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, hætt að hugsa um sjálfa sig eina, pína jörð sína út og reka á henni hreina rányrkju, heldur farið inn á ræktunarbúskap og búið í haginn fyrir framtíðina.

Nefndin og allir, held ég, sem eitthvað hugsa um það, eru þess vegna í hjarta sínu 100% sammála um, að lagt sé til, að sú stefna, sem tekin var upp með jarðræktarl. og enn er ákveðið að halda áfram um sinn a.m.k. með breyt. á þessum l., haldi áfram, enda þótt hún skapi stóran harmonikulið inn í fjárl., sem er mikill galli. Í fjárl. þurfa að vera sem fæstir áætlunarliðir, en þrátt fyrir það verður svo að vera hér.

Breytingin, sem hér er lagt til, að gerð sé á jarðræktarl., ér fyrst og fremst sú, að breytt er til um héraðsráðunautana. Þeim er fjölgað upp í 15. Þeir eru í 9. launaflokki og eiga nú að fá helming af launum sínum greiddan úr ríkissjóði, en hafa áður fengið 2/5.

Um þörf á fleiri ráðunautum, jafnvel enn fleiri en hér er lagt til, held ég, að bændurnir séu núna að verða nokkurn veginn sammála. Það er þá líka ákaflega greinilegt, að á þeim svæðum landsins, þar sem ráðunautar eru búnir að starfa mest og ráðunautar, sem eru dálítið dugandi menn, eins og t.d. á Suðurlandsundirlendinu, eru núna orðnar yfir 700 jarðir af þeim ca. 1200, sem þar eru, sem eru komnar yfir 10 ha. túnstærð, meðan 300 eru á 9. og 10. hektaranum og hinar aðeins neðan við. Aftur á öðrum stöðum, þar sem ráðunautar hafa ekki starfað, eru t.d. í einum stað 26 jarðir einungis komnar upp fyrir 10 ha. stærðina, en nærri 300 eru fyrir neðan hana o.s.frv. Þetta er ákaflega greinilegt og sýnir áþreifanlega, hvernig ráðunautarnir á þeim stöðum, þar sem þeir hafa starfað nú um nokkurra ára skeið og starfað af dugnaði, hafa drifið framkvæmdirnar áfram og gert alveg ómetanlegt gagn. Um það að fjölga þeim hugsa ég þess vegna að verði ekki neinn ágreiningur, enda hef ég ekki orðið neitt við hann var.

Þá er lagt til að hækka framlagið til skurðgröfuskurða. Það er núna alveg sérstakt í jarðræktarl., það er eina framkvæmdin, þar sem ákveðið er að borga ákveðinn hluta af heildarkostnaðinum til framkvæmdanna. Það koma til okkar á hverju ári allir reikningar yfir rekstur hverrar einstakrar skurðgröfu, og frá því er dregið, ef hún hefur unnið að einhverju öðru en uppþurrkun lands til túnræktar eða beitilands, en helmingurinn af hinu er greiddur.

Eins og menn vita, er nokkuð mikill hluti af skurðgröfunum eign vélasjóðs og rekinn af honum, en nokkrar eru eign einstakra ræktunarsambanda og búnaðarsambanda, eins og Skagfirðinga og Húnvetninga o.s.frv., og hver einstök þeirra er svo rekin sameiginlega á félagslegum grundvelli. Þessar skurðgröfur eru nú búnar að starfa hér á landi upp undir 13–14 ár, og eru þær búnar að grafa núna í kringum 41/2 millj. metra langa skurði, sem upp úr hefur komið í milli 17 og 18 þús. millj. teningsmetra af grefti. Þessi uppgröftur hefur orðið þess valdandi, að það má ætla, að búið sé að þurrka í kringum 15 þús. ha. af mýrlendi, sem sumpart er búið að rækta, sumpart er verið að rækta og sumpart verður ræktað. Þetta hefur ákaflega mikla og margvislega þýðingu. Það gerir fyrst og fremst þessar mýrar, sem áður voru lítt hæfar til ræktunar, ræktanlegar, og það er út af fyrir sig mikils virði, og það bætir í öðru lagi beitilandið geysilega frá því að mýrarnar eru þurrkaðar og þangað til þær eru ræktaðar. Ég vil ekkert segja um það, hvað sé hægt að beita meira, fleiri fénaði, á einn hektara af valllendi, sem mýrarnar breytast í, þegar þær eru þurrkaðar, heldur en á mýrlendi, en það er mikið, sjálfsagt tífalt eða meira, — ja, líklega reyndar miklu meira. Og þetta hefur sína þýðingu og alveg sérstaklega nú, þegar búpeningseignin vex það ört, að margar sveitir eru að tala um það, að þær hafi of lítið beitiland. Enn hefur uppþurrkun mýranna þýðingu, þótt seinna sjáist, á þann hátt að breyta loftslagi landsins, auka hitastig þess og minnka kalhættu. En þetta sést auðvitað ekki og kemur ekki í ljós á meðan ekki er búið að ræsa fram meira en enn er, en barnabörnin okkar, sem orðnir erum eins gamlir og ég, fá að sjá árangurinn á þann veg. — Það er lagt til, að þessi styrkur sé hækkaður upp í 65% af kostnaðarverðinu. Það hafa verið háværar raddir um það hér og þar um landið alilengi, bæði utan þings og jafnvel innan, að hækka hann enn meira og þó sérstaklega með tilliti til þess, hve erfitt er að dreifa eða hve mikið kostar að dreifa uppgreftinum og jafna hann. Nú er það svo, að það horfir ákaflega misjafnt við með þennan uppgröft. Sums staðar og nokkuð víða, sérstaklega þar sem mjög flatt er, er náttúrlega sjálfsagður hlutur að dreifa honum. Og þá þarf að gera meira en að dreifa honum, því að það þarf víða að haga dreifingu hans þannig, að það myndist ofur lítill vatnshalli frá miðju stykkjanna, sem eru á milli skurðanna, og út til skurðanna, svo að það fáist afrennsli af þeim og kalhætta á svæðunum hverfi. Það er ekki nærri því alls staðar, sem þetta er. Sums staðar má gröfturinn vera. Hann myndar sums staðar ágætisskjól fyrir fénað, sem á landinu gengur, og menn kæra sig ekki um að dreifa honum. Á öðrum stöðum er mjög líklegt, að menn komist inn á það að gróðursetja í sjálfum uppgreftinum tré og búa þannig til skjólbelti í landinu. Það er ekki byrjað enn neins staðar á því, en það er talað um það, og þar sem svo hagar til, að ekki þarf að taka gröftinn burt, eins og sums staðar er, og þar sem vindstaða er þannig, að hægt er að fá skjólbelti með því að gróðursetja í hann tré, trjágróður, þá er mjög líklegt, að það komi. Það hefur þess vegna verið litið í burtu frá þessari dreifingu uppgraftarins. Hann er ákaflega misjafn og ákaflega erfitt að taka tillit til hans, svo að rétt sé, en hins vegar er skurðgröfuframlagið almennt hækkað upp í 65%.

Þá hefur verið önnur breyting gerð, og hún er sú, að það hefur verið breytt til um orðalag og reyndar líka tölu á liðnum, sem hér ákveður styrk til ræktunar lands. Það var áður svo, að það hét, þegar land var brotið til túna eða akra, að þá var grunnstyrkurinn 200 kr. á hektarann. Þessu „akra“ hefur verið sleppt úr nú. Það hefur sýnt sig, að það er mjög viðsjált ákvæði að hafa það. Akuryrkja verður aldrei stunduð hér á landi nema með sáðskipti. Hún verður aldrei stunduð öðruvísi, og þá er landið, sem brotið er til túns, tún í nokkur ár og síðan aftur tekið til þess að gera úr því akur og svo aftur tún og svo koll af kolli, hvort sem það reynist þurfa að gera það annað hvert, þriðja hvert, fjórða hvert ár eða hvernig sem það nú verður. Þegar þess vegna er hægt að segja, að landið sé brotið til akra og eigi að fá styrk á sig sem slíkt og svo líka til túna, er hægt að tvístyrkja sama landið, en það er ekki meining með l. og hefur aldrei verið, og til að fyrirbyggja, að sá skilningur geti komizt inn, — og hans er orðið vart hjá ýmsum mönnum, - þá var „akur“ fellt niður.

Sömuleiðis hefur reynslan sýnt það, að við ræktun á sandlendi hefur verið hægt að komast af með mjög miklu minni — líklega nokkuð hátt á annað þús. kr. minni tilkostnað á ræktaðan hektara en á öðru landi, og þess vegna var lækkað framlagið á nýræktun sanda úr 200 kr. grunnframlagi niður í 150 kr.

Ég hef orðið var við það, að ýmsir menn hafa orðið óánægðir með þetta, þ. á m. þeir, sem sérstaklega standa að sandgræðslunni, eins og Páll Sveinsson. Þeirri staðreynd geta þeir þó ekki neitað, að þó að það sé 50 kr. lægri grunnstyrkur á nýrækt á sandjörð en aðra jörð, svo sem seigan mýrarjarðveg, sem þarf að plægja upp og herfa, þá er hann hlutfallslega hærri á sandgræðslunni samt, miðað við tilkostnaðinn, þannig að þeir mega í raun og veru prýðilega vel við una.

Þá er breytt nokkuð til um grjótnámið. Það var áður svo, að það var takmarkað, hvað mikið grjót menn gætu fengið framlag á úr ríkissjóði á einu ári. Þetta hámark var fellt niður, og jafnframt var styrkurinn nokkuð hækkaður, þannig að þeir staðir á landinu, sem ekki hafa nema grýtt holt til þess að rækta, eins og er hér á Reykjanesskaganum á nokkrum stöðum, á þó nokkrum stöðum á Vestfjarðakjálkanum og á nokkrum stöðum, en ekki mörgum á Austurlandi, hafa orðið með þessari hækkun og með því að taka af hámarkið svipaða aðstöðu og aðrir til að rækta, þótt í grjóti sé.

Þá var fellt niður grunnframlag ríkissjóðs til að byggja geymslur yfir kartöflur úr öðru efni en vanalegri steinsteypu. Þetta náttúrlega skiptir ósköp litlu máli. Allur þessi styrkur hefur þessi ár síðan hann var tekinn upp verið milli 10 og 20 þús. kr., einu sinni komizt upp fyrir 20 þús. kr. á ári. Það skiptir ósköp litlu máli fyrir ríkissjóð, hver hann er. En þó að torfgeymslur geti stundum verið ágætar geymslur, meira að segja ljómandi geymslur, t.d. þegar þær eru grafnar inn í þurra hóla, þá þótti þó ekki rétt að styrkja slíkar bráðabirgðageymslur, sem menn kæmu upp, og þess vegna var það fellt niður.

Þá er tekinn upp nýr liður í frv. viðvíkjandi styrk til að koma upp súgþurrkunarkerfum í hlöður. Það eru ekki mörg ár síðan fyrst var reynt hér á landi að koma upp þessari heyþurrkunaraðferð, sem kennd er við súgþurrkunina. Hún er í því fólgin, eins og allir vita, að lögð eru ýmist grindverk í botn hlöðunnar ellegar timburstokkar, sem eru opnir á vissum stöðum, um allt gólf hlöðunnar, sem verður að vera með alveg pottþétta veggi. Það mega ekki vera neinar glufur eða annað þess háttar í veggjunum, því að þá leitar loftið, sem blásið er í gegnum heyið, þar út. Síðan er utan við hlöðuna í sérstöku herbergi blásari, sem rekinn er með einhvers konar mótor, rafmagnsmótor, — það er hægt meira að segja að reka hann með aflvél frá bíl eða dráttarvél, en annars eru sérstakir mótorar til þess víðast hvar, þar sem þetta er komið, - og svo er blásið lofti upp í gegnum heyið. Í sumum sýslum er það komið á nær því fjórða hvern bæ, en það eru líka til aðrar, þar sem ekki er komin nein súgþurrkun. Allir, sem reynt hafa, telja þetta vera langbeztu og langöruggustu heyverkunaraðferð, sem menn hafa. Þó er ekki hægt að setja í hana blautt hey, og í langvarandi óþurrkum, eiris og t.d. 1914, þegar ekki kom þurr dagur í Borgarfirði frá því 2. ágúst og þangað til eftir 15. september, þá er vitanlega ekki hægt að þurrka. Þó að svona súgþurrkun sé, verður að hafa aðrar aðferðir, þá verður að hafa votheyið. En þessi súgþurrkunaraðferð við þurrkun heysins þykir svo mikilsverð, að það var alveg sjálfsagt talið af öllum, sem hér komu, að taka það upp sem styrkhæft.

Styrkurinn er þó ekki mikill. Hann er miðaður við 5 kr. á fermetra í gólffleti, og lætur nærri, að hann sé í kringum helmingur af verði timbursins, sem þarf í sjálft gólfið. Bóndinn verður sjálfur að borga hinn helminginn, blásarann, leiðslurnar, mótorinn og sjálft verkið, vinnuna. Þetta ber þess vegna miklu fremur að skoða sem örvun til þess að leggja sig eftir að koma upp slíkri heyþurrkunaraðferð hjá sér en sem beinan styrk, því að um hann sem styrk munar tiltölulega mjög lítið.

Loksins var lagt til, að allir þessir styrkir, sem ég hef nú nefnt, verði borgaðir með 15% álagi og svo náttúrlega líka vísitöluálagi, eins og alltaf hefur verið. Það eru m.ö.o. lögð ofan á þá 15% sem viðbót.

Með þessu eru nú búnar allar þær breyt., sem eru á sjálfum l., en með l. voru bráðabirgðaákvæði, bráðabirgðaákvæði eiga að vera með þeim aftur, og þeim er breytt. Tvær af þeim breyt. eru nokkuð mikils verðar.

Önnur breytingin er sú, að það er lagt til, að hækkaður sé styrkur á handgrafna skurði, þó ekki nema þar, sem ekki er gerlegt af einhverjum ástæðum, annaðhvort af algerum vegleysum eða mikilli einangrun og lítilli vinnu, að koma skurðgröfu á staðnum. — Þá er lagt til, að styrkurinn sé hækkaður, og er hann hækkaður það mikið, að það verður að ætla, að duglegur maður geti með því að grafa skurðinn með handafli aflað sér álíka vinnulauna með framlagi ríkissjóðs, sem kemur árið eftir, eins og ef hann væri á Keflavíkurflugvelli, og þar með er tekin burt frá manninum sú hvöt að fara burt frá sínu heimili haust og vor til að reyna að vinna sér inn annars staðar, en honum gert mögulegt að vinna þarna að því að skapa framtíðartúnstæði og bæta jörð sína, ekki bara fyrir sig, því að það getur vel verið, að hann njóti þess stutt, heldur fyrir þá, sem seinna sitja jörðina.

Ég tel þetta ákvæði ákaflega mikils vert, líka af þeirri ástæðu, að þetta ákvæði minnkar eftirspurn eftir skurðgröfunum á þá staði, sem er hér um bil ómögulegt að koma þeim á. Þegar þær eiga að koma til bónda, sem býr einhvers staðar úti á einhverjum útkjálka, úti á einhverjum nesodda, t.d. í Barðastrandarsýslu eða austur í Borgarfirði, svo að ég sé í kjördæmum bæði mín og hæstv. forseta, þar sem ein jörð stendur úti á nesodda og kostar kannske á 3.–4. þús. kr. að koma þangað skurðgröfu eða það er varla hægt og bóndinn þar þarf að vinna þar með vélinni kannske 5, 6, 7 daga, og meira er ekki þar að gera í það skipti, þá náttúrlega er alveg ólíkt að hafa þá aðstöðu að geta bent bóndanum á: Þetta skaltu bara gera sjálfur. Þú færð álíka mikið borgað fyrir þína vinnu og þó að þú ynnir einhvers staðar utan heimilisins, og er því ómögulegt að verða við því að kosta til þín skurðgröfu til að gera þetta litla, sem hjá þér er. — En þetta hafa menn heimtað og hafa allir verið jafnréttháir og erfitt að standa þarna á móti, þó að það hafi verið reynt og reyndar gert, en þetta léttir ákaflega mikið að gera það.

Þá er fellt niður ákvæði, sem var í gömlu jarðræktarlögunum. Í gömlu jarðræktarl. var svokallaður túnþýfisstyrkur. Það er búið að framlengja hann hvað eftir annað, frá því að hann var settur inn í l., en hann var í því fólginn, að það var ákveðið, að til þess að slétta þýfið í túnunum og gera þau öll véltæk legði ríkissjóður fram miklu hærra framlag, 450 kr. á hektara, meira en helmingi hærra framlag en hann lagði fram til nýræktar. Þetta var náttúrlega aldrei réttmætt út af fyrir sig, því að það kostaði alltaf miklu minna að rækta land í túni en í óræktarlandi, en þetta hefur nú verið svo, og þetta ákvæði hefur staðið þangað til núna, og nú er túnþýfið mikið til búið. Nú eru túnin yfirleitt orðin slétt, og er því þessu ákvæði nú sleppt. Það var lögð á það ákaflega mikil áherzla af mér í fyrra að reyna að sjá um það, að menn legðu sig fram um að ljúka við að slétta túnin á þessu síðasta ári, sem aukaframlagið átti að gilda. Það var í fyrravetur, í marz, sem skrifað var í hvert einasta búnaðarfélag til að benda á, að þetta væri síðasta árið, sem þetta ákvæði stæði, og nú yrðu þeir að sýna rögg af sér og klára að slétta túnþýfið, því að hærri styrk til þess hefðu þeir ekki lengur. Þetta bar þann árangur, að það hefur líklega í ár verið sléttað töluvert meira en helmingi meira en nokkurt ár áður og jarðræktarstyrkurinn líka farið upp í 8.7 millj. kr., en var áætlaður 7.2 millj., en þýfið er líka að mestu horfið úr túnunum, og þess vegna er þetta ákvæði nú fellt úr l. Hins vegar eru enn þá nokkuð margar jarðir, því miður, sem eru ekki búnar að fá nándar nærri nógu stór tún.

Það má í raun og veru skipta jörðunum í þrennt núna: Í fyrsta lagi í einn hóp, sem hefur undir 5 ha. stórt tún. Það eru um tvö þúsund í þeim flokki, en af þeim eru aftur líklega dálítið á þriðja hundrað jarðir, þar sem sumir hafa enga aðstöðu til að rækta tún og sumir enga þörf fyrir að rækta tún, af því að þeir hafa svo gott og mikið áveituengi alveg heima hjá sér og alveg í kringum sig, sem er betra en túnið, og hafa ekkert þurrt land til að rækta tún á, nema þá að taka áveitulandið, sem þeir ekki vilja. Svo er annar hópur, sem er álíka stór og hefur á milli 5 og 10 ha. tún. Af þeim eru nokkrir komnir alveg upp að takmörkunum. Ég held það séu núna á sjötta hundrað bændur, sem hafa kringum 9 ha. tún og komast upp fyrir núna næstu tvö árin. Og svo er loks þriðji hópurinn, sem er álíka fjölmennur, og er kominn yfir 10 ha. túnstærð. Í honum eru nokkrir, sem eru komnir allt upp í 25 ha. og hafa orðið ágæt tún og ágæta aðstöðu til heyöflunar alla vega lagað. Með breytingunni er ýtt undir það, að þessir bændur, sem hafa minnstu túnin, stækki þau, með því að láta þau hafa 450 kr. grunnstyrk á ha. eða meira en hina, sem hafa stærri túnin. Með því er reynt að lyfta undir það, að þeir komist sem fyrst upp á að afla nægra og góðra heyja, en hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðarheildina, geta menn kannske bezt séð á því, að til eru bændur í þessu landi, sem framleiða sjálfir með konu sinni, — ég held, að mest innlegg frá einum bónda sjálfum með konu sinni hafi verið 72 þús. lítrar af mjólk í eitt mjólkurbú landsins s.l. ár. Sá bóndi hefur að vísu ekki nema um 30 kindur, en hjónin eru tvö ein með krakka um fermingu við búið. En til eru líka bú, sem hafa svo lélega aðstöðu til heyöflunar og til búrekstrar, að sami fólksfjöldi og á þessum bæ er að gutla við að heyja fyrir tveimur kúm og 30–40 kindum og lepur dauðann úr krákuskel. Bóndinn getur ekkert gert og ekkert aðhafzt. (Dómsmrh.: Hvað eru margar kýr á fyrri bænum.) Þær eru 29, held ég.

Þess vegna er það ekki bara fyrir bændurna, sem búa á þessum jörðum, heldur fyrir þjóðfélagið sem heild geysilega mikils virði að losna við lélegasta búskapinn ájörðunum,og það verður ekki gert betur með öðru en því að ýta duglega undir það, að aðstaða til heyöflunar og heyöflunin sjálf á þeim bæjum vaxi og batni.

Ég tel þetta nú eiginlega þungamiðjuna og það, sem mest er um vert af þessari breytingu, og skal viðurkenna það ákaflega fúslega, að mér þótti 350 kr. þarna of lágt, en öðrum fannst, að það væri ekki rétt að leggja meira á ríkið. Við sjáum nú á næstu árunum, hvað setur, hverju þær hafa áorkað samhliða með „agitasjón“ og útskýringum fyrir mönnum, hver nauðsyn sé á þessu. Ég vona, að það beri þann árangur, að við þurfum ekki að grípa til þess að hækka það, en fús skal ég verða til þess, ef það sést, að þessar jarðir koma ekki fljótlega til með að verða sambærilegar við hinar hvað framleiðslugetu snertir.

Ég vænti þess, að með þessu hafi ég lagt málið það ljóst fyrir, að menn hafi skilið, í hverju breytingarnar eru fólgnar, og vona, að menn geti orðið sammála n. um að samþykkja þær.