26.04.1955
Efri deild: 74. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

132. mál, jarðræktarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Sú brtt. við þetta frv., sem ég boðaði í gær, liggur nú fyrir á þskj. 642 og er þess efnis, að til ársloka þessa árs skuli þúfnasléttun í túni njóta 450 kr. framlags á hektara að. viðbættri verðlagsuppbót eins og verið hefur undanfarið, m.ö.o., að ákvæðið um þetta er framlengt aðeins um yfirstandandi ár.

Hv. 1. þm. N-M. (PZ) og formaður landbn. gaf upplýsingar hér í gær viðvíkjandi þessu um það, að bændur hefðu verið aðvaraðir um að hafa lokið því að slétta tún sín, ef þeir vildu fá styrk til þess, á s.l. ári. En eins og ég gat um í gær, þá er tilefnið til þessarar brtt. minnar það, að mér er beinlínis kunnugt um það, að það eru til bændur, sem ekki vöruðu sig neitt á þessu og vissu ekki um þetta, fyrr en þá að hv. 1. þm.

N-M. í útvarpserindi brýndi þetta fyrir bændum — ég held, að það hafi verið í ágúst í fyrra. En þá stóð yfir sláttur, og það eru a.m.k. til bændur, sem alls ekki gátu komið því við að fara þá að slétta það, sem eftir var að slétta af túninu, og þess vegna er það, að ég bar fram þessa till.

Á hinn bóginn geri ég ráð fyrir því, eins og hv. þm. líka vék að, að þessir bændur séu ákaflega fáir, og þess vegna er það, að ég geri ráð fyrir, að ríkissjóð muni ákaflega lítið um þetta. En á hinn bóginn getur þessa fáu einstaklinga munað um það að njóta þessa styrks.

Ef einhverjir trassa það nú enn að slétta túnin að fullu, þá ætla ég að heita því, þó að ég yrði hér á Alþ., að biðja þeim ekki oftar vægðar.