22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum og mælir eindregið með samþykkt þess. Þetta er svo mikið nauðsynja- og mannúðarmál, að einskis má láta ófreistað til að hraða framkvæmdum eins og unnt er.

Hæstv. heilbrmrh. kom á fund n. og skýrði frá því, að undirbúningur væri þegar hafinn að byggingu sjúkradeildar hér í Reykjavík fyrir þessa sjúklinga. Verður þess því væntanlega ekki langt að bíða úr þessu, að meðferð þeirra og lækning komist í viðunandi horf.

Samvinna áhugamanna og hins opinbera í heilbrigðis- og mannúðarmálum hefur gefizt vel, bæði hér og erlendis, og þykir því rétt að hafa í l. heimild til að styrkja félög áhugamanna, ef þau vilja stofna og reka lækningastöð í samráði við heilbrigðisstjórnina.

N. ræddi frv. einnig við landlækni, og taldi hann rétt að samþ. frv., en taldi þó óþarft að hafa heimildarákvæði frv. eins rúm og þau eru nú, þar sem varla kæmi til mála fyrst um sinn a.m.k., að slíkar deildir yrðu stofnaðar nema í Reykjavík og á Akureyri. N. taldi þó ekki rétt að breyta frv. af þeim sökum, slíkt verður, ef til kemur, hvort sem er varla gert nema í samvinnu við heilbrigðisstjórnina, enda varla um verulegan kostnað að ræða á öðrum stöðum. Það kæmi helzt til mála þar, að við stærstu sjúkrahúsin yrðu útbúin eitt eða tvö herbergi til þess að vista slíka sjúklinga til bráðabirgða.

Það virðist því réttara að halda þessari heimild, svo að hægt sé að gera slíka breytingu, þar sem reynslan sýnir að þörf er á því, án þess að breyta þurfi lögunum á ný.

Ég vil svo endurtaka það, að ég vil vænta þess, að þetta frv. verði samþykkt.