22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég heyrði ekki nema hluta af ræðu hv. siðasta ræðumanns, en ég heyrði það, að hann harmaði, hvað seint hefði gengið að uppfylla þau l., sem samin voru hér fyrir 5 árum í sambandi við að koma upp hælum fyrir drykkjusjúka menn. Samkvæmt þeim l. var gert ráð fyrir, að bæjarog sveitarfélög kæmu slíkum hælum upp. Þessi l. gerðu ráð fyrir, að það yrðu byggð mörg hæli, en allir, sem athuga þessi mál, hljóta að komast að raun um, að það er skynsamlegast að byggja eitt landshæli. Það hlýtur að verða á allan hátt ódýrara, bæði í stofnkostnaði og rekstri, og sem betur fer eru drykkjusjúklingar ekki svo margir hér á landi, að við þurfum á mörgum slíkum hælum að halda.

Ef það er rétt, að það sé hyggilegast að byggja eitt landshæli fyrir drykkjusjúka menn, hvar sem þeir eiga heima, hvort sem þeir eiga heima í Reykjavík, Akureyri, í öðrum kaupstöðum eða annars staðar á landinu, þá er um leið kippt öllum rökum undan því, að eitt bæjarfélag eigi að hafa forustu um að byggja slíkt hæli, og það er vegna þess, að þessi skoðun er rétt og að þessi skoðun er viðurkennd af öllum fjöldanum, að Reykjavíkurbær hefur ekki talið, að það væri rétt, að hann hefði forustu um að byggja slíkt hæli.

Ríkið rekur áfengisverzlun og græðir á því stórfé. Ríkíð hefur viðurkennt, að það beri að gera mikið til þess að útrýma drykkjuskapnum, m.a. með því að stofna gæzluvistarsjóð, þar sem tekinn er viss hluti af áfengisgróðanum og lagður í þennan sjóð. Ríkið hefur einnig stutt templara, sem vinna gegn drykkjuskap og eiga að gera það, og gæzluvistarsjóður hefur nú verið tekinn til notkunar, með því að komið hefur verið upp drykkjumannahæli í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Það er ekki enn liðið að vísu fullt ár síðan þetta hæli tók til starfa, en rekstur þess gefur góðar vonir, gefur þær vonir, að þetta hæli eigi fullan rétt á sér og að komizt verði yfir þá erfiðleika og þau sker, sem hin fyrri hæli strönduðu á, bæði í Kumbaravogi og Kaldaðarnesi. En þetta hæli er ekki byggt fyrir eingöngu drykkjusjúka menn, ekki þá, sem verst eru komnir, heldur fyrir hina, sem þarf að fjarlægja héðan úr Reykjavík og gætu verið vinnufærir undir góðri stjórn með því að bægja þeim frá drykkjuhneigðinni.

Í sambandi við hælið í Gunnarsholti hefur verið ákveðið að byggja viðbótarbyggingu og sérdeild á Kleppi, þar sem sjúklingar, sem fara austur að Gunnarsholti, verða teknir inn og verða þar í vikutíma, mánuð eða lengur, eftir því sem sérfróðir menn álíta að þörf sé á.

Ég legg til, að framkvæmd hefjist á þessu nú á þessu sumri og að þar verði pláss fyrir 14–20 menn, sem mætti að sumu leyti kalla sjúklinga, vegna þess að þeir verða lagðir þarna inn og síðan ákvarðað eftir vissan tíma, hvort þeir eru færir um að fara austur í Gunnarsholt eða hvort þeir skuli meðhöndlaðir áfram eins og sjúklingar.

Nú munu menn segja, að þrátt fyrir þetta vanti hæli fyrir drykkjusjúklinga, og þetta frv., sem við hér erum að ræða um á þskj. 387, gengur í þá átt, að reisa skuli slíkt hæli svo fljótt sem verða má. Ég geri ráð fyrir, að reynslan skeri úr því og reynslan verði sú, að svo fljótt sem verða má megi prjóna við, byggja við þessa deild, sem ráðgert er að byggja í sumar, og að þar verði þá endanlega reist þessi deild, sem ætluð er fyrir drykkjusjúklinga.

Sumir hafa fundið að því, að þetta væri á Kleppslóðinni, en það ætti að vera alveg ástæðulaust að finna að slíku. Þetta er alveg laust við geðveikrahælið á Kleppi, og það verður aldrei sagt um þá, sem verða lagðir inn á þessa deild, að þeir séu geðveikir, en það er það, sem margir hafa verið sérstaklega næmir fyrir.

Hitt er aftur á móti nauðsynlegt, að njóta þeirra sérfræðinga, sem starfa við þennan spítala, og það hlýtur að verða á allan hátt ódýrara að nota þeirra orku og þeirra sérþekkingu ásamt því hjúkrunarliði og öðrum starfskröftum, sem eru á hælinu, heldur en að byggja sérstakt sjúkrahús, þar sem þyrfti nýja lækna, nýtt hjúkrunarlið og nýtt starfslið að öllu leyti.

Það hefur því verið sameiginleg skoðun mín og landlæknis, að það bæri að byggja þessa deild í nánd við Klepp, svo að unnt væri að nota þá starfskrafta, sem þar eru fyrir. En ég á minn þátt í því, að orðalagið er á 1. gr. frv. eins og það er, að „það verði komið upp svo fljótt sem verða má“, því að þegar ætlazt er til, að gæzluvistarsjóður verði notaður í þetta, verður að gera sér grein fyrir því, að gjaldgeta hans er ekki ótakmörkuð. Og það verður að gera sér grein fyrir því, að það þarf e.t.v. að gera frekari ráðstafanir til tekjuöflunar gæzluvistarsjóði, til þess að hann geti innt af hendi það hlutverk, sem honum er ætlað, með því, sem þegar er byrjað á að gera, og með því, sem honum er þegar ætlað að vinna.

Þá er samkv. 2. gr. þessa frv. gefin heimild til þess að styrkja félög áhugamanna, en sú heimild er eingöngu á valdi ráðh., og hvort sú heimild verður notuð, hlýtur að fara eftir því, hversu miklu fé gæzluvistarsjóður hefur yfir að ráða, en ég tel ágætt að fá þessa heimild í lög, því að vissulega geta áhugamenn og félagsskapur þeirra gert mikið gagn og hafa gert mikið gagn í sambandi við baráttuna gegn drykkjuskapnum.

Ég vildi nú láta þetta koma fram hér sem skýringu á þessu máli, og ég held, að sú ásökun, sem hv. síðasti ræðumaður fór hér með áðan á hendur Reykjavíkurbæ,vegna þess að hann hefur ekki hafizt fyrr handa um byggingu slíks hælis, sé ekki á rökum reist, vegna þess að það getur ekki verið hlutverk eins bæjarfélags að byggja eða reka slíka stofnun eins og hér er um að ræða. Það hlýtur að vera hlutverk og verkefni þjóðfélagsins í heild að gera slíkt og að reka eitt landshæli, sem kostað er af landsmönnum í heild eða þá í þessu tilfelli gæzluvistarsjóði, og bera þeir þá kostnaðinn eingöngu uppi, sem kaupa áfengi úr áfengisverzluninni.