22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég þarf litlu við að bæta það, sem ég sagði, en hv. 1. landsk. endaði mál sitt með því að tala um, að það væru einmitt sjúkrahúsdeildirnar á spítölunum, sem ættu að taka á móti drykkjusjúkum mönnum til bráðabirgða, sem fyrst og fremst væri nú um deilt, og Reykjavíkurbær hefði vanrækt skyldu sína til þess að koma upp þessum sjúkrahúsdeildum í 5 ár. En ég geri ráð fyrir því, að menn sjái það án nokkurra frekari bollalegginga, að Reykjavíkurbær byggir ekki við ríkisspítalann Klepp eða landsspítalann öðruvísi en með samkomulagi við heilbrigðismálastjórnina. Reykjavíkurbær getur ekki sent vinnuflokka sína upp að landsspítalanum eða Kleppsspítalanum til þess að fara að byggja þar slíkar deildir. Það var þess vegna óhjákvæmilegt að hafa samkomulag um þessi mál eftir eldri lögunum við heilbrigðismálastjórnina, og á því strandaði vegna mismunandi skoðana sérfróðra manna, sem til voru kvaddir, og ýmissa frekari annmarka í viðhorfi heilbrigðismálastjórnarinnar, sem ég mun síðar láta koma í ljós.

En ég hygg, að þetta eitt sanni fullkomlega, hversu tilhæfulausar eru ásakanirnar í garð Reykjavíkurbæjar, að hann hafi vanrækt að byggja við þessa spítala, sem Reykjavíkurbæ vitaskuld var útilokað að koma í framkvæmd nema með samkomulagi við heilbrigðismálastjórnina.