28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls urðu nokkrar orðahnippingar á milli mín og hv. 1. landsk. þm. (GÞG) af því tilefni, að hann hafði í ræðu sinni hér mjög óviðurkvæmileg orð um afstöðu bæjarstjórnar Reykjavíkur til þessa máls og yfir höfuð afstöðu bæjarstjórnarinnar í sambandi við hæli og sjúkrahús fyrir ölvaða menn og drykkjusjúka. Ég taldi þessi ummæli óviðurkvæmileg og enda órökstudd og benti þá á nokkur atriði því til sönnunar, en sagði hins vegar, að ég mundi gera nánari grein fyrir því, hversu tilhæfulaus þessi ummæli væru, við 3. umr. þessa máls.

Það, sem hér liggur fyrir í þessu frv., er, að kostnaðurinn af því að koma upp sjúkrahúsum e$a sjúkrahúsdeildum í sambandi við meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra skuli greiðast úr gæzluvistarsjóði, en samkvæmt eldri ákvæðum átti kostnaður af þessu að skiptast milli ríkissjóðs og bæjarsjóðs, og var það eftir ákvæðum laga frá 1949, sem nú er verið að breyta, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Þeir sleggjudómar hafa verið felldir, að vegna þess að eftir að þau lög voru sett í gildi hafi ekki verið byggð af bæjarstjórn Reykjavíkur þau hæli, sem þar um ræðir, beri bæjarstjórnin sök á einhverju sleifarlagi í þessu sambandi. Heyrðist mér á hv. 1. landsk., að honum fyndist, að bæjarsjóðirnir eða sveitarsjóðirnir væru reyndar ekkert of góðir til þess að leggja af mörkum í þessu efni, en þar sem hér í Reykjavík væri við völd jafnáhugalaus bæjarstjórnarmeirihluti í þessu máli og raun bæri vitni, gæti hann eftir atvíkum sætt sig við að samþykkja þetta frv.

Um afstöðu bæjarstjórnar Reykjavíkur í þessum og skyldum málum vil ég taka fram umfram það, sem áður hefur komið fram af minni hálfu undir umræðum um þetta mál, eftirfarandi:

Árið 1948, svo að ekki sé lengra farið aftur í tímann, þ.e.a.s., áður en samþ. voru l. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, var gerð gangskör að því af hálfu bæjarstjórnar Reykjavíkur að koma upp hæli fyrir drykkjusjúka menn, sem hefðu þörf fyrir að vera þar til langdvalar. Sérfróðir menn undir forustu borgarlæknis athuguðu þá þetta mál að tilhlutan borgarstjóra og bæjarstjórnar, og var þá sérstaklega, eftir að ýmsar aðrar athuganir höfðu farið fram, athuguð gaumgæfilega aðstaðan til þess að koma slíku hæli upp með því að kaupa jarðir eða jörð á Snæfellsnesi og byggja þar hæll fyrir drykkjusjúklinga til langdvalar. Sú jörð, sem þar leizt álitlegust í augum þessara manna, var Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi, og voru gerðar ákveðnar till. um það til bæjarstjórnar af hálfu þessara sérfróðu manna. Hins vegar — og þar komum við varðandi þessa deild sjúkrahúsanna að kjarna þessa máls — varð ekki af hálfu bæjarstjórnar í þetta ráðizt nema í samráði við og með samþykki heilbrigðismálastjórnarinnar, landlæknis og heilbrmrh., því að hér átti að fara saman greiðsla kostnaðar af hálfu bæjarsjóðs og ríkissjóðs. Samkomulag um þetta atriði náðist ekki, og voru uppi ýmsar aðrar till. af hálfu beilbrigðismálastjórnarinnar, eins og ég minntist á í fyrri ræðu minni í þessu máli, m.a. að staðsetja þetta hæli í Engey, sem bæjarstjórnin gat fyrir sitt leyti engan veginn fallizt á. Framkvæmd þessa máls féll þannig niður, að koma þessu hæli upp á mjög heppilegum stað, að því er sérfróðir menn, sem kvaddir höfðu verið til þess að láta uppi álit sitt af hálfu Reykjavíkurbæjar, töldu, sem var Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi, og féllu niður allar framkvæmdir í sambandi við hana. Síðar skaut þessu máli upp í ýmsum öðrum myndum, og var m.a. freistað af hálfu bæjarstjórnar að koma upp þessu hæll með kaupum á Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Ég hygg, að enginn ágreiningur hafi verið um það mál milli heilbrigðisstjórnarinnar og borgarstjóra, en ágreiningur var um það innan bæjarstjórnarinnar, sem sérstaklega stóð í sambandi við það, hvort hagkvæmt væri að kaupa þessa jörð og hvort hún byðist með nógu góðum kjörum.

Um þetta leyti var gæzluvistarsjóður, sem stofnaður hafði verið með lögum 1949 og myndaður er af ágóða af áfengisverzluninni, orðinn um 3 millj. kr. Þessir peningar voru í sjóði og höfðu ekki verið hagnýttir á einn eða annan hátt. Borgarstjóri bar því fram á Alþ. 1952 frv. til l. um breyt. á l. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, sem stefndi að því, að gæzluvistarsjóði skyldi varið til þess að koma upp slíku hæli eins og ég nú hef gert að umræðuefni fyrir drykkjusjúklinga til langdvalar. Það frv. náði ekki á því þingi fram að ganga, en var aftur af hálfu borgarstjóra flutt á þingi 1953 og varð þá að lögum. Þar með var það komið á ríkissjóð einan að greiða stofnkostnað og rekstrarkostnað af þessu hæli, og þar með var úr sögunni, að ágreiningur á milli bæjarstjórnarvalda og heilbrigðismálastjórnar ríkisins gæti orðið þessu máli ásteytingarsteinn, eins og verið hafði, og hefur núverandi heilbrmrh. tekið röggsamlega á þessu máli og með tilstuðlan ýmissa góðra manna komið því í höfn, að nú er komið upp þetta hæli, sem áður hafði verið svo lengi um deilt og ekki komizt í framkvæmd af þeim sökum, sem ég hef nú gert grein fyrir.

En ágreiningur og deilur milli bæjarstjórnarvalda og heilbrigðismálastjórnar voru á fleiri sviðum en þessu. Í marzmánuði 1952 fól bæjarstjórnin borgarlækninum í Reykjavík og Alfreð Gíslasyni, sérfræðingi í þessum málum, sem hafði mikið um þessi áfengisvandamál fjallað, að gefa bæjarstjórninni eða bæjarráði álitsgerð í sambandi við það, hvernig haganlegast mætti fyrir koma þessum málum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, og m.a. og fyrst og fremst vegna þess, að bæjarstjórnin hafði áhyggjur af því, að málunum miðaði ekki áfram innan þess ramma, sem lög þá ákváðu, og átti bæjarstjórnin stöðugt í ágreiningi við heilbrigðisstjórnina um framkvæmd málanna.

Ég vil leyfa mér að vitna aðeins til nokkurra meginatriða í þeirri álitsgerð, sem þessir aðilar, borgarlæknirinn og sérfræðingur í taugasjúkdómum, Alfreð Gíslason, gáfu bæjarstjórninni árið 1952. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í læknismeðferð drykkjusjúklinga hefur meir og meir gætt tilhneigingar til að láta þá ekki fyrr en í síðustu lög dveljast langtímum saman á hælum. Sú meðferð þykir ekki hafa reynzt vel og hefur þá augljósu ókosti að vera þjóðfélaginu kostnaðarsöm og sjúklingunum óþægileg vegna frelsisskerðingarinnar. Þá mun það nú almennt viðurkennt, að geðveikrahæli sé ekki heppilegur vettvangur til meðferðar á þessum sjúklingum, fyrst og fremst vegna rótgróinnar andúðar fólks á dvöl í slíkum hælum. Þótt slík andúð sé ekki skynsamleg, er hún engu að síður rík í huga almennings og verður naumast upprætt í náinni framtið. Þetta er staðreynd, sem verður að taka tillit til, þegar ráðstafanir til drykkjumannahjálpar eru gerðar.

Viðleitnin hefur á síðari tímum beinzt meir og meir að því að hefta sem minnst frjálsræði drykkjusjúklinganna meðan á læknismeðferð stendur. Er þeim þá veitt læknisleg og félagsleg hjálp í sérstökum stöðvum, sem þeir leita til reglubundið eftir læknisákvörðun hverju sinni.

Kostir þessarar meðferðar eru þeir, að drykkjusjúklingurinn er áfram í sínu umhverfi og við sitt starf og við þær freistingar, sem jafnan eru því samfara að koma á ný út í lífið að langri hælisvist lokinni. Auk þess er meðferð þessi mun ódýrari en hælisvistin.

Í mörgum tilfellum verður þó ekki hjá því komizt að taka sjúklingana úr sínu venjulega umhverfi til athugunar og lækninga, og eru þeir þá lagðir í sjúkrahús, en dvölin þar höfð sem stytzt, venjulega aðeins nokkrar vikur. Þar, sem ekki er sérstök taugadeild í sambandi við spítala, þykir engin frágangssök að veita þessa hjálp í almennu sjúkrahúsi.

Þá er erlendum sérfræðingum það og ljóst, að ekki verður komizt hjá að hafa hæli fyrir þá drykkjumenn, sem dýpst eru sokknir. Erlendis eins og hér verður viss hópur slíkra manna stöðugir gestir í lögreglustöðvum og í réttarsölum. Eru það menn, sem hafa gefið upp allt starf, eiga sér hvergi athvarf, en lifa fyrir það eitt að drekka. Að sjálfsögðu eiga þessir menn eins og aðrir að fá fullkomna læknis- og félagsaðstoð, eins og að framan greinir, en reynist allt árangurslaust, ber þjóðfélaginu sjálfs sín og drykkjusjúklinganna vegna að koma þeim fyrir í viðeigandi hæli. Yrði þar um langdvöl að ræða.“

Hér er fjallað um tvær tegundir hæla, annars vegar fyrir drykkjusjúklinga til langdvalar, og það er sú tegund hæla, sem ég vék að í upphafi, og hins vegar sjúkrahúsdeildir fyrir drykkjusjúklinga, sem eiga að dvelja um skemmri tíma þar, og það er einmitt um það hæli, sem það frv. fjallar, sem nú er hér til meðferðar.

En eftir þetta fella þessir sérfræðingar um þessi atriði eftirfarandi dóm:

„Í samræmi við framangreindan skilning eru till. okkar sem nú skal skýrt.“ Og koma þær á eftir. En niðurstöðurnar eru: „Við teljum, að heppileg lausn fáist ekki innan ramma gildandi laga, og eru till. okkar því samdar án tillits til þeirra.“ Sérfróðir menn, sem bæjarstjórn kvaddi til fyrri hluta árs 1952, slógu því föstu, að þeir teldu, að það væri ekki hægt að fá heppilega lausn þessara mála innan ramma gildandi laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, og miðuðu sínar till. við bæjarstjórn á þeim forsendum eðlilega. Hér má segja, eins og ég hef áður vikið að, að sé að leita orsakanna til þess, að þessum málum hefur ekki skilað lengra áleiðis en raun ber vitni, en það eru órökstuddir sleggjudómar, að bæjarstjórn Reykjavíkur hafi ekki sýnt þessu máli fyllsta áhuga.

Í till. sínum lögðu þessir sérfræðingar til þrennt: að komið yrði upp hjálparstöð fyrir drykkjusjúklinga eins fljótt og unnt yrði, að séð yrði fyrir sjúkrarúmum handa öllum drykkjusjúklingum, sem sjúkrahúsmeðferðar þarfnast, og að vinnuhæli fyrir drykkjusjúklinga verði sett á stofn hið bráðasta. Það þriðja hefur verið gert af hálfu ríkisins, eftir að ákveðið var, að ríkið skyldi kosta það og reka með gæzluvistarsjóði. Reykjavíkurbær hefur komið upp og rekið tvö undanfarin ár hjálparstöð fyrir drykkjusjúklinga í sambandi við heilsuverndarstöð Reykjavíkur, og hefur þar verið unnið að því að framkvæma annað atriðið, að sjá þessum sjúklingum fyrir sjúkrarúmum á fleiri en einu sjúkrahúsi í þessum bæ. En meginefni málsins er það, að samkv. l. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra er þeim málum skipað þannig, að geðveikrahælið á Kleppi á að hafa með höndum yfirumsjón með gæzlu drykkjusjúkra manna þeim til umönnunar og lækningar samkv. ákvæðum laga þessara, en þar byrjaði ágreiningurinn milli bæjaryfirvalda og heilbrigðisyfirvalda. Nú skal ég ekki blanda mér í þann ágreining, en ég vænti þess, að hv. þm. skilji, að þegar þeir sérfróðu menn, sem bæjarstjórnin kveður til, leggja til, að þessum málum sé hagað með allt öðrum hætti en gildandi lög ákveða, þá er ekki eðlilegt, að bæjarstjórnin að rannsökuðu máli vilji fara þá leið, sem er gagnstæð þeirri álitsgerð, sem sérfræðingar hennar lögðu til. Þetta snertir engan veginn neina baráttu við Helga Tómasson, forstöðumann ríkisspítalans á Kleppi, eins og hv. 1. landsk. vildi svo ósmekklega gefa í skyn hér, heldur var þessum málum með lögum skipað á allt annan veg en bæjarstjórn að athuguðu máli taldi eðlilegt.

Nú er það hins vegar svo, að þegar 1953 er ákveðið, að ríkissjóður skuli bæði bera stofnkostnað og rekstrarkostnað af drykkjumannahæli fyrir þá, sem ætluðu að dvelja þar til langdvalar, þá getur ríkisvaldið farið eitt sínar götur og þarf engan um að spyrja og leitar ekki álits bæjarstjórnar Reykjavíkur um það. Og þegar nú er lagt til hér, að gæzluvistarsjóður beri stofnkostnað og rekstrarkostnað af sjúkradeildum fyrir drykkjusjúklinga til skemmri tíma, þá er málið þar á eftir í höndum heilbrigðisstjórnarinnar einnar og við engan annan að sakast um það. Þar fyrir er það ekki öruggt í þessu máli, að sú ákjósanlegasta leið verði farin. En einhverja lausn verður að finna á þessu máli, og það er óviðunandi, að það liggi í láginni vegna ágreinings, t.d., eins og ég hef vikið að, á milli bæjarstjórnaryfirvalda annars vegar og ríkisstjórnarvalda hins vegar. Varðandi einmitt þá sjúkradeild, sem hér hefur verið ágreiningur um, þá er bæjarstjórn sannarlega vorkunn af sinni hálfu, eins og ég hef sagt áður; ekki gat bæjarstjórnin farið að byggja við ríkisspítalana, hvorki á Kleppi né landsspítalann, nema með samþykki ríkisstjórnarvalda. En það var enn, að menn, sem bæjarstjórnin hafði kvatt til og ættu að geta haft aðstöðu til að meta þetta mál af skilningi, lögreglustjóri og sakadómari, studdu það álit hinna læknisfróðu manna, sem bæjarstjórn hafði leitað til, að það væri mjög óráðlegt að tengja slíka sjúkradeild fyrir drykkjusjúka menn til skemmri tíma við Kleppsspítalann eða geðveiki.

Eins og ég sagði áðan, þá skal ég ekki kveða upp neinn dóm um þessa deilu, en hún hefur fyrst og fremst orðið því til hindrunar, að þessi deild hafi komizt upp. Í sambandi við ráðagerðir heilbrigðisstjórnarinnar núna um að koma upp þessari sjúkradeild á Kleppi er enn uppi sami ágreiningur um það, og er mér kunnugt um, að læknar hafa aðvarað heilbrigðisstjórnina um það. En eftir að hún fær þetta mál til meðferðar, þá er það hennar mál eitt úr því, og væntanlega greiðir hún þá fram úr því á þann hátt, sem hún telur hæfastan og beztan.

Niðurstöðurnar í þessu máli ættu, held ég, að liggja ljóst fyrir af því, sem ég nú hef gert grein fyrir. Bæjarstjórnin hefur fyrir sitt leyti bæði í þessum málum og öðrum varðandi meðferð drykkjusjúkra manna gert ýmsar ráðstafanir þeim til aðstoðar og leitazt við að koma í framkvæmd öðrum málum, sem hins vegar hafa strandað á mjög djúptækum ágreiningi á milli sérfróðra manna um meðferð þessara mála. Ég vil hins vegar, eins og ég sagði áðan, án þess að taka nokkra afstöðu til þessa ágreinings, leyfa mér að mega vænta þess, að sú leið, sem nú verður væntanlega farin undir forustu og eingöngu á ábyrgð heilbrigðisstjórnarinnar, megi leiða til góðs í þessu máli og verða til þess að greiða úr því þjóðfélagslega vandamáli og böli, sem hér er um að ræða. En hitt er ekki ástæða til, að það sé ómótmælt algerlega órökstuddum og tilhæfulausum sleggjudómum hv. þm. um kæruleysi bæjarstjórnar höfuðstaðarins í slíku máli sem þessu.