28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv. 11. landsk. endaði sína ágætu ræðu með því að segja, að það væri ekki eðlilegt, að tveir ráðherrar færu að hlaupa fram fyrir skjöldu, þó að þeir væru æstir upp í einhverja vitleysu af einhverjum áhlaupahörðum mönnum suður í Kópavogshreppi. Ég tek þessum ummælum mjög rólega. En mér verður á, líka af því að ég sé, við hliðina á hverjum hann situr núna, að beina því til hv. 11. landsk. að vera ekki að hlaupa hér fram fyrir skjöldu, þó að einhverjir æstir stjórnmálamenn suður í Kópavogshreppi sendi hann út af örkinni. Að öðru leyti get ég tekið undir það með honum, að það má náttúrlega teygja fram og aftur léleg rök og gera úr þeim mikið mál. Hans ræða sannaði, að þetta er hægt. Hann hélt hér áferðarlaglega ræðu á móti staðreyndunum. Það mælir með honum sem ræðumanni, en síður sem manni, og er ég þó ekkert að deila á hans innræti, líka af því að ég sé nú ekki alveg í gegnum hann frekar en aðra.

Hitt er svo kjarni málsins, að þessi hv. þm. lýsir því hér æ ofan í æ, að ef lægi fyrir vilji kjósenda í hreppnum, þá heri að fara eftir honum. Hann sagði að sönnu í lok sinnar ræðu: Ef hreppsnefndin hefði mælt með þessu, ef sýslunefndin hefði mælt með þessu og ef kjósendur hefðu mælt með þessu, þá bæri að gera það. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég er það lengra kominn á lýðræðisbrautinni en það, að ég leyfi mér að halda mig að því, að ef kjósendur vilja þetta, þá ber að fara eftir því, án hliðsjónar af því, hvort sú hreppsnefnd, sem skipuð er einlitum valdhöfum í dag, vill þetta eða vill það ekki. Það er að sínu leyti eins og að ríkisstj. Íslands bæri að beygja sig, ef fyrir lægi ákveðinn vilji þjóðarinnar, og er hún þó ekki einlit, eins og allir vita. Ég get þess vegna í raun og veru leitt allt annað hjá mér af hans staðhæfingum í umræðunum en þessa einu, hvort fyrir liggi vilji kjósendanna, af því að ég hef hans ummæli um það, að ef þessi vilji liggi fyrir, þá sé eðlilegt, að þingið fari eftir honum.

Ég vil þó aðeins leiðrétta það, sem hann sagði, að það er náttúrlega ekki nákvæmlega frá skýrt, svo að ég orði það ekki sterkara, að sýslunefnd Kjósarsýslu hafi ekkert um þetta mál sagt og sízt nokkuð því til meðmæla. Sýslunefndin hefur nefnilega lýst yfir alveg sama vilja sínum, sömu skoðun sinni og hv. ræðumaður gerði, að ef liggi fyrir ótvíræður vilji kjósenda, þá beri að fara eftir honum. Auk þess hefur sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu látið í té sínar umsagnir, mjög skýrar og ótvíræðar, og hann ætti nú að vera manna kunnugastur þessu máli, ásamt oddvita í Kópavogshreppi, og hann leggur mjög eindregið með því, að þessi skipting fari fram, og færir fyrir því einmitt þau rök, sem ég áðan var að geta um, hversu örðugt sé að stjórna þessum fjölmenna hreppi undir þeirri skipan, sem nú ríkir. Ég hef séð, að einhver hafi verið að hæla honum mjög fyrir það — ég held í sjálfstæðisblöðunum hversu óeigingjarn hann væri í samanburði við oddvitann í Kópavogshreppi: Annar vildi endilega losna við tekjur, sem hann hafði af þessum hreppi, en hinn halda dauðahaldi í sínar. Mér varð nú á að brosa, eins og þar stendur, því að ég hygg, að sá ágæti sýslumaður — og ég vil ekkert illt um hann segja fjarverandi — losni kannske við einhverja fyrirhöfn um leið, að sínu leyti eins og oddvitinn í Kópavogshreppi mundi losna við ærna fyrirhöfn, ef hann væri leystur frá því vandasama starfi, sem á hans herðum hvílir, og dregur það enginn í efa, að hann hefur nægum öðrum störfum að gegna, ef hann vill gefa sig að því, bæði vegna hæfileika sinna og starfsorku.

En ég kem þá aftur að því, sem hv. ræðumaður sagði að væri aðalatriðið í þessu máli. Hann staðhæfði nú, að mínar upplýsingar um það, að 760 kjósendur eða 760 kosningabærir menn hefðu lýst sínum vilja, væru fjarri því að vera óyggjandi. Um það veit ég ekki annað en það, að félmrn. hafa borizt þessi skjöl, og mér hefur verið tilkynnt, að hér væri eingöngu um kosningabæra að ræða. Ég veit ekkert um þetta blessaða barn, sem hefur afvegaleiðzt inn á þessar hálu villigötur, og eins og ég skaut fram hér, þá þykir mér líklegt, að það sé afi drengsins eða amma telpunnar, sem hv. þm. var að tala um, en um það þori ég ekkert að fullyrða.

Hv. þm. upplýsti hins vegar, að nú væru á kjörskrá 1315 menn. Ég hef ekki getað fengið um það upplýsingar fyrr, m.a. af því, að mér hefur verið tjáð, að kjörskráin hefði ekki legið fyrir. Ég hygg, að hún eigi að liggja fyrir í febrúar árlega, og til skamms tíma lá hún áreiðanlega ekki fyrir. Hitt er staðreynd, að við kosningarnar í febrúar 1954 voru 1144 menn á kjörskrá. En nú skulum við miða við, að það væru 1144 á kjörskrá og að það væru 234 nöfn af þessum 760, sem þar ættu ekki að vera. Við skulum hugsa okkur þennan möguleika. Hvað kemur út úr því? 760 að frádregnum 234 eru hvað? 526 nöfn. Segjum svo, að 90% af þeim 1144, sem á kjörskrá eru taldir, hefðu kosið við leynilegar kosningar, þá hefðu kosið 1030 menn. Helmingurinn af þeim eru 515 menn. Þó að við vildum leggja þessar tölur til grundvallar, þá hefðu 526 menn lýst skriflega vilja sínum, en 90% af þeim, sem ætla má mest að mundu kjósa, eru þó ekki nema 515. Ég á svo eftír að fá það upplýst og dettur auðvitað ekki í hug að trúa því eitt augnablik, að það séu réttar tölur, sem hv. þm. fer með í þessum efnum. Mér dettur ekki í hug eitt augnablik að trúa því, að af 760 nöfnum, sem þarna eru skráð og jafnmætir menn og þeir, er þarna eiga hlut að máli, senda félmrn. yfirlýsingu um að þeir hafi kjöraldur til að kjósa í Kópavogshreppi, hafi 234 ekki rétt til að kjósa í Kópavogshreppi í dag.

Ég held, að þessu máli megi velta nokkuð lengi fyrir sér, án þess að menn geti komizt að þeirri niðurstöðu, að leyfilegt sé að vefengja, að þessi 760 manna listi sé vilji meiri hluta kjósendanna. Ég hef ekkert meiri ástæðu til þess að byggja á þeim tölum, að í dag séu 1315 á kjörskrá, sem hefur verið haldið sem fullkomnu leyndarmáli fram á síðustu stundu, heldur en á þeim tölum, sem ég hef fengið frá mönnunum, sem beita sér fyrir þessu máli. Ég hef þvert á móti fulla ástæðu til að trúa þeim skjölum, sem fram eru komin í þessum efnum, og þeim verða þingmenn að trúa, þar til annað er upplýst. Og það er ekki nema eðlilegt, að sú n., sem um þetta fjallar, kynni sér þá hlið málsins. En þá vil ég líka, að hún taki öllum eðlilegum afleiðingum og segi, að ef fyrir liggur vilji meiri hluta kjósenda eða vilji, sem er ástæða til að ætla að sé meiri hluti kjósenda, þá skuli eftir því farið. (Gripið fram í.) Ég spyr nú þennan hv. þm., sem hefur nú Kópavog sér á hægri hönd: Er það rétt hjá mér eða er það rangt, að kjörskráin hafi ekki legið frammi fyrr en þá alveg síðustu daga? (Gripið fram í.) Já, ég ætlast ekki til, að þessi maður segi það með bundið fyrir munninn, heldur tali hann meðan ég þegi og upplýsi það. — Ja, það stendur kannske í fleirum að upplýsa, hvenær kjörskráin var lögð fram.

Ég vil svo að öðru leyti segja þessum hv. þm. það, og hann er nú búinn að vera nægilega lengi á þingi til að eiga að vita það alveg hjálparlaust, að það er náttúrlega engin goðgá, þó að þingmenn og sízt þingmaður hlutaðeigandi kjördæmis verði við óskum sinna kjósenda. Við skulum alveg viðurkenna það, ef hann vill heldur þann hátt á hafa, að það sé ekki næg málsmeðferð, að þrjú stjórnmálafélög eða stjórnmálafélög þriggja flokka í hreppnum hafi lýst vilja sínum. Ég bendi þó á það, að að baki þeim flokkum, sem hafa lýst þessum vilja, stendur meiri hluti kjósenda frá síðustu kosningum. Má ég minna hv. þm. á það, þegar hann fer að tala á eftir, að að baki þeim flokkum, sem lýstu þessum vilja, stendur meiri hluti kjósenda í hreppnum? En í öðru lagi taka sig fram um það, segjum fyrir atbeina forustumanna þessara flokka, 760 menn að senda félmrn. áskorunarskjal þessum vilja til staðfestingar. Ég tel ekki, að maður, sem hefur átt þetta langa þingsetu, hafi ástæðu til að ráðast að einstökum þingmönnum fyrir það, að þeir gerist boðberar slíks vilja frá kjósendunum, sem biðja um, að sínum vilja sé fullnægt, inn á Alþingi, sem er fært um að fullnægja viljanum og eitt er fært um það.

Ég vil, að það liggi alveg ljóst fyrir í fyrsta lagi, að það hefur verið undir örðugan að sækja, þar sem er hreppsnefndin. Meiri hluti hreppsnefndar hefur jafnan trássazt við að kalla saman fundi þrátt fyrir áskoranir. Þessi meiri hluti tilheyrir einum flokki, og það hefur verið örðugt að koma fram sínum vilja gagnvart vilja hans. Í öðru lagi hefur sýslunefndin mælt með þessari skiptingu, að fullnægðum vissum skilyrðum. Í þriðja lagi: Þeim skilyrðum er fullnægt. Og ég vil svo bæta því við í fjórða lagi, að ég vil ekki þurfa að heyra það frá manni, nema hann vilji viðurkenna, að hann sé þá ekki á þingi í anda þess lýðræðis, sem stjórnarskrá Íslendinga gerir ráð fyrir, að það sé einhver goðgá, þó að þingmaður kjördæmis flytji inn á Alþ. vilja sinna kjósenda.

Ég skal svo enn upplýsa, að um þetta mál hafa verið haldnir nýverið tveir opinberir fundir í Kópavogi, sem allir kjósendur hafa átt aðgang að. Á öðrum fundinum, en fyrir honum beittu sér þeir menn, sem staðið hafa að því að beina beiðnunum til flutningsmanna þessa frv., var borin fram till. um skiptinguna, og hún var þar samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Af vissum aðilum í Kópavogi var þessi vilji vefengdur. Og til þess að staðfesta þá vefengingu var annar fundur haldinn í Kópavogi í gær, áreiðanlega af mönnum, sem hefðu þegið að fá gagnstæða yfirlýsingu á sínum fundi. En þeir báru ekki fram neina uppástungu um það. Hvers vegna? Vegna þess að þeim var ljóst, að slík till. hefði ekki verið samþykkt. Það eru þess vegna margar bendingar og það eru líka margar sannanir fyrir því, að kjósendur í þessum hreppi vilja, að þetta frv. verði ekki aðeins flutt, heldur líka samþykkt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en það er ákaflega táknrænt, að þegar þrír umboðsmenn lýðræðisflokkanna hér bera fram frv. um að fullnægja vilja meiri hluta kjósenda í þessum hreppi, þá er það talin goðgá og sæmst að taka frv. aftur og farið um það háðulegum orðum á marga lund. Það er ákaflega eftirtektarvert og sýnir bara, hvaða hugsunarháttur liggur þar til grundvallar. Það er ekki viljinn til þess að fullnægja óskum kjósendanna, heldur til þess að tryggja það, að sá meiri hluti, sem nú er í Kópavogi, geti verið þar áfram meiri hluti. (EOl: En þora lýðræðisflokkarnir ekki að leggja þetta undir leynilega atkvgr., sem er nú fyrir mælt í stjórnarskránni og kosningalögum?) Ég held, að það sé beztur úrskurður um raunverulegan vilja fólksins að lofa því að greiða atkv. opinberlega, og það er það búið að gera. (Gripið fram í.) Hvor er að tala, þessi angurgapi, sem aldrei getur haldið sér saman, eða ég? (Gripið fram í.) Hvor okkar er að tala? Ég get auðvitað brýnt röddina, svo að það heyrist ekki í honum, ef það er það, sem menn vilja hafa hér á þingi, en ég vona, að hann fái þá a.m.k. einhverjar lýsingar í Þjóðviljanum á morgun um það, að það hafi ekki verið hægt að halda ræðu um lýðræði á Íslandi fyrir gasprinu í honum.