04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Í grg. fyrir frv. því, er hér er til umr., segir, að það sé flutt samkvæmt beiðni flokksfélaga Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. í Kópavogshreppi. Alþingi hefur á undanförnum nokkrum árum samþykkt l. um bæjarstjórnir í einstökum kauptúnum, sem þess hafa óskað, en þetta er í fyrsta sinn, sem slíkt frv. hefur verið flutt samkvæmt beiðni pólitísku flokkanna, og er það í fyllsta máta athyglisvert, þegar málið er nánar athugað og orsakir, sem til þess liggja, að þetta frv. er flutt. Öll slík frumvörp hafa hingað til verið flutt samkvæmt einhuga ósk viðkomandi sveitarstjórna. Þá hefur jafnan einnig verið upplýst, að á bak við þá ósk stæði einhuga vilji íbúanna á staðnum. Þá hafa enn fremur alltaf fylgt slíkum frv. meðmæli sýslunefnda þeirra, sem hlut hafa átt að máli, þar sem þau kauptún, sem átt hefur að gera að kaupstöðum, ganga út úr sýslufélagi því, sem þau hafa áður verið í, á meðan þau voru kauptúnahreppur.

Við lestur grg. frv. sér maður, að ekkert af áðurnefndum skilyrðum liggur fyrir í þessu máli um Kópavogshrepp. Það, að þessum sjálfsögðu skilyrðum hefur ekki verið fullnægt, ætti að vera nægjanleg ástæða fyrir því, að frv. hljóti ekki samþykki Alþ. a.m.k. fyrst um sinn.

Ég tel rétt að athuga nánar, hvernig undirbúningi hefur verið háttað og hagað í sambandi við þetta mál.

Þá kemur fyrst til: Voru kaupstaðarréttindin fyrir Kópavogshrepp dagskrármál við síðustu hreppsnefndarkosningar? Var mikið rætt og mikið skrifað um þetta mál í blöðin, bæði hér og þau blöð, sem kunna að hafa verið gefin út í þessu sveitarfélagi? Nei, ég held, að það hafi ekki verið gert. Ég held, að ekki einn einasti frambjóðandi til sveitarstjórnarkosningar í Kópavogshreppi á s.l. vetri hafi á fundum eða í blaðaskrifum minnzt einu orði á þetta atriði.

Kosningar til sveitarstjórnar í Kópavogshreppi urðu mjög sögulegar. Lögum samkvæmt skyldu kosningarnar fara fram síðasta sunnudag í janúar eins og annars staðar, nema í smæstu sveitarfélögunum. Vegna deilu um merkingu á framboðslista var kosningunum frestað til 14. febr. Merking lista eftir bókstöfum var þó, eftir því sem mér er tjáð, í engu frábrugðin því, sem víða annars staðar hafði verið látið óátalið.

Þegar kosningunum var lokið og atkvæði höfðu verið talin, kom í ljós, að fyrrverandi meiri hluti í hreppnum hélt velli. Vitanlega var það mikið deilumál, hver ætti að fara með stjórn sveitarfélagsins, eins og víða vill vera. Nú voru góð ráð dýr. Við nánari athugun kom í ljós, að tvö atkvæði, greidd úti í Ameríku undir umsjón einhvers ræðismanns þar, í tilteknum bæ, höfðu ekki fylgt settum reglum um utankjörstaðaratkvæði. Þessi vanræksla var nú notuð til þess samkvæmt kröfu og kæru andstöðuflokks eða flokka meiri hlutans að kæra kosningarnar. Það var úrskurðaður sérstakur setudómari í málið, sem í nafni laga og réttar úrskurðaði kosningarnar í Kópavogshreppi ólöglegar og fyrirskipaði, að fram skyldu fara nýjar kosningar í hreppnum. Forsendur fyrir ógildingu kosninganna mun ég ekki gera frekar að umræðuefni sérstaklega, þó mun mörgum hafa fundizt, að rökin fyrir ógildingu kosninganna hafi verið alllangt sótt og orkað tvímælis.

Hinn 16. maí fóru svo síðari kosningarnar fram. Eins og að líkum lætur, voru þær kosningar og allur undirbúningur í sambandi við þær sótt af hinu mesta kappi af andstæðingum fyrrverandi og núverandi meiri hluta hreppsnefndar Kópavogshrepps. Flest mun hafa verið dregið fram í dagsljósið, sem verða mætti til fylgisauka fyrir þá flokka, sem andstæðir voru meiri hlutanum. Ekkert var sparað til að leiða kjósendur í Kópavogshreppi í allan sannleika. En eitt mál var þó, sem aldrei var minnzt á, og það var, að nauðsyn bæri til þess, að Kópavogshreppur fengi sérstök kaupstaðarréttindi.

Þetta er mjög athyglisvert í málinu. Hvernig gat staðið á því, að þeir menn, sem nú krefjast þess, að samþ. verði lög á Alþingi um kaupstaðarréttindi til handa þessu sveitarfélagi, skyldu aldrei — ekki í eitt einasta skipti minnast á það mál í sambandi við ekki einar, heldur tvennar kosningar? Sá kosningaundirbúningur hefur aldrei staðið skemur en frá því síðast í nóvember og þar til seinni kosningunum lauk 16. maí; þennan tíma var ekki minnzt einu orði á nauðsyn þess að gera sveitarfélagið að sérstökum bæ.

Hvað hefur gerzt í Kópavogshreppi frá því í maí s.l., sem gerir slíkar breytingar nauðsynlegar að dómi þeirra þriggja flokka, sem að þessu frv. standa? Að mínum dómi hefur ekkert gerzt, svo að vitað sé, annað en það, að fyrrverandi meiri hluti hélt velli í kosningunum. Ég held, að það sé aðalatriðið. Þeim úrslitum vilja þessir flokkar ekki una. Af þeim ástæðum og þeim einum er frv. nú fram komið hér á Alþingi. Þetta frv. er ekki flutt að tilhlutan hreppsnefndarinnar, heldur er það flutt í andstöðu við meiri hlutann. Það mun alveg einsdæmi, að mál hliðstæð þessu skuli vera flutt á móti vilja viðkomandi hreppsnefndar. Frv. fylgja ekki meðmæli sýslunefndar Kjósarsýslu. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp álit sýslunefndarinnar í þessu máli, en hennar álit er þannig:

Í fyrsta lagi, að það muni veikja sýsluna mjög verulega, ef Kópavogshreppur, langfjölmennasti hreppurinn af aðeins 5 hreppum sýslunnar, yrði skilinn frá henni.

Það kemur berlega fram af þessum ummælum sýslunefndar Kjósarsýslu, að hún óttast um framtíð sýslunnar.

Í öðru lagi bendir sýslunefnd Kjósarsýslu á, að engin beiðni um kaupstaðarréttindi frá viðkomandi hreppsfélagi liggi fyrir.

Í þriðja lagi lýsir sýslunefndin því yfir, að því aðeins telji hún eðlilegt, að Kópavogshreppur fái kaupstaðarréttindi, að fram komi eindregin viljayfirlýsing meiri hluta sveitarstjórnar í málinu og óumdeilanlegs meiri hluta atkvæðisbærra íbúa sveitarfélagsins.

Í grg., sem fylgir frv., láta flm. þess getið, að borizt hafi áskoranir 760 Kópavogsbúa, 21 árs og eldri, um að gera hreppinn að kaupstað. Þessar áskoranir höfðu ekki borizt Alþ., þegar frv. var lagt fram. Áskoranirnar eru svo til komnar og þeirra þannig aflað, að gengið hefur verið hús úr húsi og safnað undirskriftum undir svo hljóðandi áskorun á lista, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirritaðir kjósendur í Kópavogshreppi skorum hér með á hið háa Alþingi að gera núverandi Kópavogshrepp að sérstöku lögsagnarumdæmi með fullum kaupstaðarréttindum á þingi því, er nú situr, enda rýrir það ekki möguleika á sameiningu við Reykjavík síðar meir.“ — Menn taki eftir orðalaginu, að endirinn á listahausnum er þannig: „enda rýrir það ekki möguleika á sameiningu við Reykjavík síðar meir.“

Nú vita það flestir, bæði í Kópavogshreppi og utan hans, að um framtíð hreppsins er um tvær leiðir að velja, sem að sjálfsögðu hefur verið töluvert rætt um manna á meðal. Það er í fyrsta lagi það, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi, að hann verði gerður að kaupstað með sérstökum kaupstaðarréttindum, eða að hreppurinn sameinist Reykjavík. Áð sjálfsögðu vissu þeir, sem að undirskriftasöfnuninni stóðu, að um þessi tvö atriði standa deilurnar um framtíð Kópavogshrepps. Þeir segjast vera að safna undirskriftum aftur á móti undir áskorun til Alþingis um að gera hreppinn að kaupstað með l. á þessu þingi, en til þess að geta fengið þá menn, sem eru eða kunna að hafa verið með sameiningu við Reykjavík, til þess að skrifa undir, þótt þeir hefðu engan áhuga fyrir, að Kópavogshreppur fengi kaupstaðarréttindi, heldur þveröfugt, var gripið til þess ráðs að setja til viðbótar undir áskorunina um að gera bæinn að sérstöku lögsagnarumdæmi: „enda rýrir það ekki möguleika á sameiningu við Reykjavík“. Með þessu er augsýnilega verið að misnota þá skoðanakönnun, sem átti að fara fram með undirskriftasmöluninni.

Undirskriftasmölun er hæpin aðferð, ef það er ekki skýr og ótvíræð viljayfirlýsing, sem menn skrifa undir. Hér hafa menn verið látnir skrifa undir hvort tveggja í einu: kaupstaðarréttindi nú, sameiningu við Reykjavík. Það hljóta allir að sjá, sem eru ekki fyrir fram blindaðir af ofstæki í þessu máli, að hér hafa verið viðhafðar hæpnar starfsaðferðir og beinlínis villandi.

Fram hefur verið látin fara athugun á því, hve margir af þessum 760, sem skrifa undir, séu kjósendur í hreppnum. Mér er tjáð, að við rannsókn, sem fram hefur verið látin fara, hafi komið í ljós, að um eða yfir 200 manns af undirskrifendum séu ekki kjósendur í hreppnum samkvæmt kjörskrá. Af þessum rúmum 200 er talið að 50–60 séu ekki búsettir í hreppnum. Þá er margt fleira athugavert við þessar undirskriftir, svo sem það, að nokkrir unglingar kváðu hafa skrifað undir, sem hafa ekki náð 21 árs aldri, og jafnvel allt niður í 11 ára krakka. Nafn konu einnar, sem talin er vera fjarverandi erlendis í marga mánuði, stendur á þessum lista. Mörg nöfn eru skrifuð með sömu hendi, án þess að nokkur skýring sé gefin þar á, nöfn ekki handsöluð til undirskriftar o.s.frv. Þá hafa allmargir útlendingar, sem eru ekki íslenzkir ríkisborgarar, skrifað undir áskorunina. Það væri ekki úr vegi, að nöfn slikra manna yrðu nánar athugúð, ef ske kynni, að einhver þeirra hefði sótt nú um ríkisborgararétt. Það virðist vera ótímabært fyrir þá útlendinga, sem hér fá að dvelja um stundarsakir, án þess að hafa öðlazt nein sérstök réttindi, að vera að blanda sér í viðkvæm deilumál meðal Íslendinga.

Að öllu þessu athuguðu er það augljóst mál, að undirskriftir þær, sem nú hafa borizt Alþingi um áskorun um að samþykkja þetta frv., eru harla lítils virði og sýna á engan hátt, eins og hv. fim. vilja vera láta, óumdeilanlegan vilja meiri hluta kjósenda í Kópavogshreppi, eins og sýslunefndin vildi gera þó að skilyrði og flm. telja nú að hafi verið fullnægt. Þessu hefur ekki verið fullnægt, síður en svo.

Á fundi, sem hreppsnefnd Kópavogshrepps hélt 9. marz s.l., var samþykkt að láta fram fara leynilega atkvgr. meðal kjósenda í hreppnum, þar sem yrði spurt um í fyrsta lagi, hvort þeir væru samþykkir því, að Kópavogshreppi verði veitt kaupstaðarréttindi. Í öðru lagi, hvort þeir óski eftir samningaviðræðum. Atkvæðagreiðslan á að fara fram 24. apríl n.k. Hér er um að ræða tvær sjálfstæðar spurningar, og geta kjósendur við leynilega atkvgr. sett já eða nei við hvora spurningu sem er. Hér er um fullkomlega lýðræðislega aðferð að ræða og þá einu færu leið, sem hægt er að fara til þess að fá úr því skorið, hver sé raunverulegur vilji kjósendanna í hreppnum í málinu.

Þess hefði mátt vænta, að flm. frv. hefðu frestað flutningi þess, þar til úrslit þessarar atkvgr. væru kunn, og því verður ekki trúað á þessu stigi málsins a.m.k., að hv. Alþ. afgreiði málíð fyrr en að lokinni hinni leynilegu atkvgr.

Ef forsvarsmenn þessa máls eru öruggir um fylgi meiri hluta kjósenda með málinu, ætti þeim að vera kærkomið að fá þá skoðun sína staðfesta við leynilega atkvgr. meðal Kópavogsbúa og ættu því að geta beðið úrslitanna rólegir.

Ég hef nú hér að nokkru skýrt þetta mál frá ýmsum hliðum, aðdraganda þess og undirbúning. Ég hef enn fremur að nokkru rætt um þau skilyrði, sem hingað til hefur í hverju einstöku tilfelli verið álitið að þyrfti að uppfylla, þegar Alþ. hefur samþykkt l. um kaupstaðarréttindi. Þessi skilyrði eru í fyrsta lagi, að sveitarstjórnin óski þess; annað, að íbúarnir óski þess, a.m.k. yfirgnæfandi meiri hluti þeirra; þriðja, að sýslunefnd mæli með því. Ekkert af þessu liggur fyrir í sambandi við þetta mál. Flutningsmenn frv. minnast í grg. sinni ekki einu orði á afstöðu sveitarstjórnarinnar til málsins. Hvers vegna ekki? Í áliti sýslunefndar er það beinlínis upplýst, að málið sé ekki flutt eftir beiðni sveitarstjórnarinnar. Nú hefur sveitarstjórnin í Kópavogshreppi gert ályktun um þetta mál. Hvernig stendur á því, að flm. stinga þeirri ályktun undir stól? En úr því að flm. hafa af einhverjum lítt skiljanlegum ástæðum ekki birt neitt um afstöðu sveitarstjórnarinnar í málinu, er það sjálfsagt, að sú n., sem fær málið til meðferðar, sendi það til umsagnar sveitarstjórninni, svo að alþm. gefist kostur á því að vita einnig um hennar afstöðu. Allt annað væri hin freklegasta móðgun við hreppsnefnd Kópavogshrepps og um leið móðgun og lítilsvirðing við íbúa hreppsins.

Um þá hlið málsins, hvort það sé sérstakt hagsmunamál fyrir íbúa Kópavogshrepps að öðlast kaupstaðarréttindi, má að sjálfsögðu margt segja. Í Kópavogshreppi eru nú fá og litil atvinnutæki. Mikill meiri hluti Kópavogsbúa sækir atvinnu sína til Reykjavíkur, og það er eitt stærsta atriðið, sem ekki er hægt að ganga fram hjá, þegar um þetta mál er að ræða. Bæjarfélag án sæmilegra atvinnuskilyrða er fyrir fram dæmt til að gefast upp í baráttunni. Þetta er deginum ljósara fyrir hvern þann. sem hugsa vill hlutlaust um málið. Nú þegar hefur Kópavogshreppur margt sameiginlegt með Reykjavík, svo sem sima, rafmagn, vatn, póst o. fl. Kópavogshreppur er að mestu vaxinn saman við Reykjavík eða réttara sagt við Fossvog, sem er hluti af Reykjavík. Eins og nú er, hafa Kópavogsbúar vinnurétt í Reykjavík, en hvað verður, ef svo illa skyldi fara, að atvinnuleysi héldi innreið sína t.d. í Reykjavík? Mundu Kópavogsbúar verða taldir fullkomlega hlutgengir á yfirfullum vinnumarkaði í Reykjavík, eftir að hreppurinn væri orðinn sjálfstætt lögsagnarumdæmi? Hafa flm. þessa frv. athugað þessa hlið málsins? Vilja fim. taka á sig ábyrgðina, ef illa fer, ef aftur skyldi koma atvinnuleysi, sem við að sjálfsögðu vonum að ekki verði? Þó er allt á huldu í slíkum málum. Í okkar þjóðfélagi er ekkert, sem heitir það að vera atvinnuöryggi. Á hvaða tíma sem er getur atvinnuleysi skollið yfir, jafnvel hér í Reykjavík. Ég er hræddur um, að verkamenn úr öðrum lögsagnarumdæmum yrðu að einhverju leyti að víkja fyrir þeim, sem ættu heima í Reykjavík, enda er reynslan ólygnust í þessu máli sem öðrum. Á atvinnuleysistímum lokar hvert bæjarfélag vinnumarkaðinum, eftir því sem hægt er, og er Reykjavík sjálfsagt þar engin undantekning. Það er ekki heldur hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að stofnun sérstaks bæjarfélags hefur mikinn fjárhagslegan kostnað í för með sér fram yfir það, sem nú er. Í slíkan kostnað væri þó ekki horfandi, ef hér væri um hagsmunamál að ræða fyrir hreppsfélagið. En engin rök hafa verið færð fram fyrir því, að svo sé, heldur hið gagnstæða.

Við athugun á þessu máli virðist mjög margt mæla með því, að Kópavogshreppur sameinist Reykjavík. Að sjálfsögðu yrði slík sameining að fara fram með gagnkvæmum samningum beggja aðila, Reykjavíkur og Kópavogshrepps. Slík tilraun til sameiningar á að geta farið fram án nokkurra illdeilna. Þó er þetta fyrst og fremst mál, sem íbúar Kópavogshrepps eiga sjálfir að gera upp sín á milli. Það er þeirra að ákveða um það, hvor leiðin verður farin; það er þeirra að ákveða um framtíð sveitarfélags síns.

24. apríl gefst svo þeim við leynilega atkvgr. að segja álit sitt um það, hvort þeir óska frekar bæjarréttinda fyrir Kópavogshrepp eða sameiningar við Reykjavík. Ég vona, að hv. alþm. verði mér sammála um að afgreiða ekki frv. þetta fyrr en að lokinni atkvgr. í hreppnum, svo að fyrir liggi vilji kjósenda í Kópavogshreppi um þetta mál.